spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 229

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 229

Embed from Getty Images

Einn stærsti viðburður í sögu UFC fór fram síðastliðið laugardagskvöld. Af nógu er að ræða um eftir einn umdeildasta bardaga í sögu MMA.

Khabib Nurmagomedov nældi sér í sína fyrstu titilvörn í léttvigtinni þegar hann kláraði Conor McGregor með uppgjafartaki í 4. lotu. Khabib var einfaldlega miklu bardagamaður og sigraði verðskuldað. Sigurinn situr hins vegar í skugganum á því sem gerðist eftir á.

Khabib stökk yfir búrið til að ráðast á Dillon Danis, hornamann Conor. Þrír af liðsfélögum Khabib stukku síðan yfir búrið og veittust þeir að Conor. Hópslagsmál og ömurlegur endir á annars skemmtilegu bardagakvöldi.

Khabib sagði eftir bardagann að þetta væri ekkert stórmál þar sem Conor réðst á rútuna og talaði illa um trú hans, fjölskyldu og þjóðerni. Khabib sagðist vilja breyta leiknum og koma meiri virðingu í MMA í staðinn fyrir allt þetta skítkast (e. trashtalk) sem einkennir UFC í dag. Hann hefði kannski átt að byrja á sjálfum sér með því sleppa því að ráðast á hornamann Conor.

Við skulum hafa það alveg á hreinu að rútuárás Conor McGregor var gjörsamlega fáranleg. Ótrúleg geðveiki þar á ferð og Conor og íþróttinni til skammar. Það réttlætir samt ekki það sem Khabib gerði á laugardaginn.

Það er alveg ljóst að Conor er ekkert heilagt þegar kemur að skítkasti í garð andstæðingsin. Bæði snýst þetta um að selja bardaga og líka að komast aðeins inn í hausinn á andstæðingnum fyrir bardagann. Það hefur virkað snilldarlega vel oft á tíðum enda er Conor ein stærsta íþróttastjarna í heiminum í dag og hefur skítkastið fyrir bardaga borið árangur í hugarleikjum gegn andstæðingum á borð við Jose Aldo, Eddie Alvarez og Dustin Poirier. Menn eru annað hvort svo reiðir að þeir vilja bara sækja aggressívt á Conor strax (sem hentar Conor vel) eða andlega búnir að tapa fyrir bardagann.

Skítkastið fyrir þennan bardaga var öðruvísi heldur en vanalega hjá Conor. Það var vitað mál að það myndi ekki hafa nein áhrif á Khabib að kalla hann ræfil og lélegan bardagamann (sem Conor gerði samt) en þess í stað blandaði Conor deilum Dagestan og Tjetseníu og svo föður Khabib. Það er alltaf talað um að Conor hafi móðgað trú Khabib en persónulega man ég ekki eftir neinum dæmum um það. Kannski var það svo móðgandi fyrir trú Khabib þegar hann bauð honum viskíglas en þegar Khabib afþakkaði kallaði hann Khabib „you backwards cunt“.

Kannski gekk Conor of langt í skítkastinu en hann hefur svo sem áður gengið mjög langt. Fyrir Jose Aldo bardagann sagði hann til að mynda: „Ef við værum uppi á öðrum tíma myndi ég ráðast inn í fátækrahverfið á hestbaki og drepa alla sem væru ófærir um að vinna. Núna erum við uppi á nýjum tíma og ég rústa honum í staðinn.“ Kannski var þetta eitthvað sem myndi einn daginn gerast hjá honum? Hann fer yfir strikið og það verða afleiðingar.

Fyrir Conor var hann bara að pota í andstæðinginn fyrir bardagann, spila hugarleiki og selja bardagann. Fyrir Khabib var þetta eitthvað miklu meira og persónulegra. Í stað þess að fagna þegar sigurinn var í höfn ákvað hann að hrauna yfir Conor og byrja svo að rífast og síðar slást við hornamann Conor. Besta augnablik ferilsins eyðilagt með augnabliks geðveiki. Hann fékk ekki einu sinni beltið sitt í búrinu af ótta við uppþot.

Embed from Getty Images

Conor er samt ekki sá fyrsti og langt í frá síðasti til að vera með skítkast fyrir bardaga. Þetta er aðferð sem hefur lengi lifað og mun áfram gera það. Sannleikurinn er sá að þetta dregur fólk að, alveg sama þó fólk vilji meina annað. Þetta sést í öllum íþróttum og mun alltaf gera. Við sem áhorfendur étum þetta allt upp og veljum að fylgjast með viðburðum þar sem er skítkast og einhver rígur á milli fyrir viðburðinn. Stundum er þetta skítkast jafnvel á milli þjálfara. Jose Mourinho hefur oft verið með alls konar skítkast í garð þjálfara andstæðinganna og það hefur búið til meiri áhuga á komandi leikjum. Þetta verður einhver saga sem verður að segja í fjölmiðlum og býr til meiri áhuga.

Bardagi Khabib og Conor var frábær á pappírum burtséð frá einhverjum ríg og skítkasti. Þarna voru tveir frábærir bardagamenn að eigast við á hátindi ferilsins. Titilbardagi Robert Whittaker og Yoel Romero var líka frábær á pappírum en rétt yfir 100.000 Pay Per View áskriftir voru seldar fyrir bardagann. Þar var ekkert skítkast og öllum sama um bardagann nema bardagaaðdáendum. Bardaginn reyndist vera frábær og er einn besti bardagi ársins hingað til en enginn horfði.

UFC virðist líka eiga erfitt með að búa til alvöru áhuga á bardaga nema það sé rígur og eitthvað hatur (hvort sem það sé raunverulegt hatur eða ekki) til staðar. Það er stórt vandamál sem kemur niður á öllum í íþróttinni.

Það má segja að ábyrgðin á hópslagsmálunum liggi ekki bara hjá Khabib. Khabib á vissulega stærstu sök að málinu en Conor ber líka ábyrgð. Hann hefur reynt eins og hann getur að reita Khabib til reiði og það virkaði svo sannarlega. Nema þetta virðist hafa hvatt Khabib til dáða í stað þess að berjast óskynsamlega. Conor gekk langt yfir strikið og blandaði alþjóðlegri pólitík Dagestan og Tjetseníu og það er viðkvæmt málefni hjá frekar hættulegu fólki. Hann hefur oft farið yfir strikið í skítkastinu sínu en það hafa aldrei orðið afleiðingar af því fyrr en nú. Miðað við að Conor ætlar ekki að leggja fram kæru eftir árásinu virðist honum vera nokkuð sama um hópslagsmálin og mun kannski ekki læra neitt.

Chael Sonnen gekk samt langt yfir strikið í skítkastinu fyrir fyrri Anderson Silva bardagann. Hann gerði grín að fátæktinni í Brasilíu og var með brandara sem gætu þótt ansi rasískir. Anderson hoppaði samt ekki yfir búrið eftir sigurinn á Sonnen heldur hneigði hann sig fyrir Sonnen eftir sinn sigur.

UFC á líka stóra sök að máli. Menn fá að komast upp með ansi margt svo lengi sem þeir komi með peninga inn eins og Conor. Jason High hrinti dómara í miðjum bardaga og fékk ævilangt bann í UFC. Conor kastaði trillu í rútu þar sem tveir bardagamenn slösuðust og fékk enga refsingu frá UFC. Í fyrsta sinn sáum við afleiðingar af skítkasti og kannski var þetta bara eitthvað sem myndi einn daginn gerast.

UFC felur sig alltof oft á bakvið íþróttasamböndin og laganna verði. Samt eru bardagasamtökin með hegðunarreglur sem allir bardagamenn verða að fara eftir. Þegar menn eins og Conor eru orðnir svona stórir þá virðast þeir fá að gera og segja hvað sem er.

Embed from Getty Images

Bardaginn sjálfur

Komið nóg af hugleiðingum um hópslagsmálin og skítkastið!

Bardaginn sjálfur var virkilega flottur hjá Khabib. Mögnuð frammistaða sem á skilið að vera lofuð í hástert. Khabib spilaði sinn leik, kýldi Conor niður, talaði við hann eins og hann sagðist ætla að gera og kláraði hann svo í 4. lotu. Fullkominn bardagi hjá Khabib!

Hann sannaði það loksins það sem hefur verið sagt lengi, hann er besti léttvigtarmaður heims. Það er erfitt að sjá einhvern stoppa Khabib úr þessu. Tony Ferguson á eftir að vera verðug áskorun og Kevin Lee gæti orðið áhugaverð viðureign ef hann heldur áfram að bæta sig.

Þetta var aftur á móti slappasta frammistaða Conor í UFC hingað til. Hann var hægur, þreyttist fljótt, var með léleg högg og gerði taktísk mistök standandi. Conor hefur áður sagt að „ring rust“ sé ekki til og þetta sé bara afsökun ef menn segjast vera ryðgaðir þannig að hann getur ekki kennt langri fjarveru um frammistöðu sína. Kannski hefur vafasamt líferni (miðað við slúðurmiðla og samfélagsmiðla) tekið sinn toll og hann er jafnvel ekki sami íþróttamaður og hann var fyrir tveimur árum síðan?

Það er samt eitt á hreinu og það er að Conor vill strax fá endurat. Samkvæmt John Kavanagh var hann fjúkandi reiður eftir bardagann, ekki út af hópslagsmálunum heldur vegna tapsins. Hann gæti tekið einn bardaga til að koma sér aftur í gang en það virðist ekki heilla hann. Hann vill bara fá Khabib strax aftur.

Það er eitt sem má líka tala um og það er svindlið hans Conor í búrinu. Conor greip í búrið, greip í stuttbuxur Khabib, greip innan á hanskann hjá Khabib og hnjáaði Khabib í hausinn í gólfinu – allt hlutir sem eru ólöglegir. Dómarinn reyndi Herb Dean gerði ekkert í þessu. Þegar Conor greip með tánum í búrið er hann lá á bakinu sagði Herb Dean honum að sleppa takinu. Conor gerði það ekki og Herb Dean gerði ekki neitt.

Einhverjir gætu sagt að dómarinn hafi ekki þorað að taka stig af Conor þar sem hann er svo stórt nafn en persónulega finnst mér þetta bara vera típísk dómgæsla í MMA. Dómarar þora aldrei að taka stig af mönnum. Það virðast allir mega fá eitt fríkeypis spark í punginn, pota einu sinni í augað og grípa einu sinni í búrið og þá fá menn harða viðvörun!

Fyrir utan Dana White er örugglega einn maður sem mun fylgjast náið með málsmeðferð Khabib hjá íþróttasambandi Nevada og það er Tony Ferguson. Ef Khabib fer í bann er spurning hvern Ferguson fær næst. Fær Ferguson þá titilbardaga upp á bráðabirgðarbeltið eða verður Khabib kannski bara sviptur? Og hvað er bráðabirgðartitill að fara að gera fyrir Ferguson? Hann vann einn slíkan í október en var sviptur þeim titli um leið og hann gat ekki barist.

Embed from Getty Images

Ferguson er búinn að vinna 11 bardaga í röð í UFC (rétt eins og Khabib) og verðum við hreinlega að sjá þá berjast. UFC hefur fjórum sinnum reynt að setja þennan bardaga saman en alltaf hefur eitthvað klikkað. Þeir verða að reyna í fimmta sinn. Það var samt frekar skrítið að sjá Ferguson og Khabib báða ná vigt, í sama herbergi og á sama tíma án þess að vera að berjast við hvorn annan.

Það verður örugglega lengi deilt um þessi hópslagsmál, bardagann sjálfan og UFC eftir þessa helgi. Allir hafa skoðun og verður þessi helgi lengi í minnum höfð.

Ekkert UFC kvöld er á dagskrá næstu tvær helgar en þann 27. október heimsækir UFC svo Montcon í Kanada þar sem þeir Anthony Smith og Volkan Oezdemir mætast í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular