Ronda Rousey mun stjórna þættinum Saturday Night Live þann 23. janúar. Þetta verður hennar fyrsta opinbera framkoma síðan hún tapaði fyrir Holly Holm.
Ronda Rousey var rotuð af Holly Holm þann 15. nóvember síðastliðinn og hefur hvorki sést né heyrst í henni síðan þá fyrir utan einn póst á Instagram.
Rousey er aðeins sú þriðja úr bardagaheiminum sem stjórnar gamanþættinum en áður höfðu boxararnir Marvelous Marvin Hagler og George Foreman gert hið sama.
Þættinum er ávallt stjórnað af þekktum stjörnum en aðrir íþróttamenn sem hafa stjórnað þættinum eru goðsagnir á borð við Tom Brady, LeBron James, Michael Jordan, Wayne Gretzky og Peyton Manning.
Óvíst er hvenær Rousey muni snúa aftur í MMA en hún er um þessar mundir við upptökur á endurgerð á myndinni Roadhouse.