Þeir Conor McGregor og Jose Aldo mætast í aðalbardaganum á UFC 189 þann 11. júlí. UFC setur mikið púður í kynningu á bardaganum og eru kapparnir nú í heimstúr en aldrei áður hefur UFC gert slíkt.
Það hefur vafalaust ekki farið framhjá mörgum lætin í Conor McGregor og Jose Aldo á undanförnu. Kappanir voru staddir í Ríó um síðustu helgi þar sem þeir mættust augliti til auglits á blaðamannafundi. Spennan er gríðarleg fyrir bardagann þó rúmir þrír mánuðir séu enn í bardagann.
Eins og áður segir fara kapparnir um víðan völl í kynningu á bardaganum. Þeir eru nú staddir í Las Vegas eftir dvölina í Ríó en næstu borgir sem heimsóttir verða eru Los Angeles, Boston, New York, Toronto, Dublin og London. Spennan er svo mikil fyrir bardagann að titilbardagi Robbie Lawler og Rory MacDonald í veltivigtinni hefur hingað til nánast gleymst. Öll athyglin virðist fara á titilbardagann í fjaðurvigtinni. UFC hefur aldrei áður farið í slíkan heimstúr til að kynna bardaga og eru þeir að ná að búa til gríðarlegt umtal um bardagann nú þegar meira en þrír mánuðir eru í bardagann.
Spennan milli Aldo og McGregor er rafmögnuð eins og við höfum fengið að sjá UFC 189 World Tour Embedded seríunni (þættina tvo má sjá neðst í fréttinni). Af þáttunum að dæma virðist Aldo ekki ógnað líkt og fyrri andstæðingar McGregor. Meistarinn er eitursvalur með kassann uppi þegar hann stendur andspænis McGregor.
Lætin í McGregor fara þó augljóslega í taugarnar á meistaranum. Aldo kvaðst vera reiður eftir blaðamannafundinn í síðustu viku og er það væntanlega nákvæmlega það sem McGregor vill.
Conor gets into their head every time! And they always get emotional. #AlreadyBeaten pic.twitter.com/TbLXPdd0qB
— Cathal Pendred (@PendredMMA) March 23, 2015
Liðsfélagi McGregor, Cathal Pendred, birti þetta á Twitter og hefur hann ýmislegt til síns máls. Hvort það eigi eftir að breyta einhverju í bardaganum skal ósagt látið en ljóst er að bardagaaðdáendur geta ekki beðið eftir 11. júlí. Bardagakvöldið gæti orðið enn meira spennandi fyrir Íslendinga ef Gunnar Nelson verður á bardagakvöldinu líkt og óskað hefur verið eftir.
Við munum væntanlega fá enn meira af skemmtilegu efni frá köppunum á næstu dögum.
þetter nammi