spot_img
Thursday, November 7, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaLeikgreining: Oliveira vs. Makhachev

Leikgreining: Oliveira vs. Makhachev

Í aðalbardaga helgarinnar mætast Charles Oliveira og Islam Makhachev um léttvigtarbeltið í UFC. Bardaginn er gríðarlega jafn og erfitt að spá fyrir um hvernig hann fer en hann verður á þægilegum tíma fyrir íslenska áhorfendur.

Charles Oliveira er á 11 bardaga sigurgöngu og hefur klárað 10 af þeim bardögum. Við höfum í tvö skipti greint bardaga Oliveira áður og má finna meira um bardagastíl hans hér og hina greininguna hér.

Í síðasta bardaga Oliveira sýndi fyrrum meistarinn góða beina hægri sem hann notaði til að slá niður Justin Gaethje áður en hann kláraði bardagann með hengingu. Þar á undan sáum við hann berjast vel á móti örvhentum andstæðing þar sem hann notaði spörk í skrokkinn í bland við hné í skrokkinn úr „clinchinu“ til að þreyta Dustin Poirier.

Í báðum bardögum sáust þó einnig greinilega varnarlegir vankantar Oliveira þar sem hann var sleginn niður í báðum bardögum. Oliveira notar mikla pressu með beinum höggum og spörkum en teygir sig í höfuð andstæðingsins til að ná „collar tie“ og opnar sig þar með fyrir höggum. Hann notar mikið af hnjám í skrokkinn í „clinchinu“ og oft sleppir hann „clinchinu“ með olnboga (sjá mynd 1).

Mynd 1. Oliveira grípur um höfuð Lentz með ‘collar tie’ og hnjáar hann í þyndina.

Islam Makhachev hefur oft verið kallaður tæknilega betri útgáfan af Khabib þar sem hann hefur sýnt betri tæknilega getu standandi. Það sem hann hefur þó vantað í samanburðinum við Nurmagomedov er ákafinn sem Khabib notaði til að brjóta andstæðinga sína.

Standandi notar Makhachev mikið af spörkum og hefur góðan hægri krók sem hann notar til að stöðva andstæðinga sem ætla að loka fjarlægðinni hratt. Makhachev hefur góða stjórn á fjarlægð og fær lítið af höggum á sig. Ef að andstæðingur nær að loka fjarlægðinni gegn Makhachev notar hann fellurnar sínar sem eru ekki síðri en hjá Khabib.

Makhachev notar mikið af fellum úr „clinch“ við efri líkamann í bland við að sækja í lappirnar (sjá mynd 2). Þá lendir hann oft frá búrinu sem gæti komið sér verr gegn Oliveira sem hefði þá pláss til að sækja úr „guardinu“ sínu.

Mynd 2. Makhachev tímasetur vel felluna og sópar fætinum undan Tsarukyan þegar Tsarukyan fleygir hnénu og er því á einum fæti.

Leiðir til sigurs:

Charles Oliveira

Oliveira mun líklegast pressa mikið og verða beinu höggin og framsparkið í skrokkinn lykill að velgengni. Hann mun gefa færi á „clinchinu“ og skiptir máli að hann nýti þau til að lenda hnjám í skrokkinn og olnbogum. Ef hann lendir upp við búrið gæti Oliveira tekið upp á því að hoppa í „guard“ og þarf hann að passa sig að reyna að koma sér frá búrinu til að vera ekki stjórnað þar.

  • Nota stífa pressu og mikið af höggum og spörkum til að þreyta Makhachev
  • Halda sig frá búrinu eins og hann getur, líka í gólfinu
  • Sækja sjálfur í fellur, nota „clinchið“ síðan til að lenda hnjám í skrokkinn til að þreyta Makhachev

Islam Makhachev

Makhachev mun líklega reyna að halda fjarlægð eða loka henni alfarið og komast í stöður þar sem hann hefur mikla stjórn. Islam er gríðarlega sterkur og ef hann getur haldið Oliveira upp við búrið og stjórnað honum gæti Islam náð að brjóta Oliveira andlega og unnið lotur á meðan.

  • Grípa „bodylock“ og ýta Oliveira upp við búrið og halda honum nálægt þannig hann hafi ekki pláss til að hnjáa eða olnboga
  • Halda Oliveira með höfuðið upp við búrið í gólfinu og lenda litlum höggum
  • Stökkva á tækifærið þegar Oliveira verður pirraður og reynir að standa upp til að ná á honum bakinu og í hengingu

Þetta er einn mest spennandi bardagi ársins og margir beðið eftir honum með mikilli eftirvæntingu. Hann gæti orðið leiðinlegur þegar á líður ef Makhachev nær að stjórna honum í fimm lotu dómaraákvörðun en þetta gæti einnig orðið bardaginn þar sem Oliveira dregur út allt það besta í Makhachev og við sjáum tvo bestu bardagamenn í heimi, með gjörsamlega ólíka stíla, leggja allt undir.

Fyrsti bardaginn á UFC 280 hefst kl. 14:00 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 18:00 og er í beinni á Viaplay með íslenskri lýsingu.

spot_img
spot_img
spot_img
Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular