Friday, March 29, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 252

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 252

Embed from Getty Images

UFC 252 fór fram um helgina í Las Vegas. Stipe Miocic varði þungavigtarbeltið sitt en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir helgina.

Stipe Miocic er besti þungavigtarmaður heims, á því liggur enginn vafi. Stipe sigraði Daniel Cormier í hörku bardaga og heldur því þungavigtarbeltinu. Stipe var einfaldlega betri í bardaganum og vann eftir sanngjarna dómaraákvörðun. Það var mikið undir og fannst manni eins og bardaginn gæti klárast á einu augabragði. Bardaginn var frábær, hrikaleg gæði hjá báðum og var þetta einfaldlega mögnuð trílogía sem kláraðist á laugardaginn.

Stærsta mál helgarinnar er augnpotið sem Cormier varð fyrir. Það var leiðinlegt að sjá enda hafði þetta svo sannarlega áhrif á hann í bardaganum. Þar með fékk hann að kenna á eigin bragði (þó þetta sé alltaf óviljaverk) enda potaði hann í augu Stipe í öllum bardögum þeirra.

Eftir kemur þessi endalausa og þreytta umræða um augnpotin en eitthvað þarf að gera í þessum augnpotum. Kannski eru hanskarnir vandamálið því það er of auðvelt að rétta út fingurna í UFC hönskunum. Það er erfiðara í Bellator hönskunum en samt sjáum við augnpot þar eiga sér stað. UFC hefur talað um að endurhanna hanskana í nokkur ár en ekkert heyrst varðandi nýja hönnun.

Að mínu mati ætti bara að taka stig strax af bardagamönnum þegar potað er í auga. Það vita allir að þetta er bannað en það þarf bara að taka harðar á þessum slysum þar sem þetta hefur svo mikil áhrif á bardagann. Slysin gerast og stundum halda bardagamenn að þeir hafi fengið putta í augað þegar þetta var í raun hnefi andstæðingsins og það gæti verið dýrt að missa stig fyrir löglegt högg en eitthvað þarf að gera.

Embed from Getty Images

Daniel Cormier segist núna vera hættur. Hann ætlar ekki að berjast nema það sé titill í húfi og eins og staðan er núna sér hann ekki fram á að fá titilbardaga á næstunni. Cormier sýndi það að hann þarf alls ekki að hætta enda einn af þeim bestu í heimi í dag. Það er samt alltaf gott að sjá menn hætta áður en það verður of seint og pínu sorglegt. Cormier er orðinn 41 árs gamall, hefur átt flottan feril og lýkur ferlinum stoltur.

Það er í raun ótrúlegt að Cormier hafi tekið sinn fyrsta bardaga 30 ára gamall miðað við árangurinn sem hann hefur náð. Hann hefur líka farið í gegnum erfiða andstæðinga og verið í sviðsljósinu lengi. Í 9 af síðustu 11 bardögum hans var hann í aðalbardaga kvöldsins á stóru bardagakvöldi. Cormier er mikill sigurvegari og hann hefði eflaust viljað endað ferilinn sem meistari en hann getur gengið stoltur frá borði ef þetta er raunverulega endalokin.

Næsta skref hjá Stipe verður áhugavert. Að öllum líkindum verður það endurat gegn Francis Ngannou og það er alltaf að fara að vera áhugaverður bardagi. Annars gæti Jon Jones blandað sér í baráttuna í þungavigt en hann hefur talað um þetta skref í áratug og óþarfi að eyða alltof miklum tíma í að spá í því fyrr en það gerist.

Að margra mati er Stipe orðinn besti þungavigtarmaður heims en í mínum huga er hann mjög nálægt því að taka fram úr Fedor í þeim efnum. Kannski er það bara nostalgían í manni sem fær það til að gefa ennþá Fedor toppsætið en Stipe er klárlega einn af þeim allra bestu í sögu þungavigtarinnar.

Embed from Getty Images

Það var gríðarleg spenna fyrir bardaga Sean O’Malley og Marlon Vera. O’Malley var afar sigurstranglegur fyrir bardagann enda litið mjög vel út á þessu ári. Vera kláraði O’Malley óvænt með tæknilegu rothöggi í 1. lotu og var eðlilega sáttur með sigurinn.

O’Malley hrasaði og var greinilega meiddur á fæti strax í 1. lotu. Núna hafa sést myndbönd þar sem O’Malley virðist missa kraftinn í löppinni eftir lágspark frá Vera. Fóturinn bognar síðan þegar hann sækir fram og hefur hann sennilega slitið einhver liðbönd í ökklanum þá. Svipað gerðist fyrir Henry Cejudo í seinni bardaganum gegn Demetrious Johnson og hjá Michael Chandler gegn Brent Primus.

Hér má sjá fína greiningu á sparkinu sem olli máttleysinu.

Við fyrstu sýn virtist dómarinn hafa stöðvað þetta of snemma en O’Malley mótmælti aldrei ákvörðun dómarans og greip strax um löppina. Hárrétt ákvörðun hjá Dean þarna en O’Malley át þunga olnboga í gólfinu.

Þetta tap var samt ekkert stórslys fyrir O’Malley hæpið. Jú það er hrikalegt að vera rotaður og slæmt ef þetta eru sömu meiðsli og hann varð fyrir í bardaganum gegn Andre Soukhamthath en það er ekki eins og honum hafi verið rústað. Þegar hann nær sér aftur væri ég alveg til í að sjá hann fara aftur á móti Vera.

Junior dos Santos tapaði sínum þriðja bardaga í röð en öll töpin hafa verið eftir rothögg. Fram að rothögginu leit hann vel út en hann er bara ekki lengur með hökuna í þetta eða hraðann til að verjast höggum. Spurning hvort einhver muni taka þetta erfiða samtal og sannfæra hann um að þetta sé komið gott hjá honum. Jairzinho Rozenstruik er kominn á fínan stað með þessum sigri og væri gaman að sjá hann gegn Derrick Lewis næst.

Sean O’Malley var ekki eini efniviðurinn sem tapaði á laugardaginn en Herbert Burns var étinn af Daniel Pineda. Pineda hefur verið lengi í bransanum og einfaldlega pakkaði honum saman. Pineda er 35 ára reynslubolti en virtist vera mun meiri maður en hinn 32 ára Burns.

Virna Jandiroba, Chris Daukaus og Kai Kamaka III áttu síðan góðar frammistöður í upphitunarbardögunum. Hlakka til að sjá meira af þeim.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular