spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Hunt vs. Miocic

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Hunt vs. Miocic

mark hunt stipeÆsispennandi bardagakvöld fór fram síðasta laugardagskvöld. Af þeim tólf bardögum sem voru á kvöldinu enduðu aðeins tveir með dómaraákvörðun.

Erfitt var að horfa á aðalbardaga kvöldsins. Enginn hefur nokkurn tímann efast um hökuna hans Mark Hunt og virðist hann þola ógrynni högga. Þó svo að það sé hans helsti styrkleiki var það hans versta bölvun að þessu sinni. Flestir hefðu bognað undan barsmíðinni en Hunt var ekkert á því að hætta. Miocic valtaði gjörsamlega yfir hann og setti í leiðinni met í fjölda högga sem lenda. Alls náðu 361 högg inn fyrir vörn Hunt en fyrra metið átti Royce Gracie (355 högg) frá því á UFC 5.

mark hunt
Mark Hunt illa farinn eftir bardagann.

Flestir hefðu verið búnir að gefast upp og einfaldlega leyft dómaranum að stoppa bardagann en hjartað hans Hunts er einfalega of stórt til að gefast upp. Dómarinn, sem hefði átt að stoppa bardagann í þriðju lotu, stoppaði loksins bardagann í fimmtu lotu eftir að Miocic hafði hamrað á Hunt án nokkurs konar mótspyrnu. Auga Hunt var nánast lokað vegna bólgu en læknirinn á staðnum spurði Hunt hvort hann gæti séð áður en fimmta lotan hófst. Að sjálfsögðu sagðist Hunt sjá og glotti er hann var spurður hvort hann vildi halda áfram. Hann svaraði auðvitað játandi.

Hornamenn Mark Hunt hefðu einnig gjarnan mátt stöðva bardagann á milli lota. Í stað þess að fá nytsamleg ráð um hvernig Hunt gæti snúið taflinu sér í vil heyrðist fátt nema „Stay on your feet, bro“.

Stjarna kvöldsins var án efa Robert Whittaker sem sigraði með rothöggi eftir aðeins 44 sekúndur af fyrstu lotu. Whittaker leit hreinlega stórkostlega út og smellti vinstri krók á höku Tavares eftir að hafa sett það upp með sparki. Tavares náði að komast aftur á fætur en þá beið hans aðeins annar svellkaldur vinstri krókur sem kláraði bardagann.

Sean O’Connell sigraði hinn 43 ára gamla Anthony Perosh með tæknilegu rothöggi í fyrstu lotu. Perosh mótmælti ákvörðun dómarans en hafði lítið til síns máls enda var þetta hárrétt ákvörðun hjá dómaranum. Sean O’Connell er skemmtilegur karakter og var viðtalið eftir bardagann kostulegt. O’Connell mun væntanlega tala um bardagann í útvarpsþætti sínum í dag en hann er með íþróttaspjallþátt á ESPN alla mánudag.

James Vick og Jake Matthews stigu báðir inn í búrið ósigraðir og var því mikið í húfi. Bardaginn fór aðallega fram standandi þangað til í lok fyrstu lotu þegar Matthews ákvað að reyna ná Vick niður. Vick náði hins vegar að festa Matthews í standandi „guillotine“ hengingu. Matthews reyndi að verjast henginguna með því að láta sig falla í jörðina en Vick læsti gripinu betur og sigraði bardagann þegar aðeins sjö sekúndur voru eftir af fyrstu lotu.

Sam Alvey sýndi aftur það sem hann er þekktur fyrir – ótrúlegan höggþunga og stórskemmtilegan persónuleika. Alvey rotaði Dan Kelly eftir aðeins 49 sekúndur af fyrstu lotu og skemmti hann áhorfendum með bráðfyndnu viðtali eftir að hafa rotað heimamanninn. Alvey skartaði “#Perfect Tan“ sprey brúnku á bringunni sem vakti mikla athygli. Það er þó ekki leyfilegt að skarta auglýsingu á líkama í búrinu og fékk Alvey skömm í hattinn frá UFC. Hann taldi sig þó ekki vera að brjóta neinar reglur og baðst afsökunar. Að hans sögn var þetta gert í gríni enda er hann rauðhærður og því fannst honum fyndið að skarta sprey brúnku á bringunni.

Vonandi mun Alvey halda upprisu sinni áfram en hann hefur nú sigrað síðustu þrjá bardaga sína – alla með rothöggi í fyrstu lotu.

Næsta UFC bardagakvöld er um helgina þegar UFC heimsækir Filippseyjar. Þeir Urijah Faber og Frankie Edgar eigast við í aðalbardaga kvöldsins. Bardagakvöldið er á góðum tíma hér heima en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 14 á íslenskum tíma.

 

sam alvey
Sam Alvey með brúnkuspreyið.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

  1. Robert Whittaker er hrikalega skemmtilegur bardagamaður. Hafði mikla trú á honum eftir að hafa séð hann í TUF: Smashes. Held að hann eigi eftir að gera stórkostlega hluti í millivigtinni

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular