Friday, September 20, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Stephens vs. Choi

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Stephens vs. Choi

UFC var með nokkuð gott bardagakvöld í St. Louis í gærkvöldi. Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Jeremy Stephens og Doo Ho Choi en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Jeremy Stephens sigraði Doo Ho Choi eftir rothögg í 2. lotu. Stephens leit vel út og var bardaginn bara mjög skemmtilegur. Stephens hefur nú unnið tvo bardaga í röð og segist vera tilbúinn að hlaupa í skarðið fyrir titilbardaga í fjaðurvigtinni ef Frankie Edgar meiðist aftur.

Hann þarf þó að gera talsvert meira en að vinna tvo bardaga í röð til að fá verðskuldaðan titilbardaga (þ.e.a.s. ef hann er ekki að koma inn með skömmum fyrirvara). Max Holloway er þegar með sigur gegn honum og ekki svo langt síðan sá bardagi fór fram.

Doo Ho Choi er alltaf skemmtilegur bardagamaður en hefur tekið of mikinn skaða í síðustu tveimur bardögum. Hann þarf eitthvað að endurhugsa vörn sína gegn höggum. Choi hefur sýnt að hann er með harða höku en fær þó alltof mörg högg í sig og veitir það ekki á gott fyrir þennan 26 ára Kóreumann. Hann gæti kannski notað tímann á meðan hann sinnir herskyldunni til að bæta vörnina en Choi býst við að sinna tveggja ára herskyldu sinni á næsta ári.

Paige VanZant tapaði fyrir Jessica-Rose Clarke eftir dómaraákvörðun í næstsíðasta bardaga kvöldsins. VanZant hefur oft verið gagnrýnd fyrir að vera ekki alvöru bardagamaður en það er bara ekki rétt. Hún fær vissulega sérmeðferð hjá UFC vegna útlitsins og söluhæfi hennar en það er ekki við hana að sakast. Í bardaganum í gær handleggsbrotnaði hún í 1. lotu en hélt samt áfram. Hún sýndi líka mikla hörku í bardaga sínum gegn Rose Namajunas. Bardagagetu hennar má gagnrýna en hún hefur sýnt að hún er ljónhörð!

Embed from Getty Images

Kamaru Usman sigraði Norðmanninn Emil Weber Meek eftir dómaraákvörðun. Frammistaða Usman þótti ekki merkileg og gagnrýndi Dana White, forseti UFC, Usman eftir bardagann. Usman vill fá stóra bardaga og hefur lengi kallað eftir því. Hann verður þó að sýna skemmtilegri takta en hann gerði í gær. Usman er sterkur glímumaður og hefur áður átt svipaða frammistöðu í UFC líkt og hann sýndi í gær. Það er alveg hægt að skemmta áhorfendum með fellum og gólfglímu enda er Khabib Nurmagomedov einn sá vinsælasti í UFC í dag og gerir hann ekkert nema að taka menn niður.

Usman er núna 7-0 í UFC og á skilið að fá hærra skrifaða andstæðinga en einhvern sem er 1-0 í UFC líkt og Meek var fyrir helgina. Hann er þó einhvern veginn ekki að fá aðdáendur á sitt band þegar hann berst eins og hann gerði í gær og segist svo bara hafa verið á 30% hraða. Usman leiðrétti reyndar 30% ummælin þar sem hann átti við að hann hefði aðeins verið 30% heill heilsu í gær. Leiðréttingin skiptir samt litlu máli enda fer lítið fyrir henni miðað við upphaflega viðtalið í búrinu beint eftir bardagann.

Darren Elkins heldur áfram að koma á óvart og hefur nú unnið sex bardaga í röð í fjaðurvigtinni. Hann verður aldrei sagður sá tæknilegasti eða sá hæfileikaríkasti en maðurinn er ótrúlega seigur og harður af sér. Elkins kláraði Michael Johnson eftir hengingu í 2. lotu og verður áhugavert að sjá hvern hann fær næst. Það er allavegna nokkuð ljóst að hver sá sem mætir honum þarf að hafa vel fyrir því að sigra Elkins.

Fyrsta stóra bardagakvöldið á þessu ári fer fram um næstu helgi. Þá mætast þeir Stipe Miocic og Francis Ngannou í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular