spot_img
Sunday, December 1, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Korean Zombie vs....

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Korean Zombie vs. Rodriguez

UFC er með flott bardagakvöld í nótt í Denver í Colorado. Á bardagakvöldinu eru þónokkrir skemmtilegir bardagar en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagakvöldið.

Endurkomur í fjaðurvigtinni

Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Chan Sung Jung og Yair Rodriguez. Sá fyrrnefndi er betur þekktur sem The Korean Zombie en báðir hafa þeir verið frá vegna meiðsla að undanförnu. Kóreski uppvakningurinn hefur barist sérstaklega lítið undanfarin ár en síðast sáum við hann rota Denniz Bermudez í febrúar 2017. Það var hans fyrsti bardagi í tæp fjögur ár en Jung var fjarverandi vegna herskyldu sinnar í Suður-Kóreu.

Yair Rodriguez hefur ekki sést síðan hann tapaði illa fyrir Frankie Edgar í maí 2017. Rodriguez glímdi við meiðsli og þá leit út fyrir að samningi hans hefði verið rift þar sem UFC taldi Rodriguez ekki vilja berjast. Það var hins vegar allt leyst og getur hann loksins barist í kvöld. Báðir bardagamenn eru virkilega skemmtilegir og ætti þessi bardagi að vera afar skemmtilegur. Ekki missa af þessum slag!

Donald Cerrone á krossgötum

Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mætast þeir Donald Cerrone og Mike Perry. Drama í bardagaklúbbnum Jackson-Winkeljohn hefur einkennt aðdraganda bardagans. Cerrone var lengi vel þar en ákvað að yfirgefa klúbinn fyrr á árinu og segir farir sínar ekki sléttar við klúbbinn. Á sama tíma hefur Mike Perry nýlega byrjað að æfa þar og hefur varið klúbbinn og þjálfarana. Perry hefur lofað því að rota Cerrone og myndi það sennilega setja nagla í kistu Cerrone sem einn af þeim bestu í veltivigtinni. Cerrone hefur tapað fjórum af síðustu fimm bardögum sínum og spurning hvort hinn 35 ára gamli kúreki sé kominn á endastöð.

Fyrrum meistari snýr aftur

Enn einn keppandi snýr aftur eftir langa fjarveru. Germaine de Randamie var fyrsti fjaðurvigtarmeistari kvenna í UFC með sigri á Holly Holm í febrúar 2017. Hún neitaði síðan að berjast við Cris ‘Cyborg’ Justino og var svipt titlinum. Síðan þá hefur hún ekki barist en í kvöld mætir hún Raquel Pennington. Pennington barðist síðast um bantamvigtartitil kvenna en átti ekki mikla möguleika gegn meistaranum Amöndu Nunes. Pennington náði ekki vigt í gær en þetta ætti að verða áhugaverður bardagi á mili topp kvenna í bantamvigt UFC.

Ekki gleyma

Á bardagakvöldinu eru nokkrir bardagar sem gætu orðið ansi skemmtilegir. Beneil Dariush hefur átt erfitt uppdráttar og ekki unnið í síðustu þremur bardögum sínum en hann mætir nýliðanum Thiago Moisés. Moisés er spennandi viðbót við léttvigtina en það er sennilega fullsnemmt að afskrifa hinn 29 ára gamla Dariush strax. Chas Skelly er 6-3 í UFC en hann er nánast alltaf í skemmtilegum bardögum. Skelly mætir Bobby Moffett sem er að fara að berjast sinn fyrsta bardaga í UFC. Þá má ekki gleyma að Davi Ramos, ADCC meistari frá 2015 og virkilega góður glímumaður, berst í kvöld en hann mætir John Gunther sem er áhugaverður karakter.

Fyrsti bardagi kvöldsins byrjar á miðnætti en aðalhluti bardagakvöldsins byrjar kl. 3.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular