Saturday, April 20, 2024
HomeForsíðaUFC á Filippseyjum um helgina

UFC á Filippseyjum um helgina

ufc flagUFC mun um helgina halda viðburð í Filippseyjum í fyrsta sinn. Lengi hefur verið talað um UFC bardagakvöld í landinu og er nú loksins komið að því. Bardagarnir fara fram á besta tíma hér á landi.

Aðalbardagi kvöldsins verður spennandi viðureign milli Urijah Faber og Frankie Edgar. Um nokkurs konar ofurbardaga er að ræða enda eru báðir þekkt nöfn sem berjast ekki í sama þyngdarflokki. Faber hefur undanfarin ár barist í bantamvigt en fer upp í fjaðurvigt fyrir þennan bardaga. Edgar hefur undanfarin tvö ár barist í fjaðurvigt eftir að hafa barist lengst af í léttvigt. Faber hefur þrisvar barist um titil í UFC en alltaf tapað. Edgar var léttvigtarmeistari um skeið áður en hann fór niður í fjaðurvigt og skoraði á fjaðurvigtarmeistarann Jose Aldo.

Öll sjö töp Urijah Faber komu í titilbardaga, ýmist í WEC eða UFC, en WEC voru bardagsamtök sem sérhæfðu sig í minni þyngdarflokkunum og var keypt af Zuffa (eigendur UFC). Á sama tíma hafa þrjú af fjórum töpum Edgar komið í titilbardaga. Það er því óhætt að segja að báðir menn tapi aðeins fyrir þeim bestu.

Edgar-FaberBardagarnir fara fram í Pasey sem er hluti af höfuðborgarsvæðinu Manila í Filippseyjum. Einn þekktasti boxbardagi allra tíma, The Thrilla in Manila milli Muhammad Ali og Joe Frazier, fór fram á svipuðum slóðum.

Auk Faber og Edgar er nokkuð um skemmtilega bardaga á bardagakvöldinu. Einn af þeim er bardagi Mark Munoz og Luke Barnatt en Munoz á ættir að rekja til Filippseyja. Þetta verður síðasti bardagi hans á ferlinum og viðeigandi að lokabardaginn fari fram á „heimaslóðum“. UFC hefur sent frá sér stutt kynningarmyndbönd í kringum bardagann sem sjá má neðst í fréttinni.

Það sem er kannski jákvæðast við þetta bardagakvöld er tímasetningin. Sex bardaga aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 14 á íslenskum tíma en fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 11 á laugardagsmorgni. Þetta er því kærkomin tilbreyting fyrir Íslendinga sem eru vanir því að horfa á UFC að nóttu til.

Bardagakvöldið er svo hljóðandi:

Fjaðurvigt: Frankie Edgar gegn Urijah Faber
Millivigt: Gegard Mousasi gegn Costas Philippou
Millivigt: Mark Munoz gegn Luke Barnatt
Veltivigt: Hyun Gyu Lim gegn Neil Magny
Fjaðurvigt: Philippe Nover gegn Yui Chul Nam
Fjaðurvigt: Mark Eddiva gegn Levan Makashvili

 

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular