Magnús Ingi Ingvarsson ræddi við MMA Fréttir á dögunum þar sem hann fór yfir frábært ár í fyrra og framhaldið. Magnús berst sinn sjötta bardaga á Shinobi War 4 bardagakvöldinu í mars.
Magnús átti frábært ár í fyrra en hann sigraði alla þrjá bardaga sína með rothöggi í fyrstu lotu. Magnús segist ekki hafa átt von á þessum árangri í upphafi ársins.
„Ég hafði rosalega litla trú á strikinginu mínu í upphafi síðasta árs og var í rauninni að æfa miklu meiri glímu heldur en box. Það kom mér því rosalega á óvart að ég skyldi hafa rotað alla þrjá andstæðinga mína í fyrra og sá það ekki fyrir. Ég bjóst frekar við sigrum með uppgjafartaki en ég hafði aldrei áður slegið einhvern niður þegar ég rotaði andstæðinginn minn í fyrsta bardaga mínum á árinu, það var skrítið.“ Magnús hélt að hann væri lang sterkastur í gólfinu en er nú á öðru máli. „Ég myndi segja að ég væri mjög well rounded núna. Núna veit ég að ég þarf ekki nema eitt högg til að slá menn niður.“
Magnús barðist síðast með fremur stuttu millibili en rúmar fjórar vikur liðu á milli bardaga. „Mér fannst rosalega fínt að berjast með svona skömmu millibili. Í fyrri bardaganum var þetta dálítið erfiður niðurskurður. Eftir bardaga er maður smá tíma að bæta á sig þessum kílóum en ég fékk að vita það vikuna eftir að ég barðist að ég fengi nýjan bardaga eftir mánuð. Þá hélt ég mér bara í minni þyngd og mér fannst það bara mjög fínt, var einbeittur. Þegar ég fékk bardagann í október var ég nýkominn frá Tyrklandi úr smá sumarfríi. Þá var ég 82 kg og fór niður í 70 kg á tveimur mánuðum, það var þægilegt að geta haldið mér í minni þyngd.“
Fyrir bardaga sinn í desember missti hann upphaflega andstæðinginn sinn. Magnús var án andstæðings alveg þangað til kom að fluginu til Englands. „Ég æfði alveg eins og ég væri með andstæðing, ég missti hann sem sagt þremur vikum fyrir bardagann. Ég hélt samt áfram að æfa vel en svo veiktist ég og fékk flensu tveimur vikum fyrir, gat ekkert æft og var því opinn fyrir því að keppa í þyngri flokkum svo ég þyrfti ekki að klára niðurskurðinn í veikindunum. Þegar Jón Viðar [formaður Mjölnis] sótti mig á leið út á flugvöll sagði hann mér að ég væri kominn með andstæðing.“
Magnúst kveðst hafa verið glaður með að fá andstæðing en viðurkennir að hafa verið smá smeykur þar sem hann var ennþá með hita og kvef. Hann var samt búinn að æfa það vel að hann var tilbúinn í þrjár lotur ef að því kæmi. Magnús kláraði þó bardagi sinn með rothöggi í fyrstu lotu líkt og alla bardaga ársins en nú blundar í Magnúsi þrá til að taka aðeins lengri bardaga.
„Mig langar að fara í þriggja lotu bardaga þar sem ég vinn eftir dómaraákvörðun. Ég vil fá þessa reynslu áður en ég fer í atvinnumannabardaga en það styttist rosalega í það. Átökin þar verða auðvitað rosaleg þar sem þar eru lengri lotur og betri andstæðingar. Ég er alltaf með endalausa orku eftir bardagann og þarf oft að fá að glíma smá til að ná mér niður.“
Af myndbandinu úr síðasta bardaga að dæma virkaði Magnús mjög öruggur. „Ég var samt smá stressaður í byrjun þar sem ég var nýbúinn að vera veikur. Ég var stressaður fyrir læknisskoðunina og hafði áhyggjur af því að fá hóstakast en þegar ég fór í búrið og byrjaði þá gleymdist einhvern veginn allt, eins og gerist alltaf hjá mér – maður dettur bara í zone-ið. Ég hitti hann strax með stungu og eftir fyrstu tvö höggin hjá mér var ég kominn í gott flæði og þá leið mér strax rosalega vel. Ég var kannski smá cocky eftir síðasta bardaga og það spilaði inn í en mér leið mjög vel í bardaganum.“
Eftir að hafa gert jafntefli í fyrsta bardaga sínum fyrir tæpum þremur árum síðan hefur Magnús sigrað fjóra bardaga. Magnúsi þykir gaman að horfa á fyrsta bardagann en þar lærði hann mikið um sjálfan sig. „Mér finnst alltaf gaman að sjá gamla bardaga, sérstaklega þann fyrsta. Þarna fékk ég virkilega að finna hvort ég hefði hjartað í þessa íþrótt, hvort ég gæti haldið áfram, hvað ég þyrfti að bæta og þetta er bara lang skemmtilegasta upplifun mín í búrinu hingað til.“
Mjölnir og SBG í Írlandi eru í góðu samstarfi og koma írskir bardagamenn reglulega hingað til lands að æfa en þar á meðal eru UFC bardagamennirnir Conor McGregor, Cathal Pendred og Paddy Holohan. „Ég græddi rosalega mikið á að æfa með þeim síðasta sumar, sérstaklega að sparra við Conor [McGregor], hann er með rosalega gott flæði og er út um allt. Mér finnst líka gott að hugsa til þess að Conor var á sama stað og ég er núna á einhvern tímann á ferlinum en í dag er hann risastór UFC stjarna. Sama með Gunna [Gunnar Nelson], þetta er allt bara fyrir framan mann. Þetta eru æfingafélagar manns og þessi leið er bara galopin fyrir mann.“
Magnús kveðst finna mikinn mun á sér frá því hann byrjaði og þá sérstaklega á æfingum með reyndari bardagamönnum Keppnisliðsins. „Þegar Keppnisliðið var sett saman þá var mjög erfitt að fara á móti Gunna og Árna [Ísakssyni] í búrinu. Maður vissi ekkert hvað maður var að fara út í þá, maður varð rosalega stressaður og stífnaði upp og leið í rauninni ekkert vel. Maður var bara í survival mode í 5 mínútna lotu og reyndi að gera eitthvað. En í dag þá er þetta allt öðruvísi, í dag reyni ég að finna leið til sigurs. Gunni er auðvitað rosalega góður en samt reynir maður að finna einhverja leið til að vinna lotuna. Það gengur betur núna en fyrst og maður er ekki lengur í sama pakka að stífna upp. Það kemur með reynslunni og æfingum.“
Lífið virðist snúast um lítið annað en æfingar og keppnir hjá Magnúsi en hvernig er venjulegur dagur hjá honum? „Ég er yfirleitt vaknaður upp úr 7 og fer á æfingu í Gerplu með vini mínum. Hann er búinn að vera í mörg ár í fimleikum og er að taka mig í styrktarþjálfun þrisvar til fjórum sinnum í viku. Ég fíla það rosalega vel að styrkja mig á öðruvísi hátt en að vera í lóðunum, fæ betra jafnvægi og sprengikraft án þess að vera að þyngjast mikið. Eftir það fær maður sér kannski að borða og kíkir á hádegisæfingu, tek kannski smá drill. Síðan held ég í vinnuna en ég vinn sem frístundaleiðbeinandi í Rimaskóla í Grafarvogi. Þar er ég að vinna frá 13-17 og fer svo á kvöldæfingu eftir það. Á kvöldin reyni ég svo að hitta félagana eða pæla í einhverju allt öðru en MMA, algjörlega að zone-a mig út frá því þar sem allur dagurinn fer nánast í það.“
Framundan hjá Magnúsi er bardagi 7. mars í Shinobi War bardagsamtökunum. Andstæðingur Magnúsar hefur sigrað alla fimm bardaga sína og ætti því að vera verðugur andstæðingur. „Ég hef mjög mikla trú á því að ég sé að fara að vinna, jafnvel í 1. lotu. Síðan er aðal stefnan á þessu ári að fara í atvinnumennsku, helst eftir sumarið.“
GamanFerðir verða með ferð á bardagana en auk Magnúsar keppa þeir Birgir Örn og Bjarki Ómarsson á bardagakvöldinu. „Það gefur mér ennþá meiri ástæðu til að vinna ef það koma Íslendingar út að horfa á. Ég er ekki að fara að tapa fyrir framan Íslendinga, ekki séns.“
Nánari upplýsingar um ferðina má finna hjá GamanFerðum hér.