Friday, April 26, 2024
HomeForsíðaMín skoðun: Gunnar Nelson er frábær fyrirmynd

Mín skoðun: Gunnar Nelson er frábær fyrirmynd

Þessi pistill er skoðun greinarhöfundar.

gunni hespect
Gunnar þakkar andstæðingi sínum fyrir eftir bardagann.

Eftir frábæran sigur Gunnars Nelson á Omari Akhmedov hafa sprottið upp ýmsir sérfræðingar sem hafa kallað MMA íþróttina ofbeldi. Auk þess var Gunnar sagður slæm fyrirmynd og hafa margir lýst vanþóknun sinni á íþróttinni á samfélagsmiðlum.

Það er alltaf erfitt þegar fólk talar illa um uppáhalds íþróttina manns. Mér finnst það mjög leiðinlegt þegar fólk kallar MMA ofbeldi en ekki íþrótt. Auðvitað eiga allir rétt á sínum skoðunum og það ber að virða skoðanir annarra. Ofbeldi er að mínu mati þegar einhver níðist á öðrum eða geri eitthvað á annars manns hlut. Það er enginn að níðast á neinum í MMA. Þarna eru tveir þrautþjálfaðir íþróttamenn sem ganga sjálfviljugir í búrið. Þarna eru tveir íþróttamenn að upplifa drauminn og leiðinlegt að fólk skuli kalla það ofbeldi.

MMA hefur verið líkt við slagsmál á skólalóð. Ef slagsmál á skólalóð myndu fela í sér heimsklassa brasilískt jiu-jitsu þar sem báðir keppendur fallast í faðma eftir að annar gefst upp, báðir fara í læknisskoðun fyrir og eftir bardagann og báðir fara eftir reglum dómarans þá sé ég samanburðinn en get annars ekki séð neitt líkt með þessu tvennu. Auðvitað skil ég það að þessi íþrótt er ekki fyrir alla og það er allt í lagi með það. En ég sé ekki hvernig MMA getur kallast ofbeldi eða sé eins og slagsmál á skólalóð.

Einhverjir vilja meina að þar sem MMA sé ekki á Ólympíuleikunum þá flokkist það ekki sem íþrótt. Það er annað sjónarhorn sem ég skil ekki heldur. Formúla 1 hefur aldrei verið á Ólympíuleikunum og golf verður í fyrsta sinn keppnisgrein á Ólympíuleikunum 2016. Það efast samt enginn um þetta séu íþróttir.

MMA er harðgert sport, því verður ekki neitað. Það er aldrei hollt að fá höfuðhögg en allir keppendur eru meðvitaðir um það. Eflaust þykir einhverjum ekki merkilegt að slá annan mann í höfuð þegar hann liggur niðri en fólk má ekki gleyma að keppendur geta sótt lása og hengingar af bakinu í MMA. Auðvitað er sá sem er ofan á oftast talinn í betri stöðu en sá sem er undir getur sótt og er bardaginn langt í frá að vera búinn þó hann endi þar.

Það eru stífar reglur í íþróttinni sem keppendur fylgja eftir. Það má ekki veita högg á hnakkann eða í mænu, það má ekki pota í augu, það má ekki rífa í hár, það má ekki bíta, það má ekki sparka í höfuð á liggjandi manni og gæti ég haldið lengi áfram um það sem ekki má í MMA. Það eru þyngdarflokkar þannig að keppendur eru paraðir saman á sanngjarnan hátt. Það eru hins vegar engar slíkar reglur í götuslagsmálum og stundum er margra kílóa munur á einstaklingum og jafnvel tveir gegn einum, það er ofbeldi.

Ég get ekki verið sammála þeirri staðhæfingu að Gunnar Nelson sé ekki góð fyrirmynd. Íslendingur sem er í fremstu röð í sinni íþrótt er svo sannarlega góð fyrirmynd. Það að litla Ísland eigi fulltrúa í stærstu bardagasamtökum heims er frábær hvatning fyrir krakka og sýnir að þetta er hægt á litla Íslandi. Auk þess sýnir Gunnar andstæðingum sínum mikla virðingu, er kurteis og hógvær og það er eitthvað sem allir geta tekið til sín.

Götuslagsmál er ofbeldi og þar er enginn sigurvegari. MMA er íþrótt og á laugardagskvöld stóð Gunnar Nelson uppi sem sigurvegari gegn afar sterkum andstæðingi og því ber að fagna.

 

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

4 COMMENTS

  1. Foreldrar eiga að vera foreldrar og fylgjast með hvað börnin horfa á. Þar liggur vandinn en ekki í því hvað er í imbanum hverju sinni. Ég er foreldri sjálfur og fylgist mikið með hvað börnin mín horfa á. Eins ef börnin sjá eða verða vitni af eitthverju sem er miður þá er það mitt að skýra út fyrir barninu hvað málið sé. Ekki að sjá til þess að allt sé bannað.

  2. Hef aldrei orðið vitni að því að foreldrar slökkvi á sjónvarpinu þegar börn eru að horfa á fréttatíma, ruv og fl st. þar er á hverjum degi sýnt meira blóð og ofbeldi en í einum bardaga G N . Í Tomma og Jenna,sem allir krakkar fá að horfa á er mikið ofbeldi. Nær allir vinslælustu tölvuleikir sem börn fá að nota eru vaðandi í ofbeldi. Hvað er að fólki, eigum flottann íþróttamann á heimsmælikvarða, verum stolt af honum.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular