spot_img
Monday, October 7, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 215

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 215

UFC 215 fór fram um helgina og reyndist ágætis bardagakvöld. Amanda Nunes sigraði Valentinu Shevchenko í aðalbardaga kvöldsins og heldur þar með bantamvigtartitli sínum en hér eru Mánudagshugleiðingarnar eftir bardagakvöldið.

Aðalbardagi kvöldsins var engin stórkostleg skemmtun og minnti um margt á síðustu tvo titilbardaga Tyron Woodley. Þetta er ekki gott fyrir UFC þegar titilbardagarnir eru svona óspennandi og kannski eitthvað til að hugsa um. Það er til mikils að vinna í titilbardögunum en sömuleiðis hafa meistararnir miklu að tapa – ekki bara belti í húfi heldur háar fjárhæðir. Nina Ansaroff, unnusta Nunes, sagði að Nunes myndi fara frá milljón dollurum á ári yfir í 60.000 dollara á ári ef hún myndi tapa titlinum.

Valentina Shevchenko leggur mikið traust á dómarana með því að berjast eins og hún gerir. Hún beitir mikið gagnárásum og það er ekki alltaf eitthvað sem dómararnir sjá vel. Þetta var hnífjafn bardagi og engin ein lota þar sem annar keppandinn var afgerandi sigurvegari. Í rauninni var 1. lotan eina lotan sem allir þrír dómararnir voru sammála um. Shevchenko er skiljanlega ósátt, enda jafn bardagi, en þetta var alls ekkert rán um hábjartan dag.

Shevchenko vill auðvitað fá annað tækifæri gegn Nunes en það er engin eftirspurn eftir þriðja bardaga þeirra. Shevchenko á samt möguleika á að fara niður í fluguvigt nú þegar sá þyngdarflokkur hefur verið stofnaður og spurning hvort hún geri það.

Það er enginn augljós áskorandi fyrir Amöndu Nunes sem stendur. Sara McMann tapaði óvænt fyrir Ketlen Viera en fram að tapinu hafði hún unnið þrjá bardaga í röð og var í titilbaráttunni. Holly Holm virðist alltaf geta fengið titilbardaga en hugsanlega er hún að fara mæta Cyborg í titilbardaga í fjaðurvigt. Raquel Pennington gæti fengið næsta titilbardaga en hún er með fjóra sigra í röð og síðast sáum við hana vinna Mieshu Tate.

Rafael dos Anjos sigraði Neil Magny með uppgjafartaki í 1. lotu og átti eina af bestu frammistöðum kvöldsins. Hann er núna orðinn nýr leikmaður í veltivigtinni og spennandi að sjá hvern hann fær næst. Bardagi gegn Robbie Lawler er heillandi núna og gæti sigurvegarinn þar fengið næsta titilabardaga. Vitað er að meistarinn Tyron Woodley verður frá í einhvern tíma þannig að UFC ætti að hafa tíma til að finna næsta áskoranda.

Henry Cejudo átti einnig frábæra frammistöðu en hann kláraði Wilson Reis með tæknilegu rothöggi í 1. lotu. Þetta var fyrsti bardaginn sem hann klárar í UFC og hafði hann satt að segja ekki verið neitt sérstaklega sannfærandi fram að þessu. Hann hafði vissulega náð fínum sigrum en alltaf var beðið eftir alvöru sigri með alvöru frammistöðu. Þarna kom sá sigur en Cejudo hefur auðvitað verið fremur stutt í MMA. Hann hefur þurft sinn tíma til að læra að blanda þessu öllu vel saman og núna lítur hann út fyrir að vera mun betri bardagamaður en sá sem tapaði fyrir Demetrious Johnson í fyrra.

Að lokum verðum við að tala aðeins um einn af upphitunarbardögum kvöldsins, bardaga Rick Glenn og Gavin Tucker. Eftir ágætlega jafna 1. lotu tók Glenn yfir bardagann og voru lotur tvö og þrjú gríðarlega einhliða. Einn dómaranna skoraði bardagann 30-24 en slíkar tölur sjást sjaldan. Tucker var í miklu basli í 2. og 3. lotu og hefði dómarinn auðveldlega getað stoppað bardagann mörgum sinnum.

Gavin Tucker eftir bardagann.

Tucker barðist áfram og var að hreyfa sig en hann var aldrei líklegur til að vinna. Hann var bara að lifa af og hefði dómarinn átt að koma í veg fyrir að hann hlyti þessa barsmíð í 3. lotu. Í dag er Tucker með fjögur beinbrot í andlitinu en þar á meðal er kjálkabrot.

Hornið hefði líka átt að grípa inn í og kasta handklæðinu þegar það var öllum ljóst að Tucker var aldrei að fara að snúa taflinu við og koma með endurkomu. Þessi 3. lota gerði engum gott. Tucker vildi þó halda áfram en stundum þarf að hafa vit fyrir mönnum. MMA er harðgerð íþrótt en þetta var óþarfi. Mikil óánægja var með störf dómarans í þessum bardaga og fékk hann ekki að dæma meira á þessu kvöldi.

Eftir rólegan ágúst mánuð verður nóg um að vera í september. UFC heimsækir Pitssburgh um næstu helgi en þar mætir Luke Rockhold David Branch í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular