Það þarf almennt engann auka hvata til að horfa á bardagakvöld með Conor McGregor. UFC 196 hefur engu að síður upp á ýmislegt að bjóða sem MMA aðdáendur mega ekki missa af. Kíkjum á það helst.
- Hvernig lítur Conor út í veltivigt? Conor McGregor hefur áður barist í léttvigt, síðast árið 2012 í Cage Warriors. Hann hefur hins vegar aldrei áður barist eins þungur og núna sem vekur upp spurningar. Hvernig mun þyngdin hafa áhrif á hraða hans og sprengikraft? Munu högg hans hafa sömu áhrif og í fjaðurvigt? Þessir hlutir eru ekki sjálfsagðir en við getum litið til hnefaleika til samanburðar. Manny Pacquiao var mikill rotari áður en hann þyngdi sig upp í veltivigt (147 pund) en hefur nú ekki rotað andstæðing 10 bardaga í röð. Það eru fleiri leiðir til að klára bardaga í MMA en það verður áhugavert að fylgjast með Íranum í kvöld.
- Rifið kjaft í beinni: Conor McGregor og Nate Diaz kunna að rífa kjaft eins og sést hefur á frábærum blaðamannafundum undanfarna daga. Báðir tala við andstæðinga sínum í miðjum bardaga svo það má búast við meiru en höggum þegar þessir snillingar stíga í búrið í kvöld.
- Tekst Holly Holm að verja titilinn sem hún hrifsaði af Rondu Rousey? Þeir segja að það sé erfiðara að verja titil en að vinna hann. Holly Holm kom flestum vel á óvart þegar hún valtaði yfir Rousey en frammistaða hennar í UFC fram að þeim tímapunkti hafði ekki verið eins afgerandi. Var Rousey kannski bara fullkominn stíll fyrir Holm? Miesha Tate mun svara þeirri spurningu og ætti að reynast Holm erfið áskorun. Tate hefur reynslu og mikla getu hvar sem bardaginn endar. Margir eru að spá Tate sigri svo nú þarf Holm að sanna sig.
- Amanda Nunes bankar á dyrnar: Amanda Nunes er skráð fjórða á styrkleikalista UFC eftir að hafa afgreitt Söra McMann í fyrstu lotu í hennar síðasta bardaga. Hún mætir nú Valentinu Schevchenko í spennandi bardaga í bantamvigt kvenna. Sigri Nunes mun hún krefjast þess að fá að berjast um titilinn og gæti því orðið næsti andstæðingur Holly Holm eða Mieshu Tate.
- Spennandi bardagi í veltivigt: Brandon Thatch og tungubrjóturinn Siyar Bahadurzada mætast í bardaga sem hvorugur hefur efni á að tapa. Báðir voru spennandi nýliðar en hafa tapað tveimur í röð. Báðir vilja standa og skiptast á höggum svo þetta gæti hæglega orðið bardagi kvöldsins.
- Martröðin snýr aftur: Diego Sanchez er furðulegur fýr og hefur verið það síðan fyrst sást til hans í fyrstu seríu af The Ultimate Fighter árið 2005. Kappinn er aðeins 34 ára gamall en virðist löngu búinn með sín bestu ár en hann hefur tapað þremur af síðustu fjórum bardögum. Þó verður að taka með í reikninginn að töpin voru gegn mjög góðum andstæðingum, þ.e. Gilbert Melendez, Miles Jury og Ricardo Lamas og enginn þeirra gat klárað hann. Hér mætir Sanchez Jim Miller sem er seigur reynslubolti og tilvalinn andstæðingur. Fyrir bardagann sagðist Sanchez vera endurnærður og ætlar að endurlífga gamla gælunafnið sitt ‘The Nightmare’.
Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 23:30 á Fight Pass rás UFC en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.