Gunnar Nelson mætir Rússanum Albert Tumenov í gríðarlega erfiðum bardaga í kvöld. Bardaginn fer fram í Rotterdam í Hollandi og ríkir mikil spenna fyrir bardagakvöldinu.
Það er búið að vera frábært að vera hér í Rotterdam fyrir bardaga Gunnars gegn Albert Tumenov. Gunnar er eflaust ánægður að öll viðtölin, allar myndatökurnar og vigtuninni sé nú lokið. Nú tekur ekkert við nema að berjast.
Þetta er í fyrsta sinn í langan tíma sem Gunnar er ekki að berjast við einhvern sem er stærri en hann. Allir segja að Gunnar sé of lítill fyrir veltivigtina en það sama segja menn ekki um Tumenov þrátt fyrir að báðir séu jafn háir og Gunnar virkar þykkari en Tumenov ef eitthvað er.
Tumenov virkaði feiminn og hlédrægur þegar ég talaði við hann á föstudaginn. Hann var eiginlega bara algjör dúlla. Sama kvöld horfði ég á gamla bardaga og sá hann steinrota andstæðinga sína og hugsaði með mér; „þetta er ekki sami maður og ég var að tala við í dag.“
Bardaginn gegn Tumenov er ekki ósvipaður og bardaginn gegn Brandon Thatch fyrirfram. Líkt og Thatch er Tumenov spáð mikilli velgengni í UFC og eru þeir báðir mjög góðir standandi. Thatch hefur hins vegar ekki staðið undir væntingum og held ég að Tumenov sé betri bardagamaður en Bandaríkjamaðurinn.
Gunnar mætti Thatch eftir sitt fyrsta tap og mætir nú Tumenov eftir erfitt tap. Það væri frábært að sjá Gunnar gera það sama og hann gerði við Thatch og myndi það skjóta Gunnari aftur upp þar sem hann á heima.
Tapið gegn Maia situr enn í minni sérfræðinga og aðdáenda. Tapið var einhliða en þetta var ekki sá Gunnar sem við erum vön að sjá. Maia hefur látið góða bardagamenn líta illa út og held ég að Gunnar komi fáranlega sterkur til leiks í þetta sinn.
Maia reyndist vera of stór biti fyrir Gunnar á þessum tímapunkti en ætli það sé ekki betra að taka stundum of stóra bita í stað þess að vera alltaf að taka meðalbitanna. Ef þú ert alltaf í sömu bitunum veistu í raun ekki hversu stóra bita þú getur tekið.
Tumenov er mjög sterkur standandi og með góðan skilning á fjarlægð, með góða pressu og velur höggin sín vel. Allir andstæðingar hans í UFC hafa hins vegar verið „strikerar“ nema einn. Lorenz Larkin, Alan Jouban, Matt Dwyer, Anthony Lapsley og Nico Musoke eru allt menn sem vilja halda bardaganum standandi og sigraði Tumenov þá standandi. Við höfum ekki séð mikið af Tumenov í gólfinu en eini svartbeltingurinn sem hann hefur farið á móti vann hann (Ildemar Alcantara).
Eins og við greindum frá í gær eru flestir sérfræðingar að spá Tumenov sigri og er hann sigurstranglegri hjá veðbönkum. Það ætti svo sem ekki að koma mikið á óvart miðað við það sem Tumenov hefur gert undanfarið.
Ég held hins vegar að Gunnar muni sigra þennan bardaga og þetta verði hans besti sigur í UFC. Ég hélt eftir Thatch bardagann að Gunnar myndi fara á langa sigurgöngu en svo reyndist ekki vera. Ég vona að þetta hafi bara verið smá hindrun á hans vegi og núna muni Gunnar komast á gott skrið.
Gunnar orðaði þetta eiginlega best í Leiðinni að búrinu um daginn: „Hvað sem fer fyrir veginn eða hversu djúpar sem holurnar eru, það er ekkert endilega fyrir þitt að ráða. Þú verður bara að finna leiðir til að komast upp úr þeim og halda áfram og læra af því.“
Með sigri mun Gunnar minna rækilega vel á sig. Mun hann gera það?