Friday, March 29, 2024
HomeForsíðaVonbrigði Daniel Cormier

Vonbrigði Daniel Cormier

Daniel Cormier, oft kallaður DC, hefur átt farsælan en að sama skapi litríkan feril. Annað kvöld fær hann sitt annað tækifæri á fimm mánuðum til að sigra UFC titil. Við förum hér yfir feril hans og rifjum upp stóru stundirnar sem og stóru vonbrigðin.

Daniel Cormier var óhemju sigursæll glímukappi en hann keppti í ólympískri glímu frá unga aldri. Ef heildar glímuferill hans fram yfir háskólaárin er tekinn saman er niðurstaðan 268 sigrar og 29 töp, eða 90% sigurhlutfall. DC vann gullverðlaun á hinum virtu Pan American leikunum árin 2002 og 2003 og hafnaði í öðru sæti í efstu deild í bandarísku háskólaglímunni. Árið 2004 keppti hann á Ólympíleikunum í Grikklandi og lenti í fjórða sæti.

Árið 2008 átti hann að keppa á sínum öðrum Ólympíuleikum. DC var að toppa á þessum tíma sem glímumaður. Hann sigraði bandaríska úrtökumótið og var útnefndur fyrirliði bandaríska glímuliðsins fyrir Ólympíuleikana 2008. Þetta átti að vera hans tími og var honum spáð gullinu í sínum þyngdarflokki.

Allt fór hins vegar á versta veg. DC klúðraði niðurskurðinum sem leiddi til nýrnabilunar og gat DC ekki keppt á Ólympíuleikunum. Slæmar venjur DC í niðurskurðarferlinu í gegnum hans langa feril olli nýrnabiluninni. Gífurleg reiði ríkti í glímusamfélaginu í Bandaríkjunum enda hörð samkeppni um sæti í Ólympíuliðinu. DC gat ekki snúið aftur í glímuna.

DC yfirgaf glímuna án þess að ná sínum helstu markmiðum – að sigra titil í bandarísku háskólaglímunni og að vinna til gullverðlauna á Ólympíuleikunum.

dc wrestling

Daniel Cormier ákvað því að fara yfir í MMA. DC fór beint í Stikeforce, eða réttara sagt eins konar byrjendadeild Strikeforce sem kallaðist Strikeforce Challangers. Eftir sjö sigra á tæpum tveimur árum, með viðkomu í öðrum bardagasamtökum (XMMA, KOTC) fékk DC stóran bardaga við Jeff Monson. DC sigraði bardagann örugglega á stigum. Hann notaði glímuna til að halda bardaganum standandi þar sem Jeff Monson gat ekki notað jiu-jitsu hæfileika sína og tryggði sér þar með stöðu sem varamaður í stóra þungavigtarmóti Strikeforce. Sú staða reyndist örlagarík þegar Alistair Overeem gat ekki, eða vildi ekki, keppa. Daniel Cormier fékk þar með risa bardaga gegn Antônio ‘Bigfoot’ Silva sem hann sigraði með dramatísku rothöggi eftir aðeins eina mínútu. Eftir það vissu allir hver Daniel Cormier var.

silva ko

Í móti þar sem kallar eins og Fedor Emelianenko, Fabricio Werdum, Alistair Overeem og Andrei Arlovski kepptu þótti mjög óvænt að úrslitabardaginn yrði á milli Daniel Cormier og Josh Barnett. Bardaginn fór fram í maí árið 2012 í hitanum í Kaliforníu. DC valtaði yfir Josh Barnett og sigraði bardagann sannfærandi á stigum. Sá sigur er enn stærsti sigur Daniel Cormier á ferlinum og staðfesti stöðu hans sem bardagamann í fremstu röð.

DC GP

Í ársbyrjun 2013 sameinaðist Strikeforce og UFC og Daniel Cormier hóf innrás sína í þungavigt UFC. Eftir að hafa sigrað tvo erfiða andstæðinga, Frank Mir og Roy Nelson, tók DC þá ákvörðun að létta sig niður í léttþungavigt. Eftir að hafa bókstaflega niðurlægt Patrick Cummins og Dan Henderson fékk Daniel Cormier stærsta tækifæri lífs síns gegn Jon Jones. Báðir voru í raun ósigraðir og óumdeilanlega tveir af þeim bestu í þyngdarflokknum. Ofan á það virtist vera raunverulegt hatur á milli þeirra. Bardaginn sjálfur byrjaði nokkuð vel fyrir DC en smá saman tók Jon Jones stjórnina og sigraði að lokum á stigum.

Daniel Cormier Slam

Tapið gegn Jones var þriðja tækifærið hans á stórum titli (í MMA og glímu) og í öll skiptin hefur hann tapað. Hann tapaði í úrslitaglímunni í háskólaglímunni gegn Cael Sanderson árið 2001 en Sanderson er einn sigursælasti glímumaður í sögu bandarísku háskólaglímunnar. Hann tapaði í undanúrslitunum á Ólympíuleikunum 2004 gegn Khadzhimurat Gatsalov sem er einn besti glímumaður sögunnar. Hann tapaði svo fyrir Jon Jones um léttþungavigtartitilinn en Jones gæti verið einn besti bardagamaður sögunnar. Er þetta mynstur sem mun ávallt einkenna feril Daniel Cormier?

DC hefur oft komist nálægt stórum titlum en alltaf tapað. Um helgina mætir hann hinum höggþunga Anthony Johnson eftir að Jon Jones var sviptur titlinum. DC hefur hér stórt tækifæri til að tryggja sér UFC titil og gleymt fyrri vonbrigðunum.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular