Rick Story hefur nú formlega lokið ferli sínum í MMA. Þetta tilkynnti hann í gær en Story var fyrsti maðurinn til að vinna Gunnar Nelson á sínum tíma.
Rick ‘The horror’ Story átti góðan feril en á síðustu árum hefur hann verið þjakaður af meiðslum og barist minna en hann hefði viljað.
Story kom inn í UFC árið 2009 en eftir tap í frumraun sinni vann hann næstu sex bardaga í röð. Þar á meðal voru sigrar gegn mönnum eins og Johny Hendricks og Thiago Alves.
Rick Story er Íslendingum kunnugur eftir bardaga sinn gegn Gunnari Nelson. Story og Gunnar mættust í aðalbardaga kvöldsins á UFC bardagakvöldinu í Stokkhólmi þann 4. október þar sem Story sigraði eftir klofna dómaraákvörðun í fimm lotu bardaga. Eftir það tók erfiður tími við á ferlinum þar sem Story glímdi við ýmis meiðsli. Story gat ekkert barist í tvö ár vegna meiðslanna en snéri aftur í maí 2016 með sigri á Tarec Saffiedine. Hann tapaði svo fyrir Donald Cerrone sama ár og var það síðasti bardagi hans í UFC. Story vildi breyta til og fór á skólabekk til að gerast slökkviliðsmaður. Tæpum tveimur árum síðar var hann kominn í veltivigt Professional Fighters League og tók hann þrjá bardaga á þessu ári en mátti sætta sig við tap í 8-manna úrslitum veltivigtarmótsins.
Story lýkur ferlinum með bardagaskorið 21-10 og má reikna með að hann hlúi nú að ferli sínum sem slökkviliðsmaður.
“To all my fans, friends and supporters, thank you.” pic.twitter.com/mAumWDNB8q
— Rick (@Rick_Story) November 8, 2018