spot_img
Friday, January 3, 2025
Minigarðurinnspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Dillashaw vs. Cruz

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Dillashaw vs. Cruz

UFC Fight Night: Dillashaw v Cruz
Mynd: Maddie Meyer

Í gærkvöldi fór fram UFC Fight Night: Dillashaw vs. Cruz í Boston. Af nógu að ræða eftir bardagakvöldið í Mánudagshugleiðingunum.

Dominick Cruz tókst hið ótrúlega og sigraði T.J. Dillashaw eftir klofna dómaraákvörðun. Bardaginn var gríðarlega jafn og eru ekki allir sammála um hver átti sigurinn skilinn. Þó ekki allir séu sammála er ekki hægt að tala um eitthvert rán. Þetta var bara jafn bardagi þar sem annar aðilinn fékk sigurinn dæmdan sér í vil.

Sigur Cruz er ótrúlega merkilegur. Maðurinn var sviptur beltinu vegna þrálátra meiðsla (tvær krossbandsaðgerðir á vinstra hné og ein á hægra hné og rifinn nári) en tókst að koma til baka og endurheimta beltið. Cruz hafði aðeins barist í 61 sekúndu á síðustu fjórum árum fyrir bardagann en það var ekki að sjá að hann væri eitthvað ryðgaður í gær.

Það var líka eitthvað sem hann talaði um fyrir bardagann – „ring rust“ er ekki til. Gunnar Nelson og Conor McGregor sögðu báðir það nákvæmlega sama eftir að þeir snéru til baka í búrið eftir árs fjarveru vegna meiðsla. „Ring rust er bara til ef þú trúir á það og ert að pæla í ring rust“ sagði Gunnar Nelson í viðtali við okkur eftir að hann kom til baka eftir meiðsli.

Frammistaða Cruz sýnir tvennt. Læknavísindunum og sjúkraþjálfun hefur farið gríðarlega fram á undanförnum árum og að Cruz er enginn venjulegur maður. Það hefur alltaf verið sagt að krossbandsslit séu verstu meiðslin fyrir íþróttamenn og er margt til í því. Hins vegar hafa bæði Cruz og Conor McGregor sýnt að það er vel hægt að koma til baka eftir slík meiðsli. Báðir hafa þeir núna átt frábærar frammistöður eftir þessi erfiðu meiðsli. Það var heldur ekki að sjá á Cruz að hreyfanleikinn hans væri eitthvað minni eða verri eins og óttast var.

Þessi sigur sýnir líka hversu ótrúlegur karakter Dominick Cruz er. Það eru fáar manneskjur í heiminum sem gætu komið til baka eftir öll þessi meiðsli og litið svona vel út. Cruz er svo sannarlega með einstakt hugarfar og er gríðarlega andlega sterkur.

Það væri vel hægt að gera ofurdramatíska Hollywood mynd um Dominick Cruz og hans feril þegar ferlinum lýkur. Cruz er ótrúlegur karakter og sáum við enn eitt dæmið um það eftir bardagann í viðtali við Ariel Helwani. Aðspurður um hvort sigurinn hafi verið besta augnablik ævinnar svaraði hann neitandi. Besta augnablikið á ævi hans var þegar hann áttaði sig á því að hann þyrfti ekkert belti til að vera hamingjusamur.

Anthony Pettis tapaði sínum öðrum bardaga í röð um helgina. Eddie Alvarez kom öllum að óvörum og gerði það sama og Rafael dos Anjos gerði við Pettis. Hann pressaði hann upp við búrið og reyndi að taka Pettis niður. Pettis sýndi góða felluvörn en í 3. lotu náði Alvarez að taka hann nokkrum sinnum niður sem gerði útslagið fyrir Alvarez.

Þetta virðist vera öruggasta leiðin til að vinna Anthony Pettis. Þessi skemmtilegi bardagamaður þarf eflaust að gera einhverjar breytingar hjá sér. Kannski er Pettis bara sáttur með að vera aðal maðurinn í Milwaukee, vinsæll og myndarlegur bardagamaður. Ef hann ætlar sér að verða bestur í heimi aftur þarf hann samt að breyta einhverju.

Fyrir ári síðan var Pettis léttvigtarmeistarinn, var framan á Wheaties morgunkorninu og talið að hann myndi halda beltinu í ágætis tíma. Nú hefur hann tapað tveimur bardögum í röð, virðist ekki vera að laga holurnar sínar og er 5-3 í UFC.

Pettis breytti vissulega einhverju fyrir bardagann og fékk Izzy Martinez til að aðstoða sig með fellurnar og felluvörnina. Pettis var vissulega með góða felluvörn framan af en þegar Pettis fékk svo loksins pláss til að athafna sig gerði hann of lítið.

Matt Mitrione eye

Sigur Travis Browne á Matt Mitrione var nokkuð umdeildur. Browne potaði tvisvar í hægra auga Matt Mitrione án þess að hljóta refsingu fyrir það. Mitrione leit ágætlega út standandi og má gera ráð fyrir að augnpotin hafi haft áhrif á Mitrione.

Browne hefði 100% átt að fá mínusstig þegar hann potaði í augað á Mitrione í seinna skiptið. Mínusstigið hefði kannski ekki haft áhrif á endanlega útkomu bardagans en þetta er áhyggjuefni. Má sem sagt pota tvisvar í augað á andstæðingnum án þess að hljóta refsingu fyrir það? Þetta virðast vera skilaboðin frá dómurunum.

Aðalhluti bardagakvöldsins var ágætur en upphitunarbardagar kvöldsins voru mjög skemmtilegir. Margir af upphitunarbardögunum kláruðust og mátti sjá nokkur flott tilþrif. Efnilegir bardagamenn á borð við Chris Wade, Luke Sanders og Rob Font vöktu athygli með góðum frammistöðum og verður gaman að fylgjast með þeim í náinni framtíð.

Næsta UFC bardagakvöld fer fram þann 30. janúar þegar Anthony Johnson og Ryan Bader mætast á UFC on Fox 18 bardagakvöldinu í New Jersey.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular