UFC var með bardagakvöld á Long Island í New York á laugardaginn. Chris Weidman komst aftur á sigurbraut með sigri á Kelvin Gastelum en hér eru Mánudagshugleiðingarnar eftir bardagakvöldið.
Chris Weidman var kýldur niður í 1. lotu af Kelvin Gastelum og var bjargað af bjöllunni þegar 1. lota kláraðist. Hann var þó fljótur að jafna sig og kom öflugur til leiks í 2. og 3. lotu og stóð uppi sem sigurvegari.
Þetta var hans fyrsti sigur síðan í maí 2015 þegar hann varði titilinn sinn gegn Vitor Belfort. Þetta var því kærkominn sigur fyrir hann og var hann hress á blaðamannafundinum eftir bardagann. Weidman notaði stærðina sína vel og komu fellurnar hans vel að notum í bardaganum.
Það er erfitt að segja hvað sé næst fyrir Weidman enda enn töluverð óvissa um framhaldið í millivigtinni. Meistarinn Michael Bisping hefur glímt við meiðsli og óvíst hvenær hann geti snúið aftur. Bráðabirgðarmeistarinn Robert Whittaker meiddist á hnénu í sigrinum gegn Yoel Romero og alls ekki víst hvort hann geti mætt Bisping þegar meistarinn verður tilbúinn. Weidman vonast eftir að fá næst titilbardaga gegn Bisping.
Þeir sem eru fyrir ofan Weidman á listanum eru líka ekki beint augljósir kostir. Ekki er langt síðan Yoel Romero (#2) vann Weidman og getum við líklegast útilokað að þeir mætist aftur á þessu ári. Luke Rockhold (#3) var nýlega bókaður í bardaga gegn David Branch í september og Jacare Souza (#5) er meiddur og óvíst hvenær hann geti barist næst. Weidman sagði eftir bardagann að hann vilji berjast fljótlega aftur og gæti því verið fátt í boði fyrir hann nema Derek Brunson. Ekki kannski mest spennandi bardagi í heiminum en væri ekki svo slæmt fyrir Weidman að ná sigri gegn Brunson til að ýta töpunum lengra frá sér.
Kelvin Gastelum hélt því miður áfram að tala um veltivigtina eftir tapið gegn Weidman. Hann hefur tvívegis verið sendur upp í millivigt eftir misheppnaða niðurskurði í veltivigt þrátt fyrir að vera ekkert gríðarlega stór veltivigtarmaður. Vandamál hans hefur alltaf verið agaleysi á milli bardaga (Johny Hendricks heilkennið) þar sem hann tútnar út. Undirbúningurinn fyrir bardaga hefur því alltaf snúist um að losa af sér aukakílóin.
Líkt og áður segist hann vera breyttur maður og að veltivigtin verði ekki vandamál fyrir sig lengur. Það er samt skiljanlegt að UFC eigi erfitt með að trúa því enda bardagasamtökin heyrt það nákvæmlega sama áður frá honum. En af hverju að fara aftur niður? Hann hefur litið mjög vel út í millivigtinni og gæti gert alvöru atlögu að beltinu með nokkrum góðum sigrum. Vissulega hafði stærðin áhrif í bardaganum gegn Weidman en sjálfur bráðabirgðarmeistarinn Robert Whittaker er ekki stærsti maðurinn í millivigtinni.
Gastelum er bara 25 ára og með bættri getu sem bardagamaður gæti hann sigrað þessa stærri gæja. Svo er hann pottþétt hamingjusamari ef hann getur aðeins fengið að borða líkt og Robert Whittaker talaði um þegar hann fór upp í millivigt.
Darren Elkins er með fimm sigra í röð og heldur áfram að koma á óvart. Dennis Bermudez hefði þó getað stolið þessu með aðeins betri ákvörðunum í bardaganum. Hann var að hafa betur standandi en fór alltaf í ræturnar sínar og byrjaði að glíma við hann. Þar var Elkins að hafa betur oft á tíðum og sigraði eftir klofna dómaraákvörðun.
Bardagi Jimmie Rivera og Thomas Almeida var magnaður. Rivera vann eftir dómaraákvörðun en Almeida sýndi hversu harður hann er þegar hann kom sér aftur inn í bardagann þrátt fyrir að vera kýldur niður þrisvar sinnum. Þetta var frábær bardagi og hefðu þeir alveg átt skilið bónus fyrir besta bardaga kvöldsins. Bardagi Lyman Good og Elizeu Zaleski dos Santos varð hins vegar fyrir valinu.
Rivera er núna með 20 sigra í röð og þar af fimm í UFC. Hann er farinn að banka ansi hressilega á dyrnar eftir titilbardaga og væri gaman að sjá hann gegn Dominick Cruz þegar hann verður tilbúinn að berjast aftur.
Þó átta af 13 bardögum kvöldsins hafi endað eftir dómaraákvörðun var þetta kvöld fínasta skemmtun. Næsta UFC kvöld verður hins vegar sturlað en þá verða þrír titilbardagar á dagskrá. UFC 214 fer fram á laugardaginn og er einfaldlega besta bardagakvöld ársins á pappírum.