Í gær fór fram ágætis bardagakvöld í Las Vegas þar sem þeir Thomas Almeida og Cody Garbrandt mættust í aðalbardaganum. Bantamvigtin er í sviðsljósinu í Mánudagshugleiðingunum í dag.
Það var gaman að sjá UFC fjárfesta aðeins í framtíðinni í bantamvigtinni. Þeir Almeida og Garbrandt eru ungir og upprennandi bardagamenn og voru þeir í aðalbardaganum í gær. Garbrandt sigraði eftir rothögg í 1. lotu og átti bardagann nánast frá fyrstu sekúndu.
Thomas Almeida virtist ekki vera hann sjálfur í gær. Hann var hikandi og til baka allan bardagann og hvort sem það var hluti af leikáætluninni eða eitthvað sem klikkaði andlega kom það sér vel fyrir Garbrandt. Bandaríkjamaðurinn þolir illa pressu en Almeida pressaði lítið og gat Garbrandt því spilað sinn leik að vild og átti frábæra frammistöðu.
Það verður gaman að sjá hvað Garbrandt gerir næst og enn áhugaverðara að sjá hvernig Almeida kemur til baka eftir sitt fyrsta tap. Eins og alltaf þegar bardagamenn með mikinn meðbyr tapa eru margir strax farnir að afskrifa Almeida. MMA aðdáendur geta stundum verið aðeins of kröfuharðir og ef þú tapar einu sinni muntu aldrei verða neitt.
Almeida hefur sína galla en hann er bara 24 ára gamall og gæti enn farið mjög langt. Þó hann hafi tapað gegn góðum Garbrandt er ekki hægt að segja að hann hafi aldrei verið neitt nema „hype“. Hann var 21-0 og klárað alla nema einn. Hann kemur til baka og á nóg eftir.
Fyrrum bantamvigtarmeistarinn Renan Barao tapaði fyrir Jeremy Stephens og hefur nú tapað þremur af síðustu fjórum bardögum sínum. Barao var taplaus í 33 bardögum en hefur átt erfitt uppdráttar síðan T.J. Dillashaw tók beltið af honum. Hann leit ekkert illa út í gær en þarf nú að aðlagast öðruvísi andstæðingum í nýjum þyngdarflokki. Hann er bara 29 ára gamall en hefur barist í 11 ár og það tekur sinn toll á skrokkinn.
Kannski er Renan Barao brotinn maður eftir barsmíðarnar sem hann fékk frá Dillashaw og á kannski aldrei eftir að ná sömu hæðum. Brassarnir áttu allavegna ekki gott kvöld í gær og töpuðu öllum fjórum bardögum sínum.
Rick Story snéri aftur í gær eftir langa fjarveru og átti flotta frammistöðu gegn Tarec Saffiedine í gær. Það var ekki að sjá að hann hefði verið lengi frá í gær. Hann labbaði í gegnum allt sem Saffiedine hafði upp á að bjóða og skipti ekki máli hvort það voru spörk í læri eða höfuð – ekkert beit á hann. Story minnti vel á sig og mun fá topp tíu andstæðing næst. Dong Hyun Kim kannski?
Aljamain Sterling fékk sitt fyrsta tap á ferlinum í gær þegar Bryan Caraway sigraði hann eftir klofna dómaraákvörðun. Í raun þurfti þetta ekkert að vera klofin dómaraákvörðun þar sem öllum var ljóst (meira að segja Sterling líka) að Caraway hefði sigrað seinni tvær loturnar eftir að Sterling hafði tekið þá fyrstu. Caraway hefur enn einu sinni sýnt að hann er hörku bardagamaður sem skal ekki vanmeta. Sterling mun læra af þessu og koma vonandi sterkur til baka rétt eins og Thomas Almeida.
Næsta UFC bardagakvöld er á laugardaginn þegar UFC 199 fer fram. Þar mun Luke Rockhold mæta Michael Bisping um millivigtartitilinn og Dominick Cruz mætir Urijah Faber um bantamvigtartitilinn.