Thursday, April 18, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Cyborg vs. Lansberg

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Cyborg vs. Lansberg

ufc-fight-night-95UFC er með bardagakvöld í Brasilíu í kvöld þar sem má finna nokkra ansi áhugaverða bardaga. Stærsta aðdráttaraflið í kvöld er auðvitað Cyborg en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagana í kvöld.

  • Cyborg berst: Það er alltaf áhugavert að sjá þegar ein besta bardagakona heims berst. Í kvöld mætir hún Linu Lansberg sem hefur aldrei barist í UFC. Bardaginn fer fram í 140 punda hentivigt og eru ekki margir sem hafa trú á Lansberg. Cyborg er með 14 rothögg í 16 sigrum og er langt síðan hún hefur þurft að fara allar loturnar. Niðurskurðurinn var þó erfiður fyrir Cyborg og spurning hvernig hún muni líta út í kvöld eftir slíka þrekraun. Fáum við 15. rothöggið frá Cyborg eða kemur Lansberg á óvart?
  • Renan Barao reynir aftur í fjaðurvigtinni: Það hefur ekki beint gengið vel hjá Renan Barao á undanförnum árum. Hann var eitt sinn sagður einn besti bardagamaður heims pund fyrir pund en eftir að hafa tapað bantamvigtartitlinum hefur hann bara verið skugginn af sjálfum sér. Einn sigur í síðustu fjórum bardögum er ekki góð uppskera eftir að hafa farið í gegnum 33 bardaga án þess að tapa. Frumraun hans í fjaðurvigtinni sáum við í maí en þá tapaði hann fyrir Jeremy Stephens. Barao mætir Phillippe Nover í kvöld og ætti að vinna.
  • Rothögg í þungavigt? Roy Nelson og Antonio ‘Bigfoot’ Silva mætast í þungavigtarslag í kvöld. Silva hefur ekki vegnað vel undanfarið og tapað fjórum af síðustu fimm bardögum. Fjögur af þessum töpum hafa verið eftir rothögg og virðist hann eiga erfitt með að þola högg í dag. Roy Nelson er með þungar hendur og spurning hvort við fáum 15. sigur hans eftir rothögg á ferlinum í kvöld.
  • 7 í röð hjá Trinaldo? Paul Felder og Francisco Trinaldo eigast við í spennandi léttvigtarslag. Báðir eru fantagóðir bardagamenn og vonast eftir að komast nær toppnum með sigri. Trinaldo hefur hægt og rólega unnið sex bardaga í röð í léttvigt UFC og hefur farið afskaplega lítið fyrir honum þrátt fyrir þessa velgengni. Sigur gegn Paul Felder ætti að opna augu margra aðdáenda fyrir því sem Trinaldo hefur upp á að bjóða.
  • Ekki gleyma: Auk fyrrgreindra bardaga eru nokkrir skemmtilegir bardagar í kvöld. Hinn efnilegi Gilbert Burns mætir landa sínum Michel Prazeres og gæti það orðið skemmtileg viðureign. Erick Silva hefur tapað tveimur bardögum í röð og verður að vinna ef hann ætlar ekki að falla í gleymskunnar dá.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular