UFC bardagakvöld helgarinnar fór fram í Kanada að þessu sinni. Kvöldið var ekki mikið meira en þokkalegt en fyrir utan aðalbardagann var ekki mikið fréttnæmt sem gerðist. Mánudagshugleiðingarnar eru því tileinkaður einum alsvalasta og besta bardagamanni sem íþróttin hefur átt, Donald ‘Cowboy’ Cerrone.
Í aðalbardaga kvöldsins sigraði Donald Cerrone Al Iaquinta með sannfærandi hætti á stigum og minnti enn einu sinni á hversu góður hann er. Iaquinta byrjaði vel en eftir fyrstu lotuna var þetta einstefna Cerrone í vil. Cerrone hefur verið atvinnumaður í MMA síðan árið 2006 og hefur gengið í gegnum miklar sveiflur á ferlinum en alltaf haldið sér í fremstu röð
Cerrone barðist um titil í þrígang í WEC og einu sinni í UFC en hefur af einhverjum ástæðum aldrei náð að vinna belti. Það er ekki ólíklegt að Cerrone fái annaði tækifæri til að verða meistari og hver veit, kannski tekur hann Michael Bisping á þetta og nælir sér í belti alveg í lok ferilsins.
En hvað ef það gerist ekki? Hversu miklu máli skiptir beltið í raun og veru? Fyrir bardagamanninn þýðir belti meiri peningar en hvað um okkur hin? Er bardagamaður betri ef hann hefur einhvern tímann unnið titil? Varð Michael Bisping skyndilega betri við að rota Luke Rockhold? Svarið við því er nei en titill er samt sem áður einn besti mælikvarði sem við höfum á ágæti bardagamanna. Án hans verður matið huglægara og það verður erfiðara að telja viðkomandi á meðal elítunnar sem einn af þeim allra bestu.
Embed from Getty ImagesÍ tilviki Donald Cerrone hefur hann unnið 23 af 31 bardögum í UFC eða um 74%. Enginn hefur unnið fleiri bardaga í UFC en aðeins Jim Miller hefur fleiri UFC bardaga á bakinu, eða 32 talsins. Cerrone hefur klárað flesta bardaga í UFC, þ.e. 16, sem er líka met og hann hefur líka oftast fengið bónus fyrir góða frammistöðu í sögu UFC. Cerrone hefur sigrað fyrrverandi meistara eins og Benson Henderson og Eddie Alvarez en bara ekki á réttum tímapunktum. Eddie Alvarez varð meistari tveimur árum eftir tapið gegn Cerrone og tapaði beltinu strax aftur í hans næsta bardaga gegn Conor McGregor. Er Eddie Alvarez sjálfkrafa betri bardagamaður, sögulega séð, af því að hann vann UFC titil. Ég held að svarið verði að vera nei.
Ef Donald Cerrone hættir á morgun verður hann að teljast einn sá besti fyrr og síðar, skítt með titla. Hann hefur árum saman verið einn sá vinsælasti og skemmtilegasti á að horfa og hans verður saknað þegar hann loksins hættir. Það eru bardagamenn eins og hann sem minna okkur á að meistaratitlar eru ekki allt. Það er háð ákveðnum tilviljunum hverjir berjast og hvenær og það þarf alltaf smá heppni að sigra rétta andstæðinginn á rétta kvöldinu.
í gegnum ferilinn hefur Cerrone tekið endalausar áhættur. Hann berst oft, hafnar ekki andstæðingum og reynir að klára bardaga sem hann er að vinna. Þegar hann tapar eru engar afsakanir og þegar hann sigrar er hann hógvær. Er hægt að biðja um mikið meira? Vonandi fær Cerrone stóra bardagann gegn Conor McGregor næst því enginn á það meira skilið.
Embed from Getty Images