0

Michael Bisping langar að taka kveðjubardaga sinn í Liverpool

Michael Bisping ætlar að hætta eftir sinn næsta bardaga. Nú hefur hann lýst því yfir að hann hafi áhuga á að berjast á UFC bardagakvöldinu í Liverpool í maí.

Liverpool maðurinn Darren Till verður í aðalbardaga kvöldsins gegn Stephen Thompson. Gunnar Nelson mætir svo Neil Magny í næstsíðasta bardaga kvöldsins og er bardagakvöldið orðið nokkuð veglegt.

Í hlaðvarpi Michael Bisping, Believe you me, segist hann vera til í að taka kveðjubardaga sinn í Liverpool. Eftir langan feril hefur hinn 39 ára gamli Bisping ákveðið að leggja hanskana á hilluna eftir sinn næsta bardaga.

„UFC, ég er laus. Þið eruð með númerið mitt ef þið viljið mig á bardagakvöldið. Það væri fínt að taka kveðjubardagann þarna. Liverpool, Norð-Vestur England, þaðan er ég,“ sagði Bisping.

„Ég er búinn að tala við UFC og er að spila smá leik hérna. Ég sagði við UFC að henda nokkrum nöfnum í mig og svo sjáum við til. Sjáum hvað þeir koma með til baka.“

Ef Bisping endar á bardagakvöldinu mun bardagi hans sennilega vera næstsíðasti bardagi kvöldsins. Talað hefur verið um Vitor Belfort sem mögulegan andstæðing enda hefur verið rígur á milli þeirra um nokkurt skeið. Belfort er hins vegar sjálfur að taka kveðjubardaga sinn nokkrum vikum áður gegn Lyoto Machida.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.