Ronda Rousey tapaði titlinum sínum um helgina til Holly Holm. Mánudagshugleiðingarnar verða því að mestu leyti tileinkaðar þessum óvæntu úrslitum.
Rousey á skilið meiri virðingu
Úrslitin hafa vakið gríðarlega athygli enda Rousey ein stærsta stjarnan í MMA heiminum. Rousey er kjaftfor, hefur talað niður til andstæðinga sinna og á marga gagnrýnendur. Margir hafa því nýtt tækifærið og gert grín að Rousey eftir tapið sem er afskaplega leiðinlegt að sjá. Þó hún hafi litið ekkert sérstaklega vel út í bardaganum má ekki gleyma öllu því sem hún hefur afrekað. Ef það væri ekki fyrir hana hefði Holly Holm sennilega aldrei orðið bantamvigtarmeistari UFC einfaldlega þar sem kvennaflokkarnir hefðu ekki orðið til í UFC.
This is how warriors behave. When it’s over, its over. Theres a lot of disrespectful fans that could learn from this pic.twitter.com/MxYOz5FKAL
— Coach Kavanagh (@John_Kavanagh) November 16, 2015
Hún hafði gjörsamlega valtað yfir samkeppnina sem var ýmist ekki á hennar getustigi (Alexis Davis, Bethe Correia) eða með hræðilega leikáætlun (Cat Zingano) og leit út fyrir að vera ósigrandi. Við getum kannski öll dregið lærdóm af þessum bardaga. Enn og aftur sást að enginn er ósigrandi og „styles makes fights“. Holm leit ekkert frábærlega vel út gegn Raquel Pennington og Marion Reneau en það gerði hún hins vegar gegn Rousey. Það eru rétt svo 18 mánuðir síðan Renan Barao var talinn ósigrandi en núna er TJ Dillashaw talinn ósigrandi. Það geta allir tapað og það er afskaplega sjaldgæft að sjá keppendur halda belti jafn lengi og Anderson Silva og Georges St. Pierre gerðu.
Af hverju fór hún ekki í fellu?
Margir hafa velt því fyrir sér hvers vegna Rousey reyndi ekki að fara í fellu, sérstaklega í ljósi þess hve illa henni gekk standandi. Svarið er einfalt, hún var að reyna það allan tímann, en Holm hélt henni frá sér allan tímann. Í hvert sinn sem Rousey reyndi að pressa á Holm til að ná taki á henni át hún beina vinstri. Pressan frá Rousey var mikil en einfaldlega fyrirsjáanleg og ekki nógu góð. Rousey elti Holm í stað þess að króa hana af upp við búrið. Og þar liggur ábyrgðin hjá..
Þjálfarinn
Edmond Tarverdyan er yfirþjálfari Rondu Rousey en hann hefur verið harðlega gagnrýndur eftir helgina. Tarverdyan er boxþjálfari að upplagi en samt sýndi Rousey marga veikleika standandi sem margir meina að alvöru þjálfari hefði fyrir löngu verið búinn að lagfæra. Ráð hans í horninu eftir 1. lotuna þykja í besta falli undarleg þar sem hann sagði að þetta hefði verið: „Frábær lota, en haltu höndunum uppi“. Það var ekkert um tæknilega ráðleggingu þegar Rousey þurfti á því að halda. Kannski vissi hann ekki hvernig átti að bregðast við og það er stærra áhyggjuefni. Þetta er í fyrsta sinn sem Rousey lendir í einhverjum vandræðum og brást hann ekki nógu vel við.
Tarverdyan er umdeildur og fá menn nú auðvelt skotfæri á hann. Gagnrýnendur hans, eins og mamma Rousey, segja hann hafa dottið í lukkupottinn með Rousey og hafa aðrir bardagamenn sem hann hefur þjálfað ekki náð góðum árangri á undanförnu (samanber Jessamyn Duke og Jake Ellenberger). Auk þess lét hann hafa eftir sér eftir bardagann að honum fannst Holm ekki vera að vinna baráttuna standandi.
Rangt að segja að boxarinn hafi unnið
Sigur Holly Holm hefur verið sagður sigur boxarans Holly Holm. Undirritaður er ósammála þeirri staðhæfingu. Holly Holm er ekki boxari, hún er „mixed martial artist”. Vissulega notaði hún frábæru fótavinnuna sína og sína beinu vinstri úr boxinu en hún notaði líka margt annað. Hún notaði líka sparkboxið sitt þegar hún rotaði hana með hásparkinu, notaði BJJ til að sleppa úr „armbar“ þegar þær lentu í gólfinu og glímu (e. wrestling) til að taka Rousey niður og halda sér standandi er Rousey náði „clinchinu“. Hún er einfaldlega MMA bardagakona.
Joanna gleymist
Nánast ekkert hefur verið skrifað um Joanna Jedrzejczyk enda sigur hennar fallið í skuggann á óvæntum sigri Holm. Hún átti hins vegar frábæra frammistöðu gegn Valerie Létourneau sem átti einnig mjög góða frammistöðu. Létourneau stóð sig mun betur en flestir bjuggust við og gæti farið upp um nokkur sæti á styrkleikalistanum þrátt fyrir tapið. Jedrzejczyk braut höndina sína í bardaganum og verður frá í einhvern tíma.
Næsta bardagakvöld UFC er á laugardaginn þegar TUF Latin America 2 Finale fer fram. Þar mætast þeir Neil Magny og Kelvin Gastelum í aðalbardaga kvöldsins.
Það er rétt að Holly Holm er martial artist en það var samt reynslan úr hnefaleikum sem lögðu upp rot sparkið hún hins vegar notaði hnéspörk til að söðva Rondu í sporunum olnboga meðal annas í bland við óðafinnalega fótavinnu í návíginu hafði hún einfaldlega líkamanlega styrk til að haldi henni frá fellu ronda var orði nánast örmagna í lok 1 lotu sem gerði Holly auðveldari fyrir það sem stakk mig var þetta algjöra ráðarleisi hjá Rondu og ekkert plan virtist hafa verið lagt upp með hún vissi altaf við hverju var að búast hafði talað um það í sjónvarpi hvernig Holly myndi berjast og það gekk eftir Holly barðist nákvæmlega eins og Ronda vissi að hún myndi gera samt var hún á engan hátt undirbúin fyrir það ég held að svarið við því hvessu hörmulega hún stóð sig sé sú hún er með ónothæfan þjálfara.