spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMichael Chiesa: Conor rændi mig titilbardaga

Michael Chiesa: Conor rændi mig titilbardaga

Michael Chiesa var ekki parsáttur með hegðun Conor McGregor í rútuárásinni frægu í apríl. Chiesa varð fyrir glerbrotum og gat þar af leiðandi ekki barist eins og til stóð.

Mikið gekk á í aðdraganda UFC 223 í apríl. Tony Ferguson átti að mæta Khabib Nurmagomedov um léttvigtartitilinn á UFC 223 en sex dögum fyrir bardagann þurfti Ferguson að draga sig úr bardaganum. Max Holloway kom inn í hans stað en hann gat á endanum ekki náð vigt.

Daginn fyrir vigtunina kastaði Conor McGregor trillu í gegnum rúðu á rútu sem innihélt Khabib. Michael Chiesa og Ray Borg voru meðal þeirra bardagamanna sem urðu fyrir meiðslum í árásinni með þeim afleiðingum að þeir gátu ekki barist en Chiesa fékk skurð á ennið.

Þegar Holloway gat svo ekki barist hófst leit að nýjum andstæðingi fyrir Khabib í titilbardaga í léttvigtinni. Anthony Pettis var nefndur til sögunnar en hann vildi fá meiri pening en UFC var tilbúið að bjóða. Paul Felder kom til greina en þar sem hann var ekki á topp 15 styrkleikalista UFC vildi íþróttasamband New York ekki leyfa honum að taka bardagann. Al Iaquinta var því valinn í staðinn.

Nú segir Michael Chiesa að það hafi verið Conor að kenna að hann skyldi ekki hafa fengið titilbardaga í apríl með sólarhrings fyrirvara. Chiesa er ofar á styrkleikalistanum en Iaquinta og hefði að öllum líkindum fengið boð um að berjast.

„Ég hef ekkert að segja við Conor. Ég missti af titilbardaga og hef sannanir. Ég var sá hæsti á styrkleikalistanum í léttvigtinni af þeim sem komu til greina fyrir Khabib. Ég hefði ekki hikað í eina sekúndu að taka bardagann gegn honum. Mig hefur alltaf langað að berjast við Khabib, hann er flottur gaur en þetta er íþrótt og ég var rændur tækifærinu að mæta honum,“ sagði Chiesa við fjölmiðla á dögunum.

„Ég hef ekkert jákvætt að segja við Conor. Maður vinnur að þessu alla ævi til að fá svona tækifæri. Vil ég fá svona stórt tækifæri með skömmum fyrirvara? Nei, ég myndi auðvitað vilja langan undirbúning. En ég myndi líka samþykkja titilbardaga með 10 mínútna fyrirvara.“

Chiesa mætir Pettis um helgina og vonast til að koma til baka eftir tapið gegn Kevin Lee í fyrra. Chiesa hefur átt erfitt uppdráttar undanfarið og lítið getað barist vegna meiðsla. Chiesa verður í búrinu á UFC 226 á laugardaginn í Las Vegas í fyrsta sinn í rúmt ár.

„Það er erfitt að missa af svona tækifæri. Svona tækifæri koma ekki oft. Ég gæti unnið 15 bardaga í röð en samt ekki fengið titilbardaga. Þarna missti ég af tækifærinu og draumnum. Ég ætla að berjast fyrir því að fá þetta tækifæri aftur og það byrjar 7. júlí gegn Anthony Pettis. En já, þetta var erfiður biti að kyngja.“

Chiesa vildi ekki tjá sig um mögulega lögsókn gegn Conor McGregor.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular