spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Swanson vs. Ortega

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Swanson vs. Ortega

UFC Fight Night 123 fer fram í Fresno í Kaliforníu núna um helgina. Kvöldið er í minni kantinum en ætti þó að vera fjörugt og skemmtilegt. Fimm keppendur eru í topp tíu á styrkleikalista UFC og aðalbardaginn gæti skotið sigurvegaranum upp í titilbardaga.

Mikilvægur bardagi í fjaðurvigt

Cub Swanson þarf ekki að kynna en kappinn hefur verið fastagestur í WEC og síðar UFC í tíu ár. Þrátt fyrir tvö erfið töp árin 2014 og 2015 gegn Frankie Edgar og Max Holloway er hann kominn í góða stöðu ofarlega á lista styrkleikalistans eftir nokkra sigra í röð. Swanson hefur unnið fjóra bardaga í röð og mætir hér ungri ósigraðri ofurhetju í aðalbardaga kvöldsins. Ortega er 26 ára jiu-jitsu svartbeltingur undir Rener Gracie og er hreinlega algjör töframaður á gólfinu. Hann hefur einnig verið að bæta sig standandi í hverjum bardaga og er ófeiminn við að skiptast á höggum. Líklega fær Frankie Edgar næsta titilbardaga í fjaðurvigt en tækifærið gæti komið ef annar sigrar með tilþrifum eða ef meiðsli Edgar halda honum lengur frá keppni. Þetta verður í það minnsta rosalega skemmtilegur bardagi!

Topp tíu bardagi í bantamvigt

Aðeins mánuði eftir sigur hans á John Dodson er Marlon Moraes mættur aftur til leiks, greinilega ákveðinn í að sanna sig eftir tap gegn Rafael Assunção í hans fyrsta bardaga í UFC. Moraes leysir af Rani Yahya sem átti að mæta Aljamain Sterling. Moraes og Sterling eru skráðir númer sjö og átta á styrkleikalista UFC og báðir eru mjög alhliða góðir bardagamenn. Þessi bardagi ætti að verða stál í stál og mjög spennandi.

Innrás í nýjan þyngdarflokk kvenna

Alexis Davis og Liz Carmouche eru skráðar númer 10 og 11 á styrkleikalista UFC í bantamvigt kvenna. Bardagi þeirra um helgina verður hins vegar í nýjasta þyngdarflokknum, fluguvigt kvenna (125 pund). Þar sem lítið er um stór nöfn í þyngdarflokknum er ekki óhugsandi að sigurvegarinn í þessum bardaga endi hátt á lista í fluguvigt og fái jafnvel titilbardaga í náinni framtíð. Það veltur þó allt á því ef engin stærri nöfn biðja um tækifærið en Valentina Shevchenko eða Joanna Jedrzejczyk kæmu til dæmis til greina.

Harðjaxlar

Jason Knight og Gabriel Benitez mætast í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Knight hefur vakið sérstaklega athygli fyrir skemmtilegan bardagastíl og ekki síst mikla hæfileika. Hann þurfti að játa sig sigraðan gegn Ricardo Lamas fyrr á árinu en ætlar nú að koma sér á sigurbrautina. Benitez er minna þekktur en hann er harður Mexíkani sem mun vilja standa og láta höggin flæða. Knight mun sennilega leitast við að koma bardaganum í gólfið en þetta ætti að verða fjörugur bardagi og mögulega besti bardagi kvöldsins.

Ekki gleyma

Luke Sanders átti frábæra frammistöðu í frumraun sinni í UFC þegar hann kláraði Maximo Blanco með uppgjafartaki í 1. lotu. Hann var að pakka saman Iuri Alcantara áður en hann lenti í „kneebar“ í 3. lotu og verður áhugavert að sjá hvernig hann kemur til leiks á morgun. Þá verður bardagi Davi Ramos (ADCC meistari og heimsmeistari í BJJ) og Chris Gruetzemacher áhugaverður bardagi.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 23:30 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3. Allir bardagarnir verða aðgengilegir á Fight Pass á Íslandi.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular