Þeir Jose Aldo og Conor McGregor mætast í aðalbardaganum á UFC 194 í desember. Kapparnir áttu að mætast fyrst í sumar en ekkert varð úr bardaganum vegna rifbeinsmeiðsla Aldo. Nú hefur UFC gert ráðstafanir til að koma í veg fyrir annað slíkt.
Aldo hlaut rifbeinsmeiðslin aðeins þremur vikum fyrir bardagann stóra. UFC höfðu aldrei eytt eins miklum peningum í að kynna bardaga og fóru þeir Aldo og McGregor á heimstúr til að kynna bardagann. Vonbrigðin fyrir UFC og bardagaaðdáendur voru því mikil þegar Aldo meiddist.
Mánuður er í bardagann núna og hefur Lorenzo Fertitta, framkvæmdastjóri UFC, gefið Jose Aldo sérstakt vesti til að hlífa rifbeinum Aldo á æfingum. Þetta er haft eftir Vivianne Oliveira, eiginkonu Jose Aldo, í samtali við brasilíska vefinn Combate. „Lorenzo gaf honum tvo boli með sérstakri hlíf fyrir rifbeinunum,“ segir Oliveira.
Vestið verndar auðvitað bara efri búkinn og gæti Aldo meiðst á öðrum stöðum. „Hann getur auðvitað meiðst á hné eða litla fingri, þetta er harðgerð íþrótt,“ sagði hún enn fremur.
Við skulum vona að báðir haldist heilir fram að 12. desember er UFC 194 fer fram.