Wednesday, April 24, 2024
HomeErlentÓvissuástand í millivigtinni

Óvissuástand í millivigtinni

luke rockhold
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Það má segja að það ríki hálfgert óvissuástand í millivigtinni um þessar mundir. Enn sem komið er er ekki ljóst gegn hverjum fyrsta titilvörn Luke Rockhold verður en svo virðist sem aðeins einn valmöguleiki sé í boði fyrir nýja meistarinn.

Luke Rockhold tók millivigtartitilinn af Chris Weidman í desember á UFC 194. Bardaginn var mjög jafn þar til Rockhold tók Weidman niður eftir hringspark Weidman og lét höggin dynja á honum í gólfinu. Rockhold kláraði svo Weidman í 4. lotu og varð þar með nýr millivigtarmeistari UFC.

Sama kvöld sigraði Yoel Romero hinn brasilíska Ronaldo ‘Jacare’ Souza eftir nokkuð umdeilda dómaraákvörðun. Eftir bardagann virtist sem Romero fengi næsta titilbardaga í millivigtinni. Það breyttist þó allt eftir að Romero féll á lyfjaprófi og er hann svo sannarlega út úr myndinni í bili.

Þó Romero hafi framan af verið líklegur næsti andstæðingur Rockhold óskaði meistarinn sjálfur eftir Vitor Belfort. Sú ósk kom nokkuð á óvart en Rockhold vildi einfaldlega fá að hefna fyrir tapið sem hann hlaut gegn TRT-Belfort í maí 2013.

Eftir að Romero féll á lyfjaprófi vildu margir aðdáendur sjá Jacare fá næsta titilbardaga. Jacare tapaði gegn manni sem hafði fallið á lyfjaprófi og gæti sá bardagi verið dæmdur ógildur síðar meir. Annað kom þó á daginn þar sem Jacare var bókaður gegn Vitor Belfort í maí.

Þar með eru Romero, Jacare og Belfort allir út úr myndinni og er því aðeins einn maður sem kemur til greina – Chris Weidman. Bardagaaðdáendur eru komir með nóg af því að sjá sömu bardagamennina berjast aftur um titilinn líkt og Werdum-Cain 2, Dillashaw-Barao 2 og fleiri dæmi sýna (sem betur fer varð enginn af þessum bardögum að veruleika eins og upphaflega var planað). Í sannleika sagt er Weidman líklegasti möguleikinn.

Það er reyndar einn andstæðingur sem gæti óvænt fengið titilbardaga. Þeir Anderson Silva og Michael Bisping mætast í aðalbardaganum á UFC bardagakvöldinu í London í febrúar. Rockhold hefur nú þegar unnið Bisping en Anderson Silva gæti fengið titilbardaga sýni hann gamla takta gegn Bisping í febrúar.

Vissulega hefur hann nýlega fallið á lyfjaprófi og verður eflaust aldrei sami bardagamaður og sá sem réði yfir millivigtinni í sex ár. En gæti UFC verið að horfa til hans sem mögulegur andstæðingur fyrir Rockhold?

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular