spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeUncategorizedNokkrar ástæður til að horfa á UFC 169: Barao vs. Faber II

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 169: Barao vs. Faber II

ufc169-version2-640x311

Annað kvöld fer UFC 169 fram í New Jersey. Þetta verður fyrsti PPV-viðburður ársins 2014 og bæði aðalkortið og undirkortið eru hlaðin spennandi bardögum. Hér eru nokkrar góðar ástæður til að missa ekki af UFC 169.

  • Tveir titilbardagar á sama kvöldi! Bestu vinirnir og Nova União æfingafélagarnir Renan Barao og José Aldo eru báðir að fara að reyna að verja titlana sína, Barao í bantamvigt gegn Urijah Faber og Aldo í fjaðurvigt gegn Ricardo Lamas, sem hefur beðið lengi eftir þessu tækifæri. Báðir bardagarnir eru mjög spennandi og það er ekki oft sem UFC býður upp á tvo titilbardaga á sama viðburði.
  • Einn öflugasti meistari UFC er að berjast. José Aldo hefur verið fjaðurvigtarmeistari UFC frá því að þyngdarflokknum var bætt við. Hann kom sem fjaðurvigtarmeistari úr WEC og hefur varið fjaðurvigtarbeltið fimm sinnum í UFC. Hann, Georges St-Pierre, Anderson Silva og Jon Jones voru um skeið fjórir hættulegustu og öflugustu meistarar UFC. GSP og Silva eru ekki lengur meistarar og Jones sýndi að hann er ekki ósigrandi þegar hann mætti Alexander Gustafsson. Ætli við sjáum merki þess að Aldo sé á niðurleið annað kvöld eða verður hann jafn stórhættulegur og við erum vön að sjá hann?
  • Ein lengsta sigurganga í MMA gæti endað. Renan Barao, bantamvigtarmeistari UFC, hefur unnið 31 í röð og ekki tapað síðan í fyrsta atvinnumannabardaga sínum árið 2005. Annað kvöld mætir hann Urijah Faber í annað sinn og þó Faber hafi ekki ógnað Barao í fyrstu viðureign þeirra virðist Faber mun líklegri til að koma Barao í vandræði annað kvöld. Faber hefur verið á óstöðvandi sigurgöngu síðan hann tapaði fyrst gegn Barao og margir telja hann líklegan til að enda sigurgöngu Barao og klófesta loksins titil í UFC (þetta verður þriðji titilbardagi hans í UFC og átjándi titilbardagi ferilsins). Það má samt ekki gleyma því að Faber tók þennan bardaga með um fjögurra vikna fyrirvara, sem þýðir að hann fékk takmarkaðan tíma til að undirbúa sig.
  • Hvað verður um Alistair Overeem og Frank Mir? Mir hefur tapað síðustu þremur bardögum sínum og Overeem síðustu tveimur. Báðir eru mjög frægir bardagamenn sem muna betri daga og hafa verið á niðurleið upp á síðkastið. Það er spurning hvað verður um feril bardagamannsins sem tapar á morgun. Það er erfitt að spá fyrir um hver sigrar þennan bardaga og enn erfiðara að spá því hvað verður um þann sem tapar. Hver togar ferilinn sinn upp? Hvað verðum um þann sem tapar? Missir hann samninginn við UFC og fer að keppa annars staðar? Hættir hann keppni í MMA til að einbeita sér að annarri bardagaíþrótt? Eða sest hann í helgan stein?
  • Það eru þrír Rússar að keppa. Innrás Rússanna í UFC heldur áfram annað kvöld og þrír hættulegir Rússar eru að berjast. Sameiginlegt bardagaskor þeirra er 41-5-1. Í tveimur fyrstu bardögum kvöldsins munu tveir þeirra þreyta frumraun sína í UFC og Ali Bagautinov, sem á einn bardaga að baki í UFC, mætir svo John Lineker í öðrum bardaga aðalkortsins. Bardagi John „Hands of Stone“ Lineker og Ali „Puncher King“ Bagautinov gæti orðið bardagi kvöldsins, því eins og gælunöfn þeirra gefa til kynna eru þeir báðir mikið fyrir rothögg og það verður spennandi að sjá svona eldfljóta og höggþunga menn takast á.
  • Spennandi nýliðar. Auk Rússanna tveggja eru fjórir aðrir áhugaverðir nýliðar að fara að keppa í fyrsta UFC bardaga sínum á morgun, Danny Martinez, Kevin Lee, Andy Enz og Tony Martin. Danny Martinez er með bardagaskorið 16-4, en öll töpin nema eitt hafa komið gegn UFC bardagamönnum. Kevin Lee, Tony Martin og Andy Enz eru allir ósigraðir og afar færir glímumenn. Sameiginlegt bardagaskor þeirra er 22-0, þar af hafa fimmtán sigrar komið með uppgjafartaki.
spot_img
spot_img
spot_img
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES
spot_img
spot_img

Most Popular