Saturday, April 20, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Poirier vs. Johnson

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Poirier vs. Johnson

poirier-johnson-ufn-94Í kvöld fer fram lítið bardagakvöld í Hidalgo, Texas. Léttvigtarmennirnir Dustin Poirier og Michael Johnson mætast í aðalbardaga kvöldsins en hér má sjá nokkrar ástæður til að horfa á bardagana.

  • Mikilvægur bardagi fyrir báða: Aðalbardagi kvöldsins er mikilvægur fyrir báða bardagamenn en þó af ólíkum ástæðum. Sigur fyrir Dustin Poirier væri hans fimmti í röð í léttvigtinni og myndi koma honum enn nær toppnum. Michael Johnson hefur tapað tveimur í röð og verður að vinna ef hann ætlar að halda sér meðal þeirra bestu. Staða hans í UFC er sennilega örugg þrátt fyrir tap en tap myndi koma honum langt frá toppnum. Það er ekki langt síðan Johnson var í 5. sæti á styrkleikalistanum í léttvigtinni. Mikilvægur bardagi fyrir báða en þetta verður pottþétt skemmtilegur bardagi.
  • American Top Team gegn Blackzilians: Viðureign Poirier og Johnson er vissulega mikilvæg fyrir báða en líka fyrir liðin þeirra. Poirier æfir hjá American Top Team og Johnson hjá Blackzilians. Mikill rígur er á milli þessara félaga enda bæði staðsett í Flórída. Báðir vilja ná grobbréttinum með sigri í kvöld og ætti þetta að verða æsispennandi og fjörugur bardagi.
  • Dettur Uriah Hall í gang? Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mætast þeir Uriah Hall og Derek Brunson. Hall átti að mæta átrúnaðargoðinu sínu Anderson Silva í maí en nokkrum dögum fyrir bardagann veiktist Silva. Þetta verður því fyrsti bardagi Hall síðan hann tapaði fyrir Robert Whittaker í nóvember í fyrra. Þar gekk honum ekkert sérstaklega vel en þar á undan átti hann eitt af rothöggum ársins þegar hann kláraði Gegard Mousasi með fljúgandi hringsparki og hné. Maður veit aldrei hvernig Uriah Hall kemur til leiks en þegar hann dettur í gang er hann frábær. Nær Brunson að stjórna Hall með glímu sinni eða munum við sjá alvöru tilþrif frá Uriah Hall?
Uriah Hall
Þegar hann dettur í gang gerist eitthvað svona.

 

  • Endurkoma Makhachev eftir sitt fyrsta tap: Islam Makhachev átti frábæra frammistöðu í sínum fyrsta UFC bardaga. Hann er einn af æfingafélugum Khabib Nurmagomedov (og er einnig skyldur honum) og sýndi glæsileg tilþrif þegar hann kláraði Leo Kuntz í frumraun sinni í UFC. Fyrir ári síðan var hann hins vegar rotaður af Adriano Martins í 1. lotu og komu þá bersýnilega í ljós þær holur sem hann er með í boxinu sínu. Í kvöld mætir hann Chris Wade sem tapaði einnig síðast og verður áhugavert að sjá hvort einhverjar bætingar hafi átt sér stað hjá Makhachev. Islam Makhachev þarf að minna á sig í kvöld með góðri frammistöðu gegn sterkum andstæðingi.
  • Ekki gleyma: Evan Dunham mætir Rick Glenn í kvöld en upphaflega átti Dunham að mæta Abel Trujillo. Þetta verður frumraun Glenn í UFC í kvöld og verður áhugavert að sjá hann í UFC. Þá er Chas Skelly sjaldan í leiðinlegum bardögum en hann mætir Maximo Blanco í kvöld.

Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 2 en fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 23. Alla bardaga kvöldsins verður hægt að sjá á Fight Pass rás UFC.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular