spot_img
Thursday, December 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentRonda Rousey: Það eina sem skiptir máli er að vinna þennan helvítis...

Ronda Rousey: Það eina sem skiptir máli er að vinna þennan helvítis bardaga

Ronda Rousey snýr aftur og mætir Amöndu Nunes á UFC 207 þann 30. desember. Ronda var í afar áhugaverðu viðtali við tímarit ESPN á dögunum þar sem hún fór yfir farin veg, bardagann gegn Nunes og fleira.

Ronda Rousey tapaði fyrir Holly Holm á UFC 193 í nóvember í fyrra. Ronda var rotuð í 2. lotu og viðurkennir að hún hafi ekki verið eins vel undirbúin og áður.

Ronda hefur verið með annan fótinn í Hollywood og reynt að hasla sér völl þar. Það tekur sinn tíma sem og auglýsingar og kynningarherferðir.

Upphaflega áttu Robbie Lawler og Carlos Condit að vera í aðalbardaganum á UFC 193. Lawler meiddist hins vegar og þurfti UFC að fá stóran aðalbardaga í staðinn enda fór UFC 193 fram í stórri höll í Ástralíu fyrir framan 55.000 áhorfendur.

Dana White, forseti UFC, bað Rondu um að flýta bardaga sínum gegn Holm um tæpar sex vikur svo UFC væri með stóran bardaga í Ástralíu.

„Ég var að reyna að gera alla ánægða. Þegar ég reyni að gera öllum greiða og gera alla glaða eru allir sáttir en ég sit eftir og þarf að eiga við þunglyndið. Allir heimsins peningar skipta engu máli þar sem ég tapaði,“ segir Ronda.

Peningar skipta greinilega engu máli fyrir Rondu enda segist hún lifa nokkuð einföldum og ódýrum lífsstíl. Góð kvöldstund væri einfaldlega að hanga heima og spila World of Warcraft með kærastanum Travis Browne.

„Ef peningar keyra þig áfram máttu fara til fjandans. Allt þetta peningalið, Money Floyd Mayweather, Money Conor McGregor. Fólk fílar þetta. Peningadýrkunin í samfélaginu er gríðarleg. Það þarf ekki að vera rétta leiðin þó það sé einfaldasta leiðin til að skemmta þeim eða halda athygli fólks.“

Rondu skortir svo sannarlega ekki peninga og þrátt fyrir efasemdir um annað íhugaði Ronda aldrei að hætta. „Ég vil geta hætt stolt. Að hætta núna væri eins og málari sem horfir á myndina sína hugsandi að myndinni væri ekki lokið. Málarinn gæti sleppt því að klára myndina, gæti selt hana en málarinn mun alltaf vita myndin hefði getað verið betri. Ég vil ekki að ‘nógu gott’ verði arfleifð mín.“

 

Vonir stóðu til að Ronda myndi snúa aftur á UFC 205 í New York í nóvember en það hefði verið of snemmt. Ronda ætlar ekki að láta neitt skemma undirbúninginn fyrir bardagann í þetta sinn en Conor McGregor var þess í stað í aðalbardaganum gegn Eddie Alvarez á UFC 205.

„Conor gaf mér tækifæri til að hvíla mig, hann tók byrgðina af herðum mínum og ég er þakklát fyrir það. Ég mun aldrei aftur setja líkamann í hættu út af peningum eða sjónvarpsáhorfi. Það sem gerir mig hamingjusama er að vinna og að vera sú besta í heimi. Skítt með allt kynningarstarf og alla orkuna sem fer í eitthvað allt annað en undirbúning fyrir sigur. Þetta er ekki tími fyrir einhverja fjandans greiða. Þetta er tími fyrir endurlausn og hefnd.“

„Það eina sem skiptir máli er að vinna þennan helvítis bardaga,“ segir Ronda að lokum.

 

Það verður afar athyglisvert að sjá Rondu Rousey snúa aftur í búrið og spurning hvort hún geti náð beltinu sínu aftur.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular