0

Áhugaverðustu MMA bardagarnir í janúar 2019

Gleðilegt nýtt ár! UFC fer rólega af stað eftir stórt kvöld í Los Angeles. Janúar hefði verið fínn mánuður ef UFC 233 hefði ekki verið aflýst en þar sem það gerðist verður bara eitt UFC kvöld og eitt Bellator kvöld í janúar. Listinn þennan mánuðinn verður því helmingi styttri en venjulega.

5. UFC on Fight Night 143, 19. janúar – Allen Crowder gegn Greg Hardy (þungavigt)

Hinn umdeildi Greg Hardy fær loks að berjast í UFC í janúar. Fyrir þá sem ekki vita þá er Hardy fyrrum NFL stjarna sem færði sig yfir í MMA árið 2016. Hann er með skuggalega fortíð sem tengist heimilisofbeldi svo það þótti furðuleg ákvörðun hjá UFC að setja hann á fyrsta ESPN kvöldið. Andstæðingur Hardy, Allen Crowder, er lítið þekktur en góður bardagamaður sem fór í gegnum Contender seríuna. Hann ætti því ekki að vera algjör „tómatdós“.

Spá: Hardy rotar Crowder í fjörugri fyrstu lotu.

4. UFC on Fight Night 143, 19. janúar – Glover Teixeira gegn Ion Cuțelaba (léttþungavigt)

Hér mætast tveir harðir jaxlar. Ion Cutelaba málar sig grænan eins og Hulk í vigtunum og berst þannig líka. Hann er alltaf í skemmtilegum bardögum og hefur rotað 11 af 18 andstæðingum. Glover Teixeira hefur séð allt og þó hann sé orðinn gamall (39 ára) er hann enn einn af þeim bestu í léttþungavigt. Þetta verður gaman.

Spá: Erfitt að segja en ég held að Cutelaba komi inn högginu í fyrstu lotu og roti Glover.

3. UFC on Fight Night 143, 19. janúar – Donald Cerrone gegn Alexander Hernandez (léttvigt) Donald Cerrone lestin heldur áfram, að þessu sinni aftur í léttvigt. Kúrekinn segir aldrei nei við bardaga og hér fær hann nánast óþekktan en stórhættulega andstæðing. Alexander Hernandez er mjög efnilegur 26 ára strákur á hraðri uppleið. Líkt og Darren Till og Leon Edwards ætlar hann að nota Cerrone sem stökkpall en það er ekki alltaf góð hugmynd. Hernandez hefur litið vel út í UFC hingað til en hversu langt kemst hann?

Spá: Hernandez sýnir á sér góðar hliðar en Cerrone er refur, hann sigrar með uppgjafartaki í 2. lotu.

2. Bellator 214, 26. janúar – Fedor Emelianenko gegn Ryan Bader (þungavigt)

Þungavigtarmót Bellator hefur tekist ótrúlega vel. Chael Sonnen vann Quinton ‘Rampage’ Jackson, Fedor Emelianenko vann Frank Mir, Matt Mitrione vann Roy Nelson og Ryan Bader vann Muhammed ‘KingMo’ Lawal. Svo vann Fedor Sonnen og Bader vann Mitrione. Ekkert vesen og nú fáum við áhugaverðan úrslitabardaga og sigurvegarinn verður nýr meistari í þungavigt. Þetta er stóra stund Ryan Bader og bardaginn sem hann á að vinna. X-faktorinn er hægri hendi Fedor sem er enn þung þó svo að hann sé ekki ennþá upp á sitt besta.

Spá: Bader fer beint í glímuna og lætur Fedor finna fyrir því í tvær lotur þar til dómarinn rífur hann af. Bader verður „champ champ“ í Bellator.

1. UFC on Fight Night 143, 19. janúar – Henry Cejudo gegn T.J. Dillashaw (fluguvigt)

Þá er það súperbardaginn. Næsti „champ champ“, þ.e. ef T.J. Dillashaw vinnur. Það er allt gott og blessað, bætir kryddi í auglýsingarnar og lítur vel út á plakatinu. Það sem skiptir meira máli er að þetta er heillandi bardagi. Henry Cejudo er einn besti glímumaðurinn í UFC og honum tókst hið ómögulega í hans síðasta bardaga þegar hann vann Demetrious Johnson. Í þyngdarflokknum fyrir ofan hefur T.J. Dillashaw litið frábærlega út í sigrum gegn Renan Barao, John Linker og Cody Garbrandt. Báðir eru alhliða góðir bardagamenn og báðir byggja á glímugrunni. Cejudo er talinn betri glímumaðurinn en Dillashaw betri standandi. Það er hins vegar mikil einföldun og það verður mjög áhugavert að sjá hvernig þeir bregðast við hvor öðrum í búrinu.

Spá: T.J. Dillashaw tekur þetta nokkuð örugglega, segjum TKO í þriðju lotu.

Óskar Örn Árnason

Comments

comments

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.