spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentÓtrúlegt ferðalag Francis Ngannou

Ótrúlegt ferðalag Francis Ngannou

Francis Ngannou mætir Stipe Miocic um þungavigtartitilinn á UFC 260 um helgina. Francis Ngannou hefur farið ótrúlega langa leið til að komast þar sem hann er í dag.

Francis Ngannou kemur frá Kamerún. Hann er fæddur og uppalinn í 10.000 manna bænum Batie í Kamerún og átti fjölskyldan hans ekki mikið milli handanna eftir skilnað foreldra hans. Mamma hans flutti með Francis og systkini hans til ættinga þar sem þau voru ekki alltaf velkomin.

10 ára gamall byrjaði Francis að moka sand í sandnámu í bænum og gekk tvo tíma fram og til baka í skólann á hverjum degi. Þrátt fyrir það hafði fjölskyldan hans ekki efni á stílabók og blýanti fyrir Francis og gekk námið því ekkert sérstaklega vel. Hann átti auk þess mjög fáa vini enda lítill tími til að leika þegar mestur frítíminn fór í vinnu í sandnámunni. Á meðan bekkjarfélagar hans gátu ferðast innanlands í sumarfríinu sínu var Francis fastur í vinnu frá 10 ára aldri.

„Það er kannski skrítið fyrir marga en mér finnst ekki gaman að tala um æsku mína, hún var ekki skemmtileg. Hún var sorgleg. Þegar fólk talar um æsku sína talar það um vinina, teiknimyndir og afþreyingu en það vantaði algjörlega í mína æsku. Sama hvað ég geri get ég ekki fyllt upp í tómarúmið þar. Að vinna UFC titilinn væri mín leið til að sína fólki frá mínum heimaslóðum að ég hafi ekki verið alslæmur,“ sagði Ngannou við ESPN á dögunum.

Francis fékk mikinn áhuga á boxi eftir að hafa séð myndbönd af Mike Tyson upp á sitt besta. Í Batie var ekkert um hnefaleika og flutti hann því til höfuðborgar Kamerúnar, Douala, til að geta boxað. Eftir nokkur ár þar sá hann að hann þyrfti að komast til Evrópu til að ná lengra í boxinu. 22 ára fékk hann nóg af Kamerún og ákvað að leggja af stað í ferðalag til Evrópu þar sem hann ætlaði sér að verða heimsmeistari í boxi. Hann var sannfærður um að hann gæti orðið heimsmeistari í boxi en var aðhlátursefni í bænum fyrir að dreyma svo stórt.

Evrópuferðin hófst með 12 mánaða göngu frá Kamerún til Marokkó. Á þessu ferðalagi gisti hann í runnum og át upp úr ruslatunnum. Frá Marokkó komst hann til Spánar á fleka þar sem honum var bjargað af Rauða krossinum. Þetta voru „14 mánuðir í helvíti“ að sögn Francis.

Þar sem Francis kom ólöglega til Spánar var hann umsvifalaust handtekinn og færður í gæsluvarðhald í tvo mánuði. Honum var að lokum sleppt úr haldi og komst hann þá loksins til Frakklands eftir 14 mánaða ferðalag. Þar tók þó engin paradís við þar sem hann bjó á götunni fyrstu mánuðina.

„Ég var kannski heimilislaus en það var ekki erfitt. Það var kalt á haustin í París en ég var svo fullur af eldmóði að vera í landi tækifæranna. Ég var ánægður að ég skildi vera að elta draumana mína. Þrátt fyrir að ég hafi sofið í almenningsgörðum og átti ekki efni á mat þá var ég frjáls. Miðað við Marokkó var þetta eins og fimm stjörnu hótel.“

Á fyrsta degi sínum í París var hann með þrjú markmið; finna stað til að gista á, finna eitthvað að borða og finna box klúbb. Francis rambaði inn í boxklúbb og þrátt fyrir stórar yfirlýsingar var honum vel tekið enda ekki á hverjum degi sem maður vaxinn eins og Francis kemur inn. Francis æfði vel en flestir í klúbbnum sögðu honum að fara í MMA.

„MMA? Hvað er það?“

Francis hafði aldrei heyrt um MMA og hafði satt best að segja engan áhuga á því. Hann vissi þó að það væri erfitt að fá tækifæri í boxinu í Frakklandi þar sem þú þarft að þekkja rétta fólkið til að komast áfram. Hann ákvað því að gefa MMA séns á meðan hann var að komast að í boxinu.

Eftir að hafa verið í frekar litlum MMA klúbbi í París rambaði hann inn í MMA Factory í París. Þar kynntist hann Fernand Lopez og náðu þeir strax vel saman. Lopez bauð Francis að sofa á dýnunum í MMA Factory og gaf honum tösku fulla af æfingafötum.

Eftir að hafa æft MMA í aðeins þrjú ár fékk hann samning við UFC með ekki nema 6 bardaga að baki. Þar var hann fljótur að láta til sín taka og fékk titilbardaga tveimur árum síðar. Stipe Miocic sigraði hann mjög örugglega í janúar 2018 en Francis hefur unnið sig aftur upp í titilbardaga. Með fjórum sigrum í röð, allt rothögg í 1. lotu á samanlagt 2:45, hefur hann tryggt sér titilbardaga.

Ngannou getur orðið þungavigtarmeistari UFC með sigri á Stipe Miocic. Það væri ótrúlegur áfangi á ferðalagi hans en beltið er ekki það sem skiptir öllu máli fyrir Francis.

„Beltið er ekki bara fyrir mig. Þegar ég fer heim til Kamerún sé ég von í augum fólksins. Fólkið þekkir mína sögu. Þetta er ekki einhver ævintýrasaga sem þau lesa í bók. Ég veit hvað það myndi þýða fyrir fólkið ef ég vinn. Það er hægt að elta drauma sína.“

„Ég veit ekki hvar ég mun geyma beltið. Kannski myndi ég setja það í Francis Ngannou Foundation svo krakkarnir geti séð það en ég held að það þurfi fleiri krakkar að sjá beltið. Kannski ætti ég að setja það á góðan almenningsstað í Kamerún svo allir krakkar geti séð beltið og séð að þetta er hægt. Ekki endilega að verða bardagamaður, heldur heimsmeistari í því sem þau ákveða að gera.“

https://www.youtube.com/watch?v=aNc_HmT6q7I

Frá sandnámu í Kamerún til Las Vegas þar hann getur orðið þungavigtarmeistari um helgina. Það verður gríðarlega áhugavert að sjá hvort Francis Ngannou geti gert betur gegn Stipe Miocic en hann gerði árið 2018. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar hjá honum síðan þeir mættust fyrst en það má ekki gleyma að Stipe Miocic er besti þungavigtarmaður allra tíma. Þeir Miocic og Ngannou mætast í aðalbardaga kvöldsins á UFC 260 í beinni á Viaplay.

Heimildir:
Bleacher Report
Bleacher Report
MMA Fighting
ESPN

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular