Tuesday, April 16, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 232

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 232

UFC 232 fór fram á laugardaginn þar sem við sáum Jon Jones sigra Alexander Gustafsson. Hér eru Mánudagshugleiðingarnar eftir ansi áhugaverða bardagaviku.

Í fimm ár höfðum við beðið eftir að sjá Jon Jones og Alexander Gustafsson mætast aftur. Fyrri bardagi þeirra var besti bardagi í sögu léttþungavigtarinnar en sá seinni ekki nærri jafn skemmtilegur.

Jones gerði mjög vel með því að stjórna fjarlægðinni með spörkum í stað þess að vera í boxfjarlægð gegn Gustafsson eins og í síðasta bardaga þeirra. Gustafsson sýndi góða felluvörn framan af en var á endanum tekinn niður í 3. lotu. Jones gerði mjög vel að stjórna Gustafsson í gólfinu og kláraði hann svo með höggum í gólfinu.

Embed from Getty Images

Virkilega vel gert og enn einn lýtalaus sigurinn hjá Jones. Hann sýnir aldrei neina veikleika í búrinu og spurning hver hans næstu skref verða.

Það veltur samt allt á því hvort Jones standist nú öll þau lyfjapróf sem tekin voru síðustu dagana fyrir bardagann. Þegar um er að ræða Jon Jones er það aldrei öruggt. Við þurfum því væntanlega að bíða í 2-3 vikur til að ganga úr skugga um að sigurinn haldist.

Segjum sem svo að hann standist öll lyfjapróf er ekki mikið eftir fyrir hann í léttþungavigt. Daniel Cormier er þungavigtarmeistari og er ólíklegt að hann vilji fara aftur niður í léttþungavigt til að berjast við Jones í þriðja sinn. Aðrir áskorendur í léttþungavigt eru langt frá Jones núna. Anthony Smith, Thiago Santos, Jan Blachowicz og Dominick Reyes eru allir einum góðum sigri frá titilbardaga en það virkar ekki nógu mikil áskorun fyrir Jon Jones.

Hans stærsta áskorun er að fara bara upp í þungavigt. Hann er búinn að tala um þetta síðan hann varð fyrst meistari og nú er hann orðinn 31 árs og enn bíðum við eftir skrefinu. Bardagi gegn Daniel Cormier í þungavigt væri rosalegur og sama má segja um bardaga gegn Stipe Miocic, Francis Ngannou, Junior dos Santos og Alistair Overeem. Það merkilega við þetta er að ég held að Jones gæti unnið þá alla. Hann er það góður að hann gæti hæglega verið ósigraður í þungavigt um ókomin ár ef hann heldur sér á beinu brautinni (sem er reyndar stórt EF).

Embed from Getty Images

Amanda Nunes kláraði Cris ‘Cyborg’ Justino í 1. lotu í næstsíðasta bardaga kvöldsins og er nú tvöfaldur meistari. Þetta var klárlega besta frammistaða kvöldsins og ótrúlega gaman að sjá einlægan fögnuð Nunes.

Cyborg bar enga virðingu fyrir höggþunga Nunes. Cyborg óð bara áfram eins og hún er vön að gera og var rotuð á undir mínútu. Nunes sýndi enn og aftur kraftinn sem hún býr yfir og var með hraðari og nákvæmari högg en Cyborg. Þetta var bara ógeðslega vel gert hjá Nunes!

Með sigrinum er erfitt að neita því að Nunes sé besta bardagakona allra tíma. Ég veit að við missum okkur oft í einhverri GOAT umræðu eftir stór augnablik en hún er bara með magnaða ferilskrá. Rotar Cyborg á 51 sekúndu, með tvo sigra gegn Valentinu Shevchenko, rotaði Rondu Rousey á 48 sekúndum, kláraði Mieshu Tate með yfirburðum og fleiri glæstir sigrar. Cyborg og Ronda auðvitað tvær af þeim bestu í sögunni og nú hefur Nunes rotað þær báðar á undir mínútu. Auk þess er hún fyrsta konan til að vera ríkjandi meistari í tveimur þyngdarflokkum á sama tíma í UFC. Ef hún nær svo að vinna Holly Holm bætir hún við eina nafninu sem mögulega vantar í safnið.

Bæði fjaðurvigt kvenna og bantamvigtin búa yfir skorti á áskorendum þessa stundina (enda var það ein af ástæðunum fyrir því hvers vegna bardaginn var settur saman). Fjaðurvigtin var bara Cyborg flokkurinn en núna er komin ný drottning. Þó Nunes vilji sennilega sleppa niðurskurðinum og halda sér í fjaðurvigt verður næsti bardagi eflaust í bantamvigt. Á nýju ári mætast þær Holly Holm og Aspen Ladd en sigurvegarinn þar gæti fengið næsta titilbardaga í bantamvigtinni. Ég held að allir vilji frekar sjá Holm gegn Nunes enda á það enn eftir að gerast.

Þetta var þriðji ofurbardaginn á síðustu árum þar sem tveir ríkjandi meistarar mætast. Í öll skiptin hefur „minni“ meistarinn unnið – þ.e.a.s. sá meistari sem kemur úr minni þyngdarflokknum hefur unnið:

Conor McGregor, þá ríkandi fjaðurvigtarmeistari, fór upp í léttvigt og sigraði Eddie Alvarez.
Daniel Cormier, þá ríkjandi léttþungavigtarmeistari, fór upp í þungavigt og sigraði Stipe Miocic.
Amanda Nunes, ríkjandi bantamvigtarmeistari, fór upp í fjaðurvigt og sigraði Cyborg.

Það er áhugavert í ljósi þess að enn er nokkuð ríkjandi menning fyrir því að vera stór í sínum þyngdarflokki þó það sé hægt og rólega að breytast. Næsti ofurbardagi er svo á milli Henry Cejudo og T.J. Dillashaw í janúar.

Embed from Getty Images

Við sáum einnig Michael Chiesa fara upp í veltivigt og eiga góða frammistöðu gegn Carlos Condit. Condit  er reyndar skugginn af sjálfum sér í dag en Chiesa sagði að hann hefði ekki bætt sig tæknilega í nokkur ár þar sem undirbúningur fyrir bardaga snérist bara um að taka af sér kíló til að ná niðurskurðinum. Þessi rosalegi niðurskurður og menningin í kringum það virðist samt hægt og rólega vera að breytast.

Að lokum verðum við að gagnrýna UFC. UFC tók þessa umdeildu ákvörðun að færa bardagakvöldið frá Nevada til Kaliforníu vegna Jon Jones. Það var skrítið og allt það en það sem var kannski verst við þetta var hvernig þeir sendu aðdáendum sem höfðu keypt miða í höllina í Las Vegas puttann. Margir voru að ferðast langt að og voru búin að bóka hótel í Las Vegas þegar bardagakvöldið var skyndilega fært með sex daga fyrirvara. Margir aðdáendur þurftu því að koma sér til Los Angeles til að horfa á bardagakvöldið eða sleppa því.

Aðdáendur gátu fengið miðann í höllina í Las Vegas endurgreiddan og fengu ákveðinn forkaupsrétt á miðasölunni í Los Angeles. Aðeins 3000 manns af þeim tæplega 20.000 áhorfendum sem ætluðu á Las Vegas bardagakvöldið nýttu sér það. Það má því gera ráð fyrir að stór hluti þeirra sem ætluðu að horfa á bardagakvöldið með berum augum hafi endað á að horfa á bardagana á einhverjum bas í Las Vegas. Það er hrikalega léleg þjónusta við tryggan kúnnahóp. UFC hefur ekki ennþá gert neitt til að reyna að bæta þetta upp fyrir þennan hóp. Svo sáum við Dana White monta sig á Twitter hve vel miðasalan gekk í Los Angeles. Eitt taktlausasta tíst sem hann hefur hent út og er úr nógu að velja þar á bæ!

Það er einnig hærri tekjuskattur í Kaliforníu heldur en í Las Vegas og fengu bardagamenn því á endanum minna í vasann fyrir sína vinnu þar sem bardagakvöldið var fært. Þeir þurftu einnig að standa sjálfir að kostnaði við nýja læknisskoðun fyrir íþróttasambandið í Kaliforníu og kom UFC ekki til móts við bardagamennina með smá bónus greiðslum. Fyrir bardagakvöldið sagði Dana White að enginn myndi fá neitt aukalegt þrátt fyrir breytingina. „Hver á að borga minn aukaskatt?“ spurði Dana White í öðru taktlausu svari á fimmtudaginn.

Þetta var síðasta bardagakvöld ársins en næsta bardagakvöld verður í janúar. Þar mætast þeir Henry Cejudo og T.J. Dillashaw um fluguvigtartitilinn.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular