spot_img
Monday, October 7, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC on Fox: VanZant vs. Waterson

Mánudagshugleiðingar eftir UFC on Fox: VanZant vs. Waterson

UFC hélt bardagakvöld í Sacramento um helgina. Bardagakvödið var ágætt en fer varla á lista yfir bestu bardagakvöld ársins.

Michelle Waterson svæfði Paige VanZant með „rear naked choke“ í 1. lotu í aðalbardaga kvöldsins. Waterman, eins og Mike Goldberg kallaði hana einu sinni, minnti heldur betur á sig eftir langa fjarveru. Waterson hafði ekkert barist síðan í júlí 2015 og var frammistaðan á laugardag góð áminning á hvað hún getur.

Það verður áhugavert að sjá hana í framhaldinu og eru fullt af spennandi kostum fyrir hana í náinni framtíð. Vonandi nær hún að berjast fljótlega aftur á næsta ári til að halda boltanum gangandi.

Paige VanZant sýndi eiginlega ekkert sem ekki var vitað. Hún er hörð og gefst aldrei upp en það vantar ennþá upp á tæknilega getu hennar til að geta hangið með þeim bestu í strávigtinni. Það vantar margt upp á en það er hægt að kenna henni það og hún er á góðum stað til þess – Team Alpha Male. Það er hins vegar erfiðara að kenna hörku og að gefast aldrei upp.

Mickey Gall kláraði Sage Northcutt einnig með „rear naked choke“ og var bardaginn nokkuð skemmtilegur. Gall nýtti sér augljósa veikleika Northcutt í gólfinu og hafði betur í glímunni. Gall er núna 3-0 í UFC sem er ágætt en þetta var eiginlega fyrsti alvöru UFC sigurinn hans. Næsti bardagi á eftir að segja okkur enn meira um hann en enn sem komið er lítur hann út fyrir að vera ansi efnilegur og skemmtilegur bardagamaður.

Sage Northcutt hefur margt en er með stórar holur í leik sínum. Hann virðist alltaf vera í hættu á að lenda í uppgjafartaki í hvert sinn sem hann er á bakinu í gólfinu. Hann þarf einfaldlega að komast til topp þjálfara sem getur komið MMA glímunni hans í gott horf.

Mickey Gall er einmitt að gera það sem Sage Northcutt er ekki að gera. Gall er með sína þjálfara en fyrir þennan bardaga æfði hann að hluta til hjá Tristar í Kanada undir handleiðslu Firas Zahabi sem var í horninu hans. Northcutt æfði hjá Tristar um tíma en hefur ekki gert það fyrir síðustu bardaga sína og virðist pabbi hans vera sá sem stjórnar æfingunum hans.

Holurnar eru svo augljósar að menn eins og Michael Chiesa eru að bjóðast til þess að hjálpa honum.

Northcutt er rosalegur íþróttamaður og hefur sannarlega hæfileika en hann þarf að komast undir handleiðslu alvöru þjálfara. Kannski hefði hann átt að fá meiri tíma utan UFC til að þróast sem bardagamaður en það er erfitt þegar allir vilja nota þig sem söluvöru strax.

Urijah Faber er hættur. Hann átti klássíska Faber frammistöðu þegar hann sigraði Brad Pickett eftir dómaraákvörðun. Þetta var frábær endir á löngum og góðum ferli og nákvæmlega svona á að klára þetta. Faber er ekki lengur einn af þeim allra bestu en getur samt staðið sig gegn nánast öllum í flokknum. Hann er 37 ára gamall, þarf ekki að berjast fjárhagslega séð og getur haldið áfram með sitt líf eftir góðan feril.

Það eru fáir sem ná að klára feril sinn í MMA (eða í bardagaíþróttum yfir höfuð) með sigri í UFC, verandi ennþá einn af tíu bestu í þyngdarflokkinum. Faber er löngu orðinn goðsögn og verður gaman að sjá hvað hann tekur sér fyrir hendur núna.

Núna tekur við smá jólapása í UFC áður en UFC 207 fer fram þann 30. desember. Þar mun Ronda Rousey snúa aftur og mæta meistaranum Amöndu Nunes.

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular