spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 217

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 217

UFC 217 fór fram um síðustu helgi og var einfaldlega stórkostlegt bardagakvöld í alla staði. Þrír nýir meistarar voru krýndir á kvöldinu og er það nokkuð sem aldrei hefur áður gerst í sögu UFC. Hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Georges St. Pierre er millivigtarmeistari UFC árið 2017! Það er í raun alveg ótrúlegt. Næstum því jafn ótrúlegt og að Michael Bisping hafi verið meistari. Frammistaða GSP var mögnuð og leit hann ótrúlega vel út eftir fjögur ár frá búrinu.

GSP kláraði Bisping með „rear naked choke“ í 3. lotu eftir að hafa kýlt Bretann niður. Það er langt síðan GSP kláraði bardaga síðast og í raun langt síðan hann leit jafn vel út. GSP hafði ekki klárað bardaga síðan hann sigraði BJ Penn á UFC 94 árið 2009. Þá kláraði hann í raun ekki bardagann þar sem Penn hætti á stólnum eftir 4. lotu. Það er enn lengra síðan GSP kýldi einhvern niður – þvílík endurkoma!

Frábær frammistaða og magnað að sjá þennan mann aftur í búrinu. Það var líkt og hann hefði aldrei farið neitt. Það var eitthvað hlýlegt við að sjá GSP aftur í búrinu með belti um mittið. GSP er nú kominn í hóp með Randy Couture, B.J. Penn og Conor McGregor en allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa unnið titil í tveimur þyngdarflokkum í UFC (aðeins Conor þó verið meistari í tveimur flokkum á sama tíma). Nú vonum við bara að hann standist öll lyfjapróf sem tekin voru í aðdraganda bardagans og þá er erfitt að neita því að hann sé besti bardagamaður allra tíma.

Í viðtalinu við Joe Rogan eftir bardagann virtist hann að mínu mati vera hálf hikandi um hvort hann yrði áfram í millivigt. Eðlilegast væri að hann myndi mæta Robert Whittaker enda Whittaker bráðabirgðarmeistari en nýir eigendur UFC eru kannski ekki sammála. Hugsanlega ætla þeir að nýta GSP í stærri bardaga og hafa aðdáendur velt því fyrir sér hvort hann mæti jafnvel Conor McGregor í veltivigt. Það virkar kannski ólíklegt en það yrði risabardagi fyrir UFC og myndi gefa vel í aðra hönd. GSP sagðist vera með stórar áætlanir þegar hann tilkynnti endurkomu sína í mars og kannski var þetta bara fyrsta púslið.

T.J. Dillashaw er aftur orðinn bantamvigtarmeistari eftir sigur á Cody Garbrandt. Bardaginn stóðst allar væntingar og var jafn skemmtilegur og vonir stóðu til. Hann hefði eiginlega bara mátt endast lengur en það er aldrei leiðinlegt að sjá menn klára bardaga. Garbrandt sagði eftir bardagann að Dillashaw hefði verið betri þetta kvöld en lofaði því að hann muni koma aftur. Það er auðvelt að trúa því miðað við hvernig síðustu bardagar Garbrandt hafa verið og spurning hvort við fáum ekki bara eina geggjaða trílogíu á milli þessara frábæru bardagamanna á næstu árum?

Það besta við þennan bardaga er þó að núna getum við ýtt þessu TJ-Team Alpha Male drama til hliðar. Þurfum ekki að minnast á það í að minnsta kosti eitt ár. Dominick Cruz var örugglega ánægður með þessi úrslit. Hann mætir Jimmie Rivera í lok desember og er næsta víst að sigurvegarinn þar mun fá næsta titilbardaga í bantamvigtinni.

Óvæntustu úrslit kvöldsins og hreinlega ársins litu dagsins ljós þegar Rose Namajunas rotaði Joanna Jedrzejczyk! Hin frábæra Namajunas hafði aldrei klárað bardaga með rothöggi fyrir helgina en hún rotaði bara eina sigursælustu bardagakonu heims. Magnaðir tilburðir!

‘Thug’ Rose Namajunas hefur alltaf verið vinsæl meðal harðkjarna bardagaaðdáenda og ruku vinsældir hennar upp eftir síðustu daga. Joanna Jedrzejczyk reyndi að ógna henni á blaðamannafundum og í vigtun en sama hvað Joanna gerði stóð Thug Rose ísköld og svöl á því. Hún fullkomnaði svo frábæra viku hjá sér (reyndar sagði hún að vikan hefði verið mjög erfið) með því að vera afskaplega einlæg dúlla í viðtölum eftir bardagann. Það er ekki annað hægt en að halda með svona stelpu.

Joanna Jedrzejczyk gat ekki leynt tilfinningum sínum eftir bardagann. Hún grét í nokkrum viðtölum og á blaðamannafundinum eftir á og var afar svekkt. Hún var eini meistarinn í UFC sem var ósigruð á ferlinum og verður áhugavert að sjá hvernig hún kemur til baka eftir sitt fyrsta tap. Hugsanlega fær hún strax annað tækifæri á beltinu. Enn á ný sjáum við hversu ótrúlega erfitt það er að vera ósigraður/ósigruð í þessari íþrótt.

Að lokum má benda á það að allar blaðurskjóðurnar töpuðu. Michael Bisping, Cody Garbrandt og Joanna Jedrzejczyk rifu öll kjaft við andstæðinga sína á meðan mótherjarnir töluðu minna. Vissulega lét Dillashaw vel í sér heyra en GSP og Namajunas sögðu lítið sem ekkert. Michael Bisping var eiginlega ekta yfirgangsseggur; klæddur í leðurjakka, með sólgleraugu og nýtti hvert tækifæri til að gera lítið úr GSP. Í rauninni var hann ekkert ólíkur þeim sem börðu GSP á unglingsárum hans og lögðu hann í einelti. Það varð til þess að GSP byrjaði í karate sem var upphafið á ferli hans sem einn besti bardagamaður allra tíma.

Það var því eiginlega fullkominn endir á kvöldinu að sjá hógværa fyrirmyndaríþróttamanninn þagga niður í hinum háværa og stærri Michael Bisping. Hálfpartinn var það táknrænt fyrir allt það sem GSP hefur staðið fyrir allt sitt líf. Hann er bardagalistamaður og skiptir virðingin og heiðurinn öllu máli. MMA mun samt alltaf þurfa háværa karaktera sem rífa kjaft en það er alltaf gaman að sjá þá hljóðlátu vinna endrum og eins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular