0

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 245

Embed from Getty Images

UFC 245 fór fram á laugardaginn þar sem þrír titilbardagar voru á dagskrá. Það vantar ekki umræðuefnin eftir bardagakvöldið en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Kamaru Usman sigraði Colby Covington með rothöggi í 5. lotu. Það ótrúlega við þennan bardaga er að enginn reyndi eina fellu yfir 24 mínútur! Gæjar sem eru vanir að ná 4-5 fellum í hverjum bardaga stóðu allan tímann.

Bardaginn var virkilega góð skemmtun og stóðu þeir við stóru orðin. Á endanum var Usman höggþyngri og voru skrokkhögin að telja þegar leið á bardagann. Covington kjálkabrotnaði síðan í 3. lotu og barðist rúmar tvær lotur með brotin kjálka sem er nokkuð magnað.

Þetta tiltekna kjálkabrot hjá Covington er ekki svo slæmt og verður hann um tvo mánuði að ná sér samkvæmt læknum. Það kann að vera að hann þurfi að loka kjaftinum á sér í nokkrar vikur á meðan kjálkinn grær og er það nokkuð kaldhæðnislegt.

Með sigrinum held ég að Usman hafi það ansi gott á toppnum í veltivigtinni. Að mínu mati var Covington helsta ógnin hans og nú er hann farinn í bili. Usman mun sennilega mæta Jorge Masvidal næst en Leon Edwards er einnig í myndinni. Ég held að Usman geti nokkuð þægilega glímt Masvidal og Edwards í drasl eins og hann hefur gert við svo marga andstæðinga.

Colby Covington hefur fengið sinn skerf af gríni og aðkasti eftir tapið eins og við var að búast hjá svona hrokafullum karakter. Þegar menn rífa kjaft eins mikið og hann gerir fá þeir bununa yfir sig þegar tapið kemur. Þannig virkar þetta bara. Erfitt að vorkenna honum í dag og má fólk búa til eins mörg meme og mögulegt er á kostnað Covington.

Það verður síðan mjög áhugavert að hlusta á fyrsta viðtalið sem Covington veitir eftir tapið. Ég efast um að hann komi hógvær og auðmjúkur til baka eftir tapið eins og við sáum t.d. Conor á blaðamannafundinum eftir tapið gegn Nate Diaz á sínum tíma. Covington mun sennilega halda áfram að bauna yfir dómarann Marc Goddard og halda því fram að hann hefði örugglega unnið bardagann ef dómarinn hefði ekki stigið inn.

Goddard var alveg fljótur að stoppa þetta og aðeins of fljótur að mínu mati. Þetta hefði samt ekki breytt neinu þar sem Usman hefði alltaf unnið þessa lotu eftir að hafa kýlt Covington tvisvar niður og þar með unnið bardagann. Staðan var 3-1 Usman í vil hjá einum dómara og 2-2 hjá öðrum dómara þannig að sigur í 5. lotu hefði skilað Usman sigri. Covington getur tuðað og tuðað yfir Goddard en það breytir því ekki að hann hefði tapað hvort sem er. Það er afskaplega erfitt að vorkenna Covington en það verður að teljast líklegt að þeir mætist aftur.

Embed from Getty Images

Nýr meistari

Eini nýi meistari kvöldsins var Alexander Volkanovski. Ástralinn átti flotta frammistöðu þegar hann sigraði Max Holloway eftir dómaraákvörðun. Volkanovski saxaði meistarann niður með lágspörkum sem lét Holloway skipta um fótastöðu. Holloway komst aldrei í sinn takt og var ekki að koma með sína löngu fléttur eins og hann er vanur. Volkanovski kom inn með frábæra leikáætlun og átti skilið að vinna.

Miðað við orð Dana White, forseta UFC, mun fyrsta titilvörn Volkanovski sennilega vera gegn Max Holloway. Þar held ég að Volkanovski muni bara vinna aftur og held ég að hann sé bara með stílinn til að vinna Holloway.

Kannski er ég of fljótur á mér en ég held að bestu dagar Holloway séu taldir. Hann er vissulega bara 28 ára og ætti hann að vera að toppa núna aldurslega séð. En hann byrjaði mjög ungur í MMA og kom ungur inn í UFC. Renan Barao er bara 32 ára en hann hefur ekkert getað í fimm ár og er gjörsamlega búinn á því greyið.

Holloway hefur líka farið í gegnum svo mörg stríð og tekið mikinn skaða. Stríðin gegn Brian Ortega og Dustin Poirier tóku held ég mikið úr honum. Fæstum meisturum tekst að endurheimta beltið en kannski getur Holloway það.

Embed from Getty Images

Amanda Nunes vann Germaine de Randamie nokkuð örugglega eftir dómaraákvörðun. Þó hún hafi unnið fjórar af fimm lotum kvöldsins var hún undarlega tæp á því nokkrum sinnum. Germaine de Randamie virtist meiða hana einu sinni illa með fljúgandi hné, Nunes át síðan gott uppspark í gólfinu og lenti í „triangle“ hengingu sem hún slapp úr. Nunes slapp með skrekkinn og hélt beltinu.

Þó Nunes sé tvöfaldur meistari er hún ekkert ósigrandi. Það er hægt að vinna hana en það þarf kannski einhvern sem er jafn góð og de Randamie standandi, með jafn góða felluvörn og Holly Holm og með jiu-jitsu eins og hjá Ketlan Vieira. Hvort sá keppandi sé yfirhöfuð til er svo önnur spurning.

Embed from Getty Images

Urijah Faber tapaði illa fyrir Petr Yan. Þetta var aldrei að fara að enda vel hjá Faber að mæta svona vél eins og Yan. Einhvern veginn trúði Faber því að hann gæti unnið titil og langaði að enda ferilinn sem UFC-meistari. Það hefði verið rosa flottur endir á ferlinum og flottur bíómyndaendir. En lífið er ekki bíómynd. Í raunveruleikanum eru fertugir kallar rotaðir þegar þeir mæta topp 5 andstæðingi. Faber hefur ekki verið nógu góður til að vinna titil í áratug og er fráleitt að hugsa til þess að hann hafi talið sig geta það í dag. Fólkið í kringum hann ætti að setjast niður með honum og taka hann á gott spjall um þessa endurkomu hans í búrið.

Síðasta stóra bardagakvöldið var nokkuð skemmtilegt. Næsta UFC er núna á laugardaginn þegar UFC fer til Suður-Kóreu. Þar mætast þeir Frankie Edgar og kóreski uppvakningurinn Chan Sung-Jung.

Pétur Marinó Jónsson
Latest posts by Pétur Marinó Jónsson (see all)

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.