spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Lewis vs. Browne

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Lewis vs. Browne

Í nótt hélt UFC bardagakvöld í Halifax í Kanada. Aðalbardagi kvöldsins var Derrick Lewis gegn Travis Browne en einnig mátti sjá kunnugleg nöfn líkt og Johny Hendricks og Hector Lombard. Hér eru Mánudagshugleiðingarnar eftir bardagakvöldið.

Bardagi Derrick Lewis gegn Travis Browne er ekki stærsti aðalbardagi sem við höfum fengið en þetta var samt sem áður ágætis bardagi. Browne byrjaði vel og náði að nota faðminn og löngu lappirnar gegn Lewis í fyrstu lotunni. Browne náði nokkrum góðum framspörkum beint í kviðinn á Lewis og sást það greinilega að spörkin voru að lenda vel enda hélt Lewis um kviðinn og gretti sig.

Browne hefur ekki gengið vel í síðustu bardögum sínum og var þjálfarinn hans, Edmond Tarverdyan, ekki í horninu hjá honum. Tarverdyan hefur verið gagnrýndur harkalega síðustu mánuði eftir gengi Rondu Rousey.

Í annarri lotu var Lewis þó aðeins farinn að finna taktinn og byrjaði að lenda höggum. Loks náði Lewis að lenda hægri hendinni og Browne féll í gólfið þar sem Lewis kláraði bardagann með höggum. Mörgum fannst Mario Yamasaki stöðva bardagann alltof seint og þar á meðal Dana White, forseti UFC.

Það er greinilegt að menn ættu að hætta að vanmeta Lewis en hann lítur út fyrir að geta rotað hvern sem er í þungavigtinni. Þetta var sjötti sigur hans í röð í UFC og er hann farinn að nálgast toppinn. Lewis óskaði eftir að mæta annað hvort Alistair Overeem eða Mark Hunt næst en þeir mætast á UFC 209.

Browne stóð sig virkilega vel í fyrstu lotu og mætti til leiks með gott leikskipulag. Svo varð hann fyrir þessari bombu frá Lewis sem klárar bardagann en Browne leit betur út í gær heldur en í síðustu bardögum.

Johny Hendricks og Hector Lombard mættust í næstsíðasta bardaganum en Hendricks var að þreyta frumraun sína í millivigtinni (185 pund). Hendricks sigraði eftir dómaraákvörðun og leit hann betur út núna en í síðustu bardögum sínum. Við fáum þó sennilega aldrei að sjá sama Hendricks og mætti Georges St. Pierre hér um árið. Hendricks sagði í vikunni fyrir bardagann að sér hefði aldrei liðið betur og væri hann loks að átta sig á því hversu slæm áhrif niðurskurðurinn hafði á líkamann.

Fótavinnan, höfuðhreyfingar og bara holningin á honum var allt önnur í bardaganum í nótt. Báðir bardagamennirnir voru þó meðvitaðir um hættuna sem stafaði af andstæðingnum og voru hikandi í gegnum bardagann. Það var þó Hendricks sem var betri maðurinn og náði hann inn nokkrum góðum hnéspörkum en auk þess fengum við að sjá vinstri hendina hans aftur í fluguformi. Hendricks var alsæll og lék á alls oddi í viðtalinu eftir bardagann og sagðist hafa fundið nýtt heimili í millivigtinni og gæti ekki beðið eftir framtíðinni.

Heimamaðurinn Gavin Tucker stal hálfpartinn senunni í frumraun sinni í UFC. Tucker kemur úr 60 manna bæ í Kanada og leit hrikalega vel út og minnti lýsendurna á Dominick Cruz og Cody Garbrandt. Hraðinn og frábært sparkbox hans gáfu skiluðu honum flottum sigri á Sam Sicilia eftir dómaraákvörðun og verður spennandi að sjá framhaldið.

Elias Theodorou vann fínan sigur á Cezar Ferreira, æfingafélaga Vitor Belfort. Fyrir bardagann hafði aðdáandi hans á Twitter lofað honum að tattúvera andlit og hár Theodorou ef hann myndi segja nafn sitt í beinni útsendingu. Theodorou gerði það og ætlar að láta aðdáandann standa við stóru orðin.

Sara McMann vann auðveldan sigur á andstæðingi sem kom inn með tveggja vikna fyrirvara. Þá vann yngri bróðir þjálfarans virta, Firas Zahabi, sinn fyrsta bardaga í UFC. Aiemann Zahabi er núna 7-0 eftir þennan fína sigur.

Næsta bardagakvöld UFC fer fram þann 4. mars en þá fer UFC 209 fram í Las Vegas. Þar mætast veltivigtarmeistarinn Tyron Woodley og Stephen Thompson í endurati frá bardaga þeirra í nóvember sem endaði með jafntefli.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular