spot_img
Thursday, December 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 207

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 207

UFC 207 fór fram síðasta föstudag þar sem Amanda Nunes sigraði Rondu Rousey mjög örugglega. Það er margt sem þarf að ræða eftir þetta bardagakvöld en hér eru Mánudagshugleiðingarnar eftir UFC 207.

Það tók Amöndu Nunes ekki nema 48 sekúndur að klára Rondu Rousey með tæknilegu rothöggi. Það var ótrúlegt að horfa upp á þetta. Það er ekki langt síðan Ronda Rousey gaf öllum keppinautum sínum martraðir en á föstudaginn leit út fyrir að hún ætti ekki heima þarna. Hún entist ekki í eina mínútu og það er ekki eins og þetta hafi bara verið eitt högg sem kláraði hana líkt og í tilfelli Jose Aldo. Þetta voru röð högga og voru yfirburðirnir í raun ótrúlegir.

Amanda Nunes vissi allan tímann nákvæmlega hvað hún ætlaði að gera. Strax kom hún með harða stungu í andlit Rousey og hélt áfram með beinu höggin sem hittu nánast alltaf í grafkyrran hausinn á Rondu. Ronda reyndi að minnka fjarlægðina og komast í „clinchið“ en beinu höggin frá Nunes komu í veg fyrir það. Nunes var með frábæra leikáætlun frá fyrstu sekúndu og fylgdi því eftir um leið og bjallan glumdi.

Margir efuðust um að Ronda væri búin að jafna sig á tapinu gegn Holly Holm. Það er erfitt að segja til um það á þessari stundu en Rondu virtist mjög brugðið eftir fyrsta höggið líkt og einhver sem er að berjast í fyrsta sinn. Það var eins og hún væri ekki vön að fá högg í sig og veltir maður því fyrir sér hvort hún hafi tekið margar lotur með góðum æfingafélögum fyrir bardagann. Þetta var eins og nýliði sem er að taka fyrsta bardagann sinn gegn reynslubolta, svo mikill var munurinn. Allt hrundi eftir fyrsta höggið og var einfaldlega engin vörn gegn höggum til staðar.

Ronda leit út fyrir að vera í frábæru formi, fékk að sleppa því að tala við fjölmiðla og fékk í raun allt sem hún vildi. Það er því engin afsökun fyrir þessari frammistöðu. Margir skella skuldinni á þjálfarann enda hefur enginn bardagamaður, nema Ronda Rousey, staðið sig vel hjá honum. Ronda verður þó að taka ábyrgð sjálf. Hún ákvað að halda sér við þennan þjálfara og horfast ekki í augu við vandamálið.

Amanda Nunes verður kannski aldrei jafn stór stjarna og Ronda en hún gæti orðið stórt nafn í MMA heiminum. Hún er með áhugaverða baksögu, er með skemmtilegan stíl og er skemmtileg í viðtölum. Hún mun sennilega mæta sigurvegaranum úr viðureign Valentinu Shevchenko og Juliana Pena í lok janúar og væri það dæmigert ef við myndum enn einu sinni fá nýjan meistara í bantamvigt kvenna.

Núna er stóra spurningin, hvað er næst hjá Rondu? Ronda hefur verið með annan fótinn í Hollywood lengi en Chael Sonnen kom með áhugaverða punkta eftir bardagann í viðtali við ESPN. Þegar þú ert á toppi tilverunnar, vinnandi hvern bardagann á eftir öðrum vilja þig allir. Núna þegar hún er í fyrsta sinn á ferlinum á taphrynu, mun Hollywood ennþá hafa sama áhuga? Munu Conan O’Brien, Ellen og þessir spjallþættir ennþá vilja fá hana sem gest?

Cody Garbrandt setur beltið á Maddux.

Cruz tapaði en bar sig vel

Cody Garbrandt átti ótrúlega frammistöðu gegn Dominick Cruz. Hann kýldi meistarann niður nokkrum sinnum, varðist öllum hans fellum og sigraði eftir dómaraákvörðun. Fyrirfram var talið að eina leið Garbrandt til sigurs væri rothögg snemma í bardaganum. Garbrandt sýndi að hann væri meira en bara einhver rotari og vann fleiri lotur en Cruz. Frábær frammistað hjá Garbrandt og ein besta frammistaða síðasta árs.

Fyrir utan bardagann sjálfan var eiginlega áhugaverðast að sjá hvernig Cruz tók tapinu. Hann bar sig gríðarlega vel á blaðamannafundinum eftir tapið, sagðist hafa notið hverrar einustu sekúndu í bardaganum og var með engar afsakanir. Hann óskaði Cody Garbrandt til hamingju en var staðráðinn í að koma aftur. Ronda Rousey getur lært margt af Dominick Cruz en það er svona sem maður tekur tapi.

Það verður áhugavert að sjá Garbrandt vaxa eftir þetta en hann mun sennilega mæta T.J. Dillashaw í sinni fyrstu titilvörn. Það má segja ýmislegt um Garbrandt og viðtölin með Cruz en eitt verður ekki tekið af honum og það er hvernig hann hagaði sér eftir að hann fékk beltið. Garbrandt gaf Maddux Maple, ungum vini sínum beltið, en Maddux sigraði hvítblæði og eru þeir miklir vinir.

Þeir Garbrandt og Maddux gerðu samkomulag sín á milli á sínum tíma, Cody átti að komast í UFC og Maddux að sigrast á hvítblæðinu. Báðir stóðu þeir við sitt og gekk Maddux með Cody í búrið á föstudaginn. Maddux fær að eiga beltið á meðan Garbrandt mun hafa bara eitthvað plastbelti heima hjá sér. Garbrandt er kannski ekki skarpasti hnífurinn í skúfunni (allavegna ekki miðað við Cruz) en hann er með gott hjartalag og er frábær bardagamaður.

Næsta bardagakvöld UFC fer fram þann 15. janúar þegar B.J. Penn mætir Yair Rodriguez.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular