Friday, March 29, 2024
HomeForsíðaSunna Rannveig: Tek bardaga í hvaða flokki sem er

Sunna Rannveig: Tek bardaga í hvaða flokki sem er

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir er fyrsta íslenska konan til að keppa í MMA. Þann 2. maí síðastliðinn barðist hún sinn þriðja MMA-bardaga á bardagakvöldi í Skotlandi og fór með sigur af hólmi.

Sunna mætti Helen Copus í Skotlandi en Copus er þekkt í Skotlandi fyrir glímufærni sína. „Bardaginn fór hratt af stað eins og gerist svo oft í kvennabardögum. Ég vissi að andstæðingurinn minn myndi vera mikið að skjóta í fellur, sem hún gerði, en ég náði að verjast því og refsa henni. Hún er sterk glímukona og þyngri en ég og mér leið vel að hafa bardagann standandi og boxa.“

Þrátt fyrir glímufærni Copus tókst Sunnu að klára hana í gólfinu. „Ég var tilbúin að takast á við hana í gólfinu líka ef til þess kæmi, sem ég gerði í lokin. Ég náði bakinu á henni í lok þriðju lotu en þegar ég velti henni úr turtle [á fjórum fótum] á bakið þá meiddi hún sig í hnénu og gaf hún frá sér hljóð sem varð til þess að bardaginn var stöðvaður,” segir Sunna en hún hafði mikla yfirburði í bardaganum.

Það var fátt sem kom Sunnu á óvart og segir hún að vel hafi verið staðið að öllu í kringum bardagana. „Ég bjóst við því að hún [Helen Copus] yrði sterkari en það fer gott orð af henni sem glímukonu og hefur hún unnið til margra gullverðlauna á þeim vettvangi og að auki með reynslu í búrinu. Andsæðingurinn minn gerði nákvæmlega það sem ég bjóst við að hún mundi gera og ég var viðbúin. Eftir bardagann átti ég gott spjall við hana og ætlar hún einhvern tímann að koma og heimsækja Mjölni, æfa með okkur og sjá Ísland.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Það er oft talað um að tilfinningin eftir bardaga sé ólýsanleg. Þetta sé reynsla sem erfitt sé að koma í orð en hvernig leið Sunnu þegar sigurinn var kominn í höfn?

„Tilfinningin er ólýsanleg en ég verð að viðurkenna að það kickaði ekki inn strax. Það var svo mikið um að vera strax eftir bardagann á meðan við vorum enn í búrinu og ég hafði áhyggur af því hvort ég hefði meitt andstæðinginn minn. Við vorum komin aftur upp í upphitunarherbergið þegar ég fann tilfinningarnar bresta í hjartanu mínu, samt allt mjög góðar tilfinningar en þá var ríkjandi gleði og í kjölfarið léttir. Undirbúningsferlið fyrir svona bardaga er langt og getur verið erfitt. Ég var búin að stefna að því að fara aftur í búrið svo lengi og skyndilega var það búið og þá fékk ég nett spennufall,“ segir Sunna.

Bardaginn fór fram í bantamvigt en Sunna kýs að keppa í strávigt – tveimur þyngdarflokkum neðar. Sunna hefur ekki barist síðan í september 2013 en erfiðlega hefur gengið að fá bardaga. „Það hefur verið erfitt að fá andstæðingana til þess að skuldbinda sig við þá ákvörðun að berjast. Ég hef ekki barist í 18 mánuði en búin að fá marga andstæðinga á þeim tíma sem hafa svo þurft að hætta við. Þær hafa ýmist verið í mínum þyngdarflokki eða þeim næsta fyrir ofan. Ég fékk strax að vita að þessi væri þyngri og efaðist aldrei um að ég gæti tekist á við hana enda vön stærri andstæðingum. Á meðan það er svona erfitt að fá bardaga tek ég bardaga í hvaða flokk sem er. Ég er bara mjög þakklát fyrir að hafa fengið bardaga til þess að koma mér aftur af stað.“

Þetta hefur verið gott ár fyrir Sunnu keppnislega séð en hún varð Evrópumeistari í brasilísku jiu-jitsu fyrr á árinu. En hvað er framundan núna?

„Ég ætla að halda mínu striki á æfingum og halda áfram að bæta færni mína sem bardagakona. Framundan er að taka næsta skref í atvinnumennsku og þá verður þetta erfiðara og enn færari andstæðingar í búrinu og því mikilvægt að vera vel undirbúin,“ segir Sunna að lokum.

Við viljum þakka henni kærlega fyrir viðtalið og óskum henni velfarnaðar á næstunni.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular