0

Max Holloway mætir Frankie Edgar á UFC 218

Fyrsta titilvörn fjaðurvigtarmeistarans Max Holloway verður gegn Frankie Edgar í desember. Kapparnir mætast þann 2. desember í aðalbardaga UFC 218.

Max Holloway hefur verið á ótrúlegri sigurgöngu síðan hann tapaði fyrir Conor McGregor í ágúst 2013. Holloway hefur unnið 11 bardaga í röð og orðið meistari í leiðinni. Holloway varð bráðabirgðarmeistari fjaðurvigtarinnar eftir sigur á Anthony Pettis í fyrra en beltin voru svo sameinuð þegar hann kláraði Jose Aldo í júní.

Holloway hefur tekið miklum framförum á síðustu árum og varla lent í teljandi vandræðum í sínum síðustu bardögum. Sigurinn á Jose Aldo var afar sannfærandi en Holloway kláraði hann með höggum í 3. lotu.

Þetta verður þriðji titilbardagi Edgar í fjaðurvigtinni en Edgar er 7-2 í fjaðurvigtinni. Einu töpin hans voru í titilbardögum gegn Jose Aldo. Edgar hefur unnið tvo bardaga í röð en síðast sáum við hann gjörsigra Yair Rodriguez í maí.

Lengi hefur verið talað um þennan bardaga en Holloway hefur átt í samningaviðræðum við UFC sem gengu erfiðlega. Holloway og UFC náðu loks saman á dögunum og því hefur viðureign þeirra loksins verið staðfest.

UFC 218 fer fram í Detroit en tveir bardagar hafa þegar verið staðfestir á kvöldið. Francis Ngannou mætir Alistair Overeem í mikilvægum bardaga í þungavigtinni en að öllum líkindum verður það næstsíðasti bardagi kvöldsins. Þá mætast þeir Henry Cejudo og Sergio Pettis í áhugaverðum bardaga í fluguvigtinni.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.