spot_img
Wednesday, December 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaLeikgreining: Oliveira vs Poirier

Leikgreining: Oliveira vs Poirier

Í aðalbardaga laugardagskvöldsins mætast tveir bestu léttvigtarmenn í heimi. Dustin Poirier er af mörgum talinn besti léttvigtar bardagamaður í heimi og þykir líklegri af veðbönkum. Charles Oliveira hefur þó beltið af ástæðu og hefur sýnt í síðustu bardögum hvers vegna það má ekki vanmeta hann.

Oliveira berst hávaxinn, notar mikið bein högg og framspörk og sækir í fellur ef hann lendir í vandræðum standandi. Við höfum áður skoðað Charles Oliveira og má sjá nánari greiningu á hans stíl hér.

Poirier skiptir reglulega um stöðu, hefur góða króka og finnur frumlegar leiðir til að lenda höggum úr alls kyns stöðum. Við höfum einnig skoðað Dustin Poirier og má sjá nánari greiningu á hans stíl hér.

Líklegt útspil bardagans

Standandi verður Poirier að teljast líklegri. Síðast þegar hann barðist við hávaxinn rétthentan andstæðing notaði hann vinstra spark í skrokkinn vel og verður áhugavert að sjá hvort hann nái árangri með því gegn Oliveira. Oliveira hefur þó sýnt að hann kann að verjast því, en það skilur hann eftir á einum fæti (sjá mynd 1). Því er spurning hvort Poirier geti gabbað hann með sparkinu og notfært sér stöðuna til að lenda höggum.

Mynd 1. Oliveira lyftir fremri fætinum alla leið fyrir framan skrokkinn og ver þannig sparkið. Hann setur aftari hendina upp til að verjast ef sparkið er höfuðspark. Hann er þó opinn fyrir hægra höggi og er í slæmri stöðu til að taka því, standandi á öðrum fæti.

Poirier „shiftar“ mikið þar sem hann skiptir um fótastöðu í miðri fléttu og endar oft á yfirhandarhægri. Oliveira stendur með hendurnar háar en snýr oft undan hægri hendi andstæðings og gæti því verið galopinn fyrir þeirri árás Poirier.

Oliveira hefur ekki barist við örvhentan andstæðing í langan tíma. Hann „checkar“ fremri hönd andstæðingsins þegar hann berst við örvhenta og notar mest beina hægri og aftara framspark. Hann hefur þó unnið mikið í vinstri króknum sínum og gæti auðveldlega notað hann til að koma Poirier í vandræði ef Poirier setur ekki árásirnar sínar vel upp.

Ef að Oliveira lendir í erfiðleikum standandi mun hann líklega sækja í fellu en þar verður hann að passa sig. Því þótt að Oliveira sé líklega betri í gólfinu er Poirier með stórhættulegt „arm-in guillotine“. Oliveira lenti í smá veseni með það í seinasta bardaga sínum en Poirier er hættulegri en Michael Chandler með henginguna og því þarf Oliveira að fara varlega. Poirier á það þó til að gefa felluna til að reyna að ná hengingunni og gæti Oliveira notfært sér það til að ná Poirier niður.

Poirier gæti sjálfur sótt í fellu enda einnig svart belti í gólfinu og gæti hann notað fellurnar til að halda Oliveira á tánum. Oliveira er þó stórhættulegur með hengingar úr „front headlock“ og því þarf Poirier að tímasetja vel ef hann ætlar að sækja í fellu (sjá mynd 2). Þar að auki er Oliveira mjög virkur að sækja af bakinu og því ólíklegt að Poirier noti fellurnar nema til tilbreytingar og til að setja upp högg.

Mynd 2. Oliveira heldur Hioki í „front head lock“, þaðan dregur hann vinstri hendina sína undir handakrikann á Hioki. Oliveira læsir „rear naked choke“ gripi, stendur upp og sest niður með fæturnar utan um skrokk Hioki og klárar þannig henginguna og neyðir Hioki til að gefast upp.

Því lengur sem bardaginn fer, því líklegra er að Poirier fari af hólm með sigurinn. Oliveira hefur verið vanmetinn þegar kemur að getu hans til að fara í gegnum erfiða bardaga en Poirier elskar ekkert meira en blóðugt stríð í búrinu. Þar sem Poirier er reynslumeiri í erfiðum og blóðugum bardögum og hefur sýnt að hann getur unnið bardaga seint þrátt fyrir vandræði í byrjun, verður hann að teljast líklegri ef bardaginn verður langur og sérstaklega ef hann er jafn.

Hér leiða saman hesta sína tveir af bestu bardagamönnum í heimi, og litlar líkur á að bardaginn verði nokkuð annað en veisla að horfa á. Ekki missa af þessum.

spot_img
spot_img
spot_img
Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular