0

Óskalisti Óskars: 10 bardagar sem við viljum sjá árið 2019

Árlega birtum við óskalista yfir þá 10 bardaga sem okkur langar mest að fá á nýju ári. Listi síðasta árs er hér en við fengum aðeins tvo af þeim tíu. Kannski fáum við fleiri á næsta ári. Hendum okkur í þetta.

Áður er lengra er haldið þurfum við að taka tillit til þeirra bardaga sem er búið að ákveða. Í janúar fáum við til að mynda T.J. Dillashaw gegn Henry Cejudo. Svo fáum við José Aldo gegn Renato Moicano, Raphael Assunção gegn Marlon Moraes, Robert Whittaker gegn Kelvin Gastellum, Israel Adeanya gegn Anderson Silva, Cain Velasquez gegn Francis Ngannou, Ben Askren gegn Robbie Lawler, Holly Holm gegn Aspen Ladd og Jeremy Stephens gegn Zabit Magomedsharipov.

Það er auk þessa orðrómur um bardaga Yoel Romero og Darren Till sem aðalbardaga á UFC kvöldinu í London í mars. Við vonum auðvitað að Gunnar Nelson fái frekar þetta tækifæri en við verðum að gera ráð fyrir að svo verði ekki.

10. Stipe Miocic gegn Curtis Blaydes

Miocic og Blaydes þurfa báðir á góðum sigri að halda eftir erfitt tap en báðir voru rotaðir í fyrstu lotu í þeirra síðasta bardaga. Báðir eru enn í topp fimm á styrkleikalistanum svo þessi bardagi liggur beint við. Auk þess ætti hann að verða helvíti skemmtilegur.

9. George St. Pierre gegn Robert Whittaker

Þetta væri draumur en ólíklegur er hann. Í fyrsta lagi þarf Whittaker að komast í gegnum Kelvin Gastelum, sem er ekki sjálfgefið, en svo er alltaf mikil óvissa í kringum St. Pierre. GSP sigraði Michael Bisping árið 2017 og leit mjög vel út. Þetta er ólíklegasti bardaginn á listanum en þetta er minn óskalisti svo það verður að hafa það.

8. Amanda Nunes gegn Holly Holm

Amanda Nunes hefur stimplað sig rækilega inn sem THE GOAT á meðal kvenna í MMA. Hvað getur hún mögulega gert í framhaldi? Stærsta nafnið sem Nunes á eftir er Holly Holm. Holm þarf fyrst að sigra Aspen Ladd en ef hún gerir það er þessi bardagi nauðsynlegur næst.

7. Rose Namajunas gegn Tatiana Suarez

Rose Namajunas hefur verið á rosalegri siglingu. Nú er hún búin að festa sig í sessi sem meistari með tveimur sigrum gegn Joanna Jędrzejczyk en þarf að líta fram á við. Helsta ógnin á þessari stundu virðist vera Tatiana Suarez sem hefur litið stórkostlega út í sigrum gegn Alexu Grasso og Carla Esparza. Namajunas er góð alls staðar en getur hún varist glímu Suarez?

6. Israel Adesanya gegn Ronaldo “Jacare” Souza

Komist Adesanya framhjá Anderson Silva (sem verður að teljast líklegt) er Jacare fullkomið næsta skref áður en hann skorar á meistarann. Adesanya lítur út eins og næsti Jon Jones eða Anderson Silva en hann er ennþá í þróun og þarf réttu andstæðinga á leiðinni upp. Souza er númer þrjú á styrkleikalistanum og sigraði síðast Chris Weidman. Sigurvegarinn af þessum bardaga færi svo beina leið í titilbardaga.

5. Tyron Woodley gegn Colby Covington

Allt virðist stefna í að Kamaru Usman muni berjast um beltið næst en Covington á það meira skilið. Hann vann Rafael dos Anjos fyrst, á mjög svipaðan hátt og Usman og fékk fyrir ómakið bráðabirgðarbeltið í veltivigt. Ef þessi belti eiga að hafa einhverja þýðingu þarf Woodley að berjast við Colby. Auk þess er þetta bardaginn sem allir vilja sjá í veltivigt. Það eru fúllyndi á milli þeirra og Covinginton er litríkur persónuleiki sem margir vilja gjarnan sjá tapa.

4. Gunnar Nelson gegn Leon Edwards

Ef Darren Till er upptekin gegn Yoel Romero í mars væri Leon Edwards frábær kostur og mjög góður sem næstsíðasti bardagi kvöldsins gegn Gunnari. Gunnar Nelson kom sterkur til baka í desember og þarf nú að setja saman nokkra góða sigra. Leon Edwards er ofar á styrkleikalista UFC og er sjálfur heitur eftir sigur á Donald Cerrone. Edwards er auk þess Englendingur og því fullkominn andstæðingur fyrir London kvöldið.

3. Conor McGregor gegn Max Holloway

Max Holloway leit frábærlega út gegn Brian Ortega en dagar hans í fjaðurvigt hljóta að vera taldir. Í léttvigt er hrúga af spennandi bardagamönnum fyrir Holloway og hver er betri sem fyrsti andstæðingur en maðurinn sem sigraði hann síðast, sjálfur Conor McGregor. Conor leit ekki nógu vel út gegn Khabib og þarf á stórum sigri að halda. Nate Diaz er alltaf ágætis kostur en við höfum þegar séð það tvisvar. Sigur gegn Holloway væri mun þýðingarmeiri og fyrir Holloway er þetta tækifæri til að hefna, þéna fúlgur fjár og stimpla sig inn í léttvigt.

2. Daniel Cormier gegn Jon Jones

Gleymið Brock Lesnar, þetta er bardaginnn. Jones og DC hafa auðvitað barist tvisvar áður og Jones unnið í bæði skiptin en það er samt eins og eitthvað sé óútkljáð. Þetta er Ali vs. Fraizier, Tyson vs. Holyfield. Enginn virðist eiga séns í þessa menn og nú þegar Cormier er orðinn meistari í þungavigt er kjörið tækifæri fyrir Jones að þyngja sig upp og reyna að verða næsti „champ champ“. DC er ósigraður í þungavigt svo kannski verður þetta allt öðruvísi bardagi.

1. Khabib Nurmagomedov gegn Tony Ferguson

Eftir 120 misheppnaðar tilraunir verðum við hreinlega að fá þennan bardaga núna. Ég sætti mig ekki við neitt annað. Ferguson hefur unnið 11 bardaga í röð og Khabib er enn ósigraður. Khabib nær öllum í gólfið en Ferguson er frábær undir og ógnar stöðugt með hinum ýmus uppgjafartökum. Báðir eru með úthald í 10 lotur. Ég treysti því að árið 2019 sé árið fyrir þessa snilld.

Óskar Örn Árnason
Latest posts by Óskar Örn Árnason (see all)

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.