Saturday, February 24, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 259

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 259

Embed from Getty Images

UFC 259 fór fram á laugardagskvöldið þar sem þrír titilbardagar voru á dagskrá. Hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Eitt stærsta bardagakvöld ársins olli ekki vonbrigðum. Óvæntir sigrar, flott tilþrif og umdeild atvik litu dagsins ljós á bardagakvöldinu.

Jan Blachowicz sigraði Israel Adesanya í aðalbardaga kvöldsins. Þetta var hans fyrsta titilvörn síðan hann tók beltið í september og varð jafnframt sá fyrsti til að sigra Adesanya í MMA. Þetta var hans fyrsta titilvörn og er kominn tími á að hann fái aðeins meiri virðingu. Hann má alveg vera sigurstranglegri hjá veðbönkum næst.

Jan vann fjórar af fimm lotum sem kom á óvart. Að mínu mati voru fyrstu þrjár loturnar mjög jafnar en svo sem enginn vafi með síðustu tvær loturnar. Þetta var tæknilegt og jafnt standandi og fannst mér Adesanya taka tvær lotur þar en Blachowicz vann að minnsta kosti þrjár lotur í mínum huga og það er nóg.

Tveir dómarar skoruðu 5. lotuna 10-8 sem kom á óvart. Hér áður fyrr sáum við bara 10-8 lotu þegar annar bardagamaðurinn var búinn að ganga frá andstæðingi sínum og nálægt því að klára bardagann. Núna eru reglurnar aðeins öðruvísi og skora dómarar 10-8 þegar „one fighter has dominated the action of the round, had duration of the domination and also impacted their opponent with either effective strikes or effective grappling maneuvers that have diminished the abilities of their opponent,“ eins og segir í reglunum. Það er kannski helst þetta feitletraða sem réttlætir 10-8 lotu í þessu tilviki þar sem Adesanya var ekki vankaður og Jan var bara um hálfa lotuna ofan á í gólfinu.

Embed from Getty Images

Þetta var líka í fyrsta sinn sem við sjáum einhvern taka Adesanya niður og stjórna honum í gólfinu. Þar hafði stærðin klárlega eitthvað að segja en líka kannski aðferðin hjá Jan. Flestir hafa verið að reyna að taka Adesanya niður upp við búrið (meðal annars Jan) og hefur Adesanya varist því vel. Í þetta sinn tók Jan millivigtarmeistarann niður út á miðju gólfi og það er kannski leiðin til að ná honum niður.

Jan var klárlega stærri maðurinn í búrinu og er þetta í annað sinn sem við sjáum ríkjandi meistara fara upp um flokk en mistakast þrátt fyrir að vera sigurstranglegri. Max Holloway tapaði fyrir Dustin Poirier 2019 eftir að hafa farið upp í léttvigt og svo núna Israel Adesanya.

Það er líka bara fínt að Adesanya sé ekki í þessum „double champ“ bransa. Í staðinn erum við bara með fínan stöðugleika í millivigt og léttþungavigt. Næsti áskorandi fyrir Jan er hinn 41 árs gamli Glover Teixeira og er það kannski ekki mest sexy bardaginn í bransanum en Glover á það bara skilið. Ég fíla líka að Jan hafi ekki verið að skora á Jon Jones eða eitthvað þannig bull. Hann fer bara í næsta áskoranda og býður honum í dans. Fínt að leyfa Jon Jones að vera í friði í þungavigtinni og halda umskiptum flokksins áfram eftir að Jon Jones lét beltið af hendi.

Adesanya fer síðan aftur í millivigt og getur borið höfuðið hátt. Eins og hann sagði það, „dare to be great,“ hann tók séns og fór upp gegn stærri manni en tapaði. Ef Robert Whittaker vinnur Paulo Costa verður það væntanlega næsta titilvörn Adesanya og svo gæti sigurvegarinn úr Till-Vettori bardaganum fengið titilbardaga líka.

Embed from Getty Images

Amanda Nunes rústaði Megan Anderson. Hún eiginlega bæði rotaði hana og kláraði hana með uppgjafartaki á tveimur mínútum sem er ansi vel af sér vikið. Það voru ekki margir sem töldu að Anderson ætti einhvern séns og það reyndist rétt. Hún átti bara ekki heima þarna og virðist enginn eiga heima í búrinu með Nunes þessa dagana.

Nunes gæti tekið sér frí í eitt ár og samt væri ekki áskorandi í hvorugum flokknum sem gæti veitt henni mótspyrnu. Þær Germaine de Randamie og Holly Holm hafa stoppað allar þessar sem hafa verið á leiðinni upp í titilbardaga. Julianna Pena hefur eitthvað verið að gelta en er bara nr. 6 á styrkleikalistanum og er 2-2 í síðustu fjórum bardögum. Pena átti að mæta Holly Holm í maí en Holm meiddist á dögunum.

Nunes hefur á síðustu mánuðum eitthvað talað um að hætta á næstu árum en um helgina virtist hún ekkert vera á þeim buxunum. Hún vill bara halda áfram og vinna sem flestar. Það er bara gott mál fyrir okkur en kannski verra fyrir aðrar konur í bantam- og fjaðurvigt.

Embed from Getty Images

Umdeildasta atvik helgarinnar kom í titilbardaga Petr Yan og Aljamain Sterling. Petr Yan var með bardagann í hendi sér en negldi með hnéð í höfuð Aljamain Sterling á meðan Sterling var í gólfinu og var í kjölfarið dæmdur úr leik.

Þetta var mjög skrautlegt og bjánalegt hjá Yan en Yan á bara að vita betur. Maður sem er kominn á þetta getustig á ekki að gera svona mistök. En eins og hann sagði eftir bardagann þá var hann of mikið að hugsa um hendurnar á Sterling og að sögn Khabib kallaði hornið á hann á rússnesku að sparka í hann.

Sterling lá óvígur eftir en á þessu augnabliki átti dómarinn bara að taka stjórnina strax. Það var augljóst frekar snemma að Sterling gæti ekki haldið áfram og þá á dómarinn bara að stoppa þetta strax. Þess í stað fer ábyrgðin á Sterling og hvort hann geti haldið áfram eða ekki. Í staðinn fær Sterling fullt af skít yfir sig frá misgáfulegum aðdáendum um að hann hafi sagst ekki getað haldið áfram bara til að geta fengið beltið. Ábyrgðin á að liggja hjá dómaranum en ekki bardagamanninum í svona aðstæðum.

Á svona augnablikum þarf dómarinn rétt að líta á bardagamanninn, kíkja jafnvel á endursýninguna einu sinni og stöðva þetta strax. Þó Sterling væri harðasti maður heims hefði hann aldrei getað verið samur út bardagann eftir þetta hné.

Embed from Getty Images

Enduratið ætti þó að verða mjög áhugavert. Petr Yan (eða umboðsmaður hans) var strax mjög leiður yfir þessu á Twitter og baðst afsökunar en ekki leið á löngu þar til þeir voru aftur farnir að drulla yfir hvorn annan á samfélagsmiðlum. Það verður mikill áhugi á seinni bardaganum og munu báðir eflaust gera örlitlar breytingar á leikáætlun sinni.

Sterling byrjaði af miklum krafti en virtist ekki geta höndlað hraðann sem hann sjálfur setti upp. Petr Yan var þolinmóður og beið átekta fyrstu tvær loturnar og tók svo yfir bardagann. Sterling má vera svekktur með fellurnar sínar en hann náði Yan aðeins einu sinni niður í 17 tilraunum! Aftur á móti náði Yan að skella Sterling á bakið sjö sinnum án þess að vilja fara mikið í gólfið með honum. Sterling getur í það minnsta huggað sig við það að hann er ríkjandi meistari og fær borgað sem meistari þegar hann mætir Yan aftur.

Cory Sandhagen bölvaði þessari niðurstöðu sennilega og þarf hann að bíða lengur eftir titilbardaga. Vonandi mætir hann T.J. Dillashaw í vor og ætti sigurvegarinn þar að vera kominn með titilbardaga.

Næsta bardagakvöld UFC fer fram um næstu helgi þar sem þeir Leon Edwards og Belal Muhammad mætast í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular