spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Köben

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Köben

Mynd: Snorri Björns.

Gunnar Nelson tapaði fyrir Gilbert Burns á UFC bardagakvöldinu í Kaupmannahöfn á laugardaginn. Bardaginn var afar jafn en því miður tapaði Gunnar eftir einróma dómaraákvörðun.

Það var ekki mikill munur á milli Gilbert Burns og Gunnars í bardaganum. Það var í raun bara ein fella sem kostaði Gunnar sigurinn. Gunnar vann 1. lotuna, Burns 2. lotuna og þriðja lotan var hnífjöfn þar til Burns náði fellunni þegar 40 sekúndur voru eftir af lotunni. Gríðarlega svekkjandi og nú hefur Gunnar tapað tveimur bardögum í röð en þetta er í fyrsta sinn sem Gunnar upplifir það.

Það er alveg hægt að deila um niðurstöðu dómaranna. Gunnar var lengi vel að stjórna í 2. og 3. lotu á meðan Burns beið. Það sem Burns gerði hins vegar í lotunum hafði meira vægi eins og kastið í 2. lotu og fellan í 3. lotu. Þó Gunnar hafi verið að stjórna lotunni lengur var það sem Burns gerði meira afgerandi. Að mínu mati vann Burns lotur tvö og þrjú þó það hafi ekki munað miklu.

Ákvörðun dómaranna finnst mér samt ekki vera aðalmálið eftir þennan bardaga. Því miður þá var Gunnar bara ekki alveg nógu góður á laugardaginn. Hann reyndi margar fellur en náði bara ekki að taka hann niður. Það sem hann var að gera upp við búrið var ekki að virka gegn Gilbert Burns. Eina skiptið sem Gunnar komst ofan á var þegar Burns reyndi fellu en Gunnar snéri því snilldarlega við.

Á heildina litið var þetta bara ekki alveg nógu gott hjá Gunnari en það er samt margt jákvætt sem er hægt að taka úr þessu. Gunnar kom með ný vopn standandi sem við höfum ekki séð áður eins og stunguna. Gunnar sparkaði meira en hann hefur oft gert og kom nokkrum sinnum með fínar fléttur. Gunnari gekk í raun mun betur gegn Burns standandi heldur en þegar hann fór að reyna að taka hann niður. Kannski getur Gunnar haldið áfram að bæta sig standandi með Jorge Blanco og væri gaman að sjá það.

Það sem vantaði helst hjá Gunnari var svipað og gegn Leon Edwards. Gunnar var ekki nógu aggressívur og eins og hann sagði sjálfur eftir bardagann hefði hann átt að gera meira. Það er áhyggjuefni að tvisvar í röð tapar Gunnar þar sem honum fannst að hann hefði getað gert meira. Kannski er næsta skref hjá honum að huga að andlega þættinum í bardaga með t.d. íþróttasálfræðingi með það að markmiði að ná hámarks frammistöðu í keppni.

Eins og alltaf eftir tap spyrja menn sig að því hvort Gunnar ætti ekki að gera hitt og þetta. Fara niður um flokk, skipta um lið, flytja erlendis og sama tuggan. Menn geta auðvitað haft sínar skoðanir á öllu því sem Gunnar gerir fyrir bardaga og hvernig hann kýs að undirbúa sig fyrir bardaga. Gunnar sagði það samt sjálfur í viðtalinu við Vísi að hann þurfi aðeins að stokka þetta upp hjá sér. Hvað það þýðir nákvæmlega er ekki vitað en að mínu mati þarf alls ekki að umbreyta öllu.

Þessar æfingabúðir gengu mjög vel og þarf ekki að breyta miklu að mínu mati. Menn þurfa ekki að koma úr æfingabúðum þar sem allir æfingafélagarnir eru í UFC til að ná langt. Ég held ég geti ekki nefnt þrjá æfingafélaga hjá þungavigtarmeistaranum Stipe Miocic eða millivigtarmeistaranum Robert Whittaker. Og ekki heldur hjá bráðabirgðarmeistaranum Israel Adesanya, fjaðurvigtarmeistaranum Max Holloway, fluguvigtarmeistara kvenna Valentinu Shevchenko eða strávigtarmeistaranum Weili Zhang. Ég veit ekkert með hverjum þetta fólk er að æfa með en samt er það í allra fremstu röð.

Það gæti samt verið gott að ferðast í stærri æfingabúðir stöku sinnum til að fá mismunandi æfingafélaga án þess að breyta algjörlega um lið. Sérstaklega til að æfa með sterkum kickboxurum eða sterkum glímumönnum. Alexander Rakic, einn sá efnilegasti í léttþungavigt þessa dagana, æfir og býr í Austurríki allt árið. Hann fer þó í nokkrar vikur fyrir bardaga til American Top Team í Flórída til að fá gott sparr. Hann er á engan hátt hluti af American Top Team liðinu og er með enga þjálfara þar en fer þangað til að fá lotur með góðum æfingafélögum.

Auðvitað er þetta bara skoðun einhvers penna á Íslandi en þegar uppi er staðið þarf Gunnar að taka þessar ákvarðanir. Hann þarf að vera fjarri fjölskyldu ef hann tekur þessar ákvarðanir og hann þarf að færa þessar fórnir til að ná sínum markmiðum. Við sem höfum þessar skoðanir höldum áfram að sitja á rassgatinu og hafa það næs án þess að færa einhverjar fórnir. Gunnar sagði það líka í Tappvarpinu í sumar að honum finnst hann fá helling úr því að æfa með strákunum hér heima.

Núna er Gunnar búinn að tapa tveimur bardögum í röð, þrjú töp í síðustu fjórum bardögum. Staðan er ekki vænleg hjá Gunnari enda lítið eftir af samningnum. Það má samt ekki gleyma að bæði töpin voru ansi tæp gegn sterkum andstæðingum. Það er ekki verið að rústa honum eða rota hann. Það munar ekki miklu í þessum töpum en leiðin að topp 15 er mun erfiðari núna.

Gunnar kemur mjög heill úr þessum bardaga. Hann fann lítið fyrir hnénu sem Burns smellhitti og sást ekkert á honum eftir bardagann fyrir utan mar á kálfa eftir spörk Burns. Það er þó ólíklegt að Gunnar sé að fara í búrið á næstunni enda á hann von á barni eftir nokkrar vikur. Ef hann ætlar að stokka spilin og breyta aðeins til munu sennilega nokkrir mánuðir líða áður en hann fer að skoða næsta bardaga en Gunnar hefur tekið þrjá bardaga á síðustu 10 mánuðum.

Að lokum má ekki gleyma því að Gunnar hefur náð ótrúlega langt í hinum stóra MMA heimi. Hann var á tíma í topp 15 í UFC og gæti ennþá verið þar með smá heppni. Hlutirnir eru fljótir að breytast í MMA og það þarf ekki nema tvo flotta sigra til að komast aftur á sama stað. Gunnar er með bakið upp við vegginn núna og verða næstu skref hjá honum áhugaverð. Það er engin uppgjöf í Gunnari, það er nokkuð ljóst en við getum verið stolt af þeim árangri sem hann hefur náð.

Embed from Getty Images

Jack Hermansson tapaði fyrir Jared Cannonier í aðalbardaga kvöldsins. Fram að bardaganum var ég ekki sannfærður um að Jared Cannonier væri topp 10 gæji en hann var mjög góður gegn Hermansson. Cannonier varðist öllum fellunum hjá sænska Norðmanninum og kláraði hann svo í gólfinu 2. lotu með nákvæmum höggum. Cannonier er að taka stöðugum framförum og gæti orðið ný ógn í millivigtinni.

Danirnir Mark Madsen og Nicolas Dalby náðu frábærum sigrum. Madsen gerði það sem vonast var eftir og pakkaði saman andstæðingi sem hentaði honum einstaklega vel. Madsen er 35 ára gamall og verður gaman að sjá hversu langt hann getur farið. Daniel Cormier og Yoel Romero hafa náð langt eftir að hafa komið seint í MMA en báðir voru þeir með frábæran árangur í ólympískri glímu eins og Madsen.

Dalby fékk geggjaðar móttökur og var eins og þetta væri aðalbardagi kvöldsins þegar hann barðist. Dalby sigraði Alex Oliveira en dómarinn þar gerði stór mistök. Oliveira lenti ólöglegu sparki í lok 2. lotu en í stað þess að láta þá byrja í sömu stöðu (sem Dalby var nýbúinn að ná) lét dómarinn þá byrja aftur standandi. Í 3. lotu þegar Oliveira var ofan á Dalby lét dómarinn þá standa upp þar sem honum fannst Oliveira ekki vera að gera nóg. Það var umdeilt og voru Oliveira og hans lið hundfúlir með þá ákvörðun dómarans. Dalby endaði á að komast sjálfur ofan á í lotunni og má velta því fyrir sér hvort bardaginn hefði endað með Dalby í „mount“ ef dómarinn hefði ekki látið þá standa upp.

Á heildina litið var þetta fínasta bardagakvöld en hefði verið mun skemmtilegra með sigri hjá Gunnari. Næstu helgi fer UFC 243 fram í Ástralíu þar sem þeir Robert Whittaker og Israel Adesanya mætast í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular