spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaÓtrúleg upprisa Anthony Johnson: Frá aðhlátursefni að áskoranda

Ótrúleg upprisa Anthony Johnson: Frá aðhlátursefni að áskoranda

Anthony ‘Rumble’ Johnson keppir um titilinn í léttþungavigtinni gegn Daniel Cormier á UFC 187 um helgina. Þessi hæfileikaríki bardagakappi hefur átt ansi skrautlegan feril hvað varðar þyngdarflokka og keppti um nokkurra ára skeið í veltivigtinni þrátt fyrir að vera risavaxinn. Eftir að hafa mætt tíu pundum of þungur var Johnson látinn fara frá UFC og þurfti að vinna sig aftur upp hjá minni samtökum.

Það er nokkuð magnað að hugsa til þess að fyrir þremur árum var Anthony Johnson að keppa í Titan Fighting Championship samtökunum og var að rembast við að ná 185 punda markinu til að keppa við David Branch í millivigtinni. Johnson mætti tíu pundum of þungur í vigtun (í annað skipti í röð sem það gerðist) og því þurfti að breyta bardaganum í 195 punda hentivigtarbardaga (e. catchweight). Þetta var í ellefta skiptið sem Anthony Johnson mistókst að ná tilætlaðri þyngd fyrir bardaga. Þegar hér var komið við sögu var Johnson með bardagaskorið 10-4, að keppa í minni samtökum og ekkert benti til þess að ferill hans væri á uppleið.

Johnson hóf ferilinn í veltivigt og það var orðið þekkt fyrirbæri að hann kæmi of þungur í vigtun, enda allt of stór fyrir þyngdarflokkinn. Á netinu ræddu menn um að það ætti að stofna sérstakan ‘Rumbleweight’ þyngdarflokk og að sá þyngdarflokkur væri hver sú þyngd sem Johnson hugnaðist á þeim tímapunkti. Johnson var því hálfgert aðhlátursefni í MMA heiminum og engum óraði að hann myndi nokkurn tímann berjast um titil í UFC.

Eftir að hafa mistekist að ná veltivigtartakmarkinu tvisvar ákvað hann að fara upp í millivigt og mætti þar Vitor Belfort. Johnson kom 11 pundum yfir 185 punda millivigtartakmarkinu. Johnson hafði skorið hættulega mikið af vatni og ráðlögðu læknar honum að hætta niðurskurðinum umsvifalaust. Bardaginn fór engu að síðu fram þar sem Belfort sigraði eftir hengingu. Þetta var kornið sem fyllti mælinn og var Johnson rekinn úr UFC með skömm. Í dag æfa Belfort og Johnson saman daglega og segist Johnson hafa lært gríðarlega margt af Belfort.

Johnson í vigtun fyrir bardagann gegn Josh Koscheck. Bardagi sem hann tapaði.

Það virðist sem svo að bardaginn gegn David Branch árið 2012 hafi endanlega sannfært Johnson um að hann væri of stór til að keppa í velti- og millivigt. Þremur mánuðum síðar færði hann sig upp í léttþungavigt þar sem hann hefur verið óstöðvandi. Hann hefur unnið níu bardaga í röð, langflesta þeirra í fyrstu lotu og sex af níu sigrum hans hafa komið með rothöggi.

Að margra mati er ferill Johnson birtingarmynd alls þess sem er rangt við núverandi kerfi þyngdarflokka í MMA. Menn líkt og Johnson, sem allir sjá að eiga ekkert erindi í veltivigtina, hamast við að reyna að ná vigt tveimur þyngdarflokkum neðar en þeim er ætlað að vera. Þetta gera þeir í þeirri von að ná fram yfirburðum í stærð á andstæðing sinn og fyrir vikið stofna þeir heilsu sinni í hættu.

Andstæðingur Johnson á laugardaginn, fyrrum þungavigtarmaðurinn Daniel Cormier, hefur einnig átt í vandræðum með að koma sér niður í þyngd, þó að í hans tilfelli hafi það verið fyrir ólympíska glímu en ekki MMA. Cormier hóf MMA feril sinn sem þungavigtarmaður og samanlagt hafa þeir tveir því keppt í fjórum mismunandi þyngdarflokkum.

Upprisa Johnson hefur verið kærkomin fyrir léttþungavigtina og hefur hann blómstrað á undanförnum árum. Síðan hann tapaði fyrir Belfort og var rekinn úr UFC með skömm hefur hann sigrað níu bardaga í röð.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist á laugardaginn og hvort að nýi léttþungavigtarmeistarinn verði keppandi sem barðist í veltivigt eða keppandi sem barðist í þungavigt.

Rumble öllu heilbrigðari í vigtun fyrir bardagann gegn Alexander Gustafsson
spot_img
spot_img
spot_img
Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular