UFC 190 fer fram á laugardaginn þar sem Ronda Rousey mætir Bethe Correia í aðalbardaga kvöldsins. Það er þó einn bardagi sem fer fram á laugardaginn sem margir gætu verið að gleyma.
Í fyrsta sinn er aðalhluti bardagakvöldsins sjö bardagar en ekki fimm eins og venjan er á þessum númeruðu bardagakvöldum. Einn áhugaverðasti bardagi kvöldsins er þó ekki á aðalhluta bardagakvöldsins heldur einn af upphitunarbardögunum.
Bardagi Neil Magny og Demian Maia er síðasti bardaginn áður en aðalhluti bardagakvöldsins hefst. Bardaginn fer fram í veltivigt en báðir hafa þeir verið orðaðir við bardaga gegn Gunnari Nelson. Demian Maia er í sjötta sæti á styrkleikalista UFC og einn besti gólfglímumaður allra tíma. Magny er í 13. sæti og hefur sigrað sjö bardaga í röð í UFC.
Margir vilja sjá þá Gunnar og Maia mætast enda myndu þarna mætast tveir af færustu gólfglímumönnum þyngdarflokksins. Takist Maia að sigra Magny gæti hann farið upp um 1-2 sæti og þá er kannski ólíklegt að hann vilji bardaga gegn Gunnari sem er í 11. sæti. Tapi Maia er líklegra að af bardaganum verði.
Gunnar hefur lýst yfir áhuga á að berjast í Dublin í október og gæti tíminn verið of knappur fyrir hinn 37 ára Maia að taka bardaga núna um helgina og svo í lok október (hvort sem hann sigrar eða tapar um helgina). Auk þess hefur Maia bara barist í Brasilíu og Las Vegas undanfarin þrjú ár enda er Maia stór stjarna í heimalandinu.
Ef Neil Magny sigrar Maia er hann kannski líklegri andstæðingur fyrir Gunnar heldur en Maia. Magny er yngri og væri kannski frekar til í að berjast strax aftur í október. Magny myndi þá stökkva hátt upp listann og gæti bardaginn verið flottur bardagi í Dublin. Hver veit, kannski verður Gunnar ekkert á Dublin bardagakvöldinu en ekki er enn búið að staðfesta að Gunnar berjist í Dublin.
Burtséð frá því hvort Maia eða Magny sé mögulegur andstæðingur fyrir Gunnar verður bardaginn á laugardaginn mjög áhugaverður. Þarna fær Magny sína stærstu prófraun á ferlinum og Maia getur sigrað sinn þriðja bardaga í röð.