0

Rose Namajunas: Ógnvekjandi að fara til Brasilíu

Rose Namajunas mætir Jessica Andrade í aðalbardaga kvöldsins á UFC 237 um helgina. Meistarinn þarf að ferðast alla leið til Brasilíu til að berjast á heimavelli andstæðingsins.

„Þetta er ólíkt öllu öðru sem ég hef upplifað. Þetta er frekar ógnvekjandi,“ sagði Rose Namajunas við The MMA Hour á mánudaginn um bardagann.

Namajunas hefur ekki barist síðan hún sigraði Joanna Jedrzejczyk í annað sinn í apríl í fyrra. Það var hennar fyrsta titilvörn eftir að hafa tekið beltið af Jedrzejczyk.

Í þetta sinn fær hún nýjan andstæðing sem hún hefur ekki mætt áður og þar að auki á heimavelli andstæðingsins. „Ég hef mikla reynslu en þetta er á óþekktum slóðum. Það er mikil óvissa fyrir þennan bardaga.“

Síðustu tveir bardagar Namajunas voru gegn Jedrzejczyk og hefur hún því ekki þurft að hugsa um aðra andstæðing í dágóðan tíma. Núna mætir hún Andrade sem er þekkt fyrir mikinn höggþunga og er talsvert frábrugðin Jedrzejczyk. Andrade er talin sigurstranglegri hjá veðbönkum en það er ekki oft sem meistarinn er ekki talinn sigurstranglegri fyrirfram.

„Ég er hreyfanlegri, ég get gert allt á meðan hún er lágvaxin og þarf að minnka fjarlægðina. Það eru nokkrir hluti sem hún þarf að gera í þessum bardaga en ég hef fleiri valmöguleika. Ég hef ekki bara eitthvað eitt sem ég er góð í og þarf í raun bara að vera ég sjálf.“

„Ég þurfti ekki að taka þennan bardaga, ég þurfti ekki að taka hann í Brasilíu og yfirgefa mitt heimili til að berjast við þessa stelpu. Aftur á móti er þetta stórt tækifæri og frábært til þess að vera upp á mitt allra besta og gefa þessu séns. Ef það gengur ekki upp var þessu ekki ætlað að gerast og það er lítið hægt að gera í því. Ég þarf bara að gera mitt besta.“

Hin brasilíska Andrade er hættuleg bardagakona en Namajunas veit hvernig á að vinna hana. „Hún veður bara áfram. Hún kallar sig traktorinn og hún sniglast hægt áfram. Ef þú reynir að stöðva traktor sem kemur beint áfram lendiru í vandræðum, en ef þú færir þig bara til hliðar getur traktorinn ekki vaðið yfir þig.“

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.