spot_img
Thursday, December 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaMikael Leó: Vonast til að fá tækifæri til að keppa í UFC

Mikael Leó: Vonast til að fá tækifæri til að keppa í UFC

Mikael Leó. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mikael Leó. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Mikael Leó Aclipen er 12 ára strákur úr Mjölni sem elskar að æfa bardagaíþróttir. Hann æfir sjö sinnum í viku og stefnir á að keppa á Swedish Open í brasilísku jiu-jitsu í nóvember.

Mikael varð 12 ára fyrr í ágúst en hann hefur æft í Mjölni í fjögur ár eftir að hafa byrjað í barnastarfi klúbbsins. „Ég var fyrst í júdó þegar ég var svona sex ára. Ég fór svo í karate því mér fannst júdó orðið smá leiðinlegt og fór svo í Mjölni,“ segir Mikael. Þegar undirritaður náði tali af honum var hann, eins og svo oft áður, að berja í púðana í Mjölni.

Eins og áður segir æfir Mikael sjö sinnum í viku. „Ég æfi mest brasilískt jiu-jitsu eða þrisvar í viku. Svo er ég tvisvar í viku í kickboxi, einu sinni í viku í Víkingaþreki og einu sinni í viku í jóga.“ Hann er í Mjölni á hverjum einasta degi og hafa allir meðlimir klúbbsins tekið eftir honum á púðunum þar sem hann æfir sig.

Mikael stefnir á að keppa á opna sænska glímumótinu (Swedish Open) sem fram fer í Svíþjóð 14.-15. nóvember. Mótið er nokkurs konar óopinbert Norðulandamót í brasilísku jiu-jitsu. Í fyrra keppti 21 Íslendingur á mótinu en keppt er í mörgum aldurs- og beltaflokkum.

Mikael hefur ásamt fjölskyldu sinni selt klósettpappír, flatkökur og fleira til að fjármagna ferðina. „Ég hef aldrei áður keppt í útlöndum og mig langar að prófa það. Það er svo gaman að keppa,“ segir Mikael spenntur.

Mikael hefur keppt á Íslandsmeistaramóti barna og unglinga með góðum árangri. „Ég hef aldrei tapað og orðið Íslandsmeistari tvö ár í röð. Íslandsmeistaramótið [í ár] fer fram 3. nóvember og ég ætla að reyna að vinna það áður en ég fer út.“

Aðspurður hvað Mikael finnst skemmtilegast að æfa segir hann það erfitt að segja. „Þetta er rosalega erfið spurning, það er svo mikið. Mér fannst glíman skemmtilegust fyrst en núna held ég að það sé bara MMA. Það er svo gaman að blanda öllu, geta notað spörk, box og glímu. Svo finnst mér líka gaman í þreki og jóga, þetta er bara allt skemmtilegt.“

Mikael hefur mikinn áhuga á MMA og getur vel hugsað sér að keppa í því í framtíðinni. „Ég ætla að reyna það allaveganna. Ég vonast til að fá tækifæri til að keppa í UFC einhvern tímann.“

Fylgist hann þá ekki vel með Gunnari Nelson? „Já auðvitað! Hvaða Íslendingur fylgist ekki með Gunna Nelson!?“ segir hann hissa en Gunnar er ein af fyrirmyndum Mikaels. „Já, hann [Gunnar Nelson] og pabbi minn. Pabbi minn er ekki í MMA en hann er samt fyrirmyndin mína líka.“

Mikael fylgist vel með Gunnari en hann segir einnig að Conor McGregor sé í miklu uppáhaldi. McGregor og Gunnar eru tveir af uppáhalds bardagamönnum hans.

Eins og áður segir hefur Mikael og fjölskylda hans staðið fyrir söfnun til að fjármagna ferðina til Svíþjóðar. Sú söfnun hefur gengið mjög vel en nánar má lesa um söfnunina hér.

Þegar undirritaður ætlaði að ljúka viðtalinu greip Mikael inn í: „Mig langar að þakka rosalega fyrir mig. Þakka öllum sem eru að styrkja mig, allir, þetta er svo ótrúlegt hvað þetta kom fljótt. Við erum eiginlega komin með peninginn fyrir ferðinni og við byrjuðum fyrir svona þremur eða fjórum dögum síðan. Þetta er svo ótrúlegt, takk!“ Mikael er greinilega afar þakklátur fyrir aðstoðina sem hann hefur fengið við að elta þennan draum sinn.

Um leið og viðtalinu lauk hljóp Mikael strax á púðuna til að æfa sig meira áður en tíminn hans byrjaði.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular