spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMánudagshugleiðingar eftir UFC on Fox 15

Mánudagshugleiðingar eftir UFC on Fox 15

machida rockholdFrábært UFC bardagakvöld fór fram á laugardaginn en óhætt er að segja að kvöldið hafi staðið undir væntingum. Luke Rockhold og Max Holloway sýndu báðir frábæra takta í búrinu og Paige VanZant stóðst pressuna.

rockhold machida gif
Rockhold kýlir Machida niður í 1. lotu.

Aðalbardagi kvöldsins milli Lyoto Machida og Luke Rockhold var jafn skemmtilegur og vonast var til þó hann hafi verið meira einhliða en búist var við. Rockhold hengdi Lyoto Machida í 2. lotu eftir að hafa lúskrað vel á honum í fyrstu lotu. Machida byrjaði fyrstu lotuna mjög vel og náði inn nokkrum höggum í Rockhold. Eftir að Machida lenti undir í gólfinu var Rockhold talsvert sterkari. Machida át mikið af þungum höggum í gólfinu og þurfti aðstoð við að setjast á stólinn eftir fyrstu lotuna. Í 2. lotu virtist Machida ekki eiga mikið eftir og kláraði Rockhold brotinn Machida með hengingu. Þetta var ein besta frammistaðan á ferli Rockhold og eru nú enn fleiri sem vilja sjá hann og Weidman mætast. Fyrst þarf þó Weidman að sigra TRT-lausan Vitor Belfort í maí.

Það var þó eitt atvik í bardaganum sem vert er að ræða. Svo virðist sem Machida hafi ekki verið með góminn í 2. lotu. Þegar Rockhold lá ofan á Machida skömmu áður en hann læsti hengingunni virtist Machida eiga í orðaskiptum við dómarann. Í endursýningunni hér sést ekki í góm Machida.

Ronaldo ‘Jacare’ Souza gerði það sem búist var við af honum og kláraði Chris Camozzi (aftur) í fyrstu lotu. Jacare var enn fljótari að klára Camozzi í þetta sinn en það tók hann aðeins 2:33 að klára bardagann núna en síðast var Jacare 3:37 að klára Camozzi. Bardagaaðdáendur vilja enn sjá þá Romero og Jacare mætast en Romero reif liðþófa og óvíst hvenær hann snýr til baka. Frammistaðan var þó glæsileg hjá Jacare þar sem hann sýndi heimsklassa jiu-jitsu eins og honum einum er lagið.

Fyrir bardaga Max Holloway og Cub Swanson var spurningin hvort tími Cub Swanson sem einn af þeim bestu í fjaðurvigtinni væri liðinn. Það virðist vera raunin en Max Holloway átti sína bestu frammistöðu á ferlinum er hann gekk frá Swanson og endaði á að klára hann í 3. lotu með hengingu. Þetta var sjötti sigur Holloway í röð og hefur hann ekki tapað síðan Conor McGregor sigraði hann í ágúst 2013. Holloway er aðeins 23 ára gamall en þetta var 12. bardaginn hans í UFC.  Hversu langt hann getur farið skal ósagt látið en með sigrinum um helgina stimplaði hann sig almennilega á kortið í fjaðurvigtinni.

Paige VanZant hlaut sérstakan Reebok samning eftir aðeins einn bardaga í UFC og var það nokkuð sem vakti mikla athygli. Aðeins stór nöfn á borð við Rondu Rousey, Conor McGregor og Jon Jones höfðu fengið slíka samninga áður. Það var því ákveðin pressa á VanZant að sigra á laugardaginn en eftir erfiðleika í byrjun var sigurinn aldrei í hættu. VanZant á enn langt í land í að verða heimsklassa íþróttamaður líkt og fyrrnefndir íþróttamenn en hún er aðeins 21 árs og verður gaman að sjá hversu mikið hún mun bæta sig. Strávigt kvenna er enn þunnskipaður þyngdarflokkur í UFC og virðast allar konur sem sigra vera líklegar til að fá næsta titilbardaga. Enn er óvíst hver verður fyrsta titilvörn strávigtarmeistarans Joanna Jedrzejczyk.

Næsta UFC bardagakvöld fer fram næstu helgi þegar Demetrious Johnson og Kyoji Horiguchi mætast á UFC 186.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular