0

Bjarki Ómarsson handarbrotinn

Bjarki Ómarsson hefur því miður þurft að draga sig úr bardaga sínum á FightStar bardagakvöldinu í apríl. Bjarki er með brotna hönd og getur ekki barist.

Þetta átti að verða annar atvinnubardagi Bjarka í MMA en hans fyrsti atvinnubardagi var í desember síðastliðinn. Bjarki átti að mæta Terry Doyle í fjaðurvigt þann 14. apríl en eftir óhapp síðasta laugardag er útilokað að Bjarki berjist.

„Ég var á pödsum hjá Bjarka Eyþórs og kýli óvart í olnboga. Ég fann strax eftir æfinguna að eitthvað var ekki í lagi en vonaði að þetta væri ekki neitt. Þegar þetta var ekki að lagast var mig farið að gruna að þetta væri brot,“ segir Bjarki.

„Ég hitti svo Daða [Jónsson] lækni og hann sagði að þetta væri líklega boxarabrot eins og það kallast. Ég fór svo í röntgen og þar var það staðfest að ég væri brotinn. Ég verð samt ekki nema 4-6 vikur að ná mér af þessu og horfi á þetta sem frí en ekki einhver meiðsli. Þetta er líka bara bein að brotna en ekki eitthvað í hnénu að slitna.“

Bjarki hefur verið óheppinn að undanförnu en fram að bardaganum í desember hafði hann ekki barist í 16 mánuði vegna meiðsla og átti í erfiðleikum með að finna andstæðinga. Bjarki ætlar þó ekki að láta meiðslin hafa mikil áhrif á sig.

„Þetta er frekar ömurlegt en ég er búinn að ná að tækla þetta vel. Ég var á mjög góðu róli æfingalega séð síðan ég kom úr æfingaferðinni í Írlandi. Ég horfi ekki á þetta sem stórt bakslag sem mun hafa áhrif á frammistöðuna mína. Þetta grær bara og svo keppi ég í sumar.“

Þeir Birgir Örn Tómasson og Sigurjón Rúnar Vikarsson eru þó enn með bardaga á FightStar kvöldinu. Birgir Örn mætir Stelios Theo í léttvigt og Sigurjón mætir Christian Knight í veltivigt.

*Mynd: Snorri Björns.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.